Í dag er íslenski safnadagurinn. Af því tilefni verður ókeypis aðgangur að sýningunni Börn í 100 ár og boðið upp á leiðsögn á staðnum. Opið er frá 13.00 til 17.00 og gestir boðnir innilega velkomnir.
Í dag eru liðin 120 ár frá fæðingu Guðrúnar Jóhannsdóttur skáldkonu en hún ólst upp á bænum Sveinatungu í Borgarfirði, dóttir hjónanna Jóhanns Eyjólfssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Árið 1915 fluttist fjölskyldan að Brautarholti á Kjalarnesi og kenndi Guðrún sig við þann bæ síðan, en taldi sig þó fyrst og fremst vera Borgfirðing. Eftir Guðrúnu komu út sex bækur á 20 ára tímabili frá 1927-1947, einkum ljóðabækur fyrir börn og fullorðna. Guðrún er þekktust fyrir fjölmargar þulur sínar en einnig má sjá mörg önnur form kveðskapar í bókum hennar.
Safnahús hefur fengið styrk til úr samfélagssjóði Landsbankans.Veittir voru alls 14 styrkir og voru styrkþegar valdir úr 130 umsækjendum. Styrkurinn sem Safnahús fékk er ætlaður til uppbyggingar fuglasýningar, en um 350 uppstoppaðir fuglar eru í eigu Náttúrugripasafns Borgarfjarðar. Sýningin er unnin í samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands og verður sérstaklega ætluð til að auka þekkingu og vitund gesta um mikilvægi verndunar búsetusvæða fugla.
Sýningar í Safnahúsi eru opnar alla daga í sumar frá 13-17, en bókasafnið er opið alla virka daga frá 13-18. Sýningarnar í Safnahúsi eru þessar:
Börn í 100 ár - sýning sem byggist upp á ljósmyndum sem segja sögu Íslands á 20. öld út frá lífi barna í landinu á þessum tíma. Sýningin hentar frábærlega fyrir börn - á öllum aldri.
Sýning á ljósmyndum Þorsteins Jósepssonar frá Signýjarstöðum. Viðfangsefnið er mannlíf og staðir í Borgarfirði og á Mýrum fyrir miðja 20. öld.
Sýning um afburðamanninn sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka.
Í fimmta sinn er efnt til til sumarlesturs í Safnahúsi. Sumarlesturinn er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og tímabilið er frá 10. júní - 10. ágúst. Markmiðið er að nemendur viðhaldi og þjálfi lestrarleiknina sem þeir hafa tileinkað sér í skólunum yfir veturinn. Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu. Í ágúst verður svo haldin uppskeruhátíð sumarlestursins, en þá koma krakkarnir í Safnahús til leiks og skemmtunar og þiggja viðurkenningar og hressingu.
Opnuð hefur verið í Safnahúsi sýning á ljósmyndum Þorsteins Jósepssonar (1907-1967), blaðamanns og ljósmyndara frá Signýjarstöðum í Hálsasveit. Sýningin er sett upp í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og um er að ræða vinnuuppstillingu þar sem fólk er beðið að gefa frekari upplýsingar um myndirnar sé þess kostur.
Í dag eru liðin hundrað ár frá fæðingu Sigríðar Beinteinsdóttur frá Grafardal en hún bjó lengst af á Hávarðsstöðum í Leirársveit. Sigríður var ein af skáldmæltu systkinunum frá Grafardal, sú fjórða í röð átta systkina barna hjónanna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur sem bjuggu í 20 ár í Grafardal en síðar á Geitabergi og á Draghálsi.
Þann 28. apríl síðastliðin fagnaði Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir prófessor 85 ára afmæli sínu.
Þuríður fæddist á Steinum í Stafholtstungum 28. apríl árið 1927, langyngst fimm barna hjónanna Kristjáns Franklíns Björnssonar bónda og smiðs og konu hans Jónínu Rannveigar Oddsdóttur. Í uppvexti Þuríðar var heimilið á Steinum mannmargt og meðal annars náði hún í „skottið“ á baðstofulífi en í húsinu var stórt herbergi í risi, baðstofan.