Þann 28. apríl síðastliðin fagnaði Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir prófessor 85 ára afmæli sínu.

Þuríður fæddist á Steinum í Stafholtstungum 28. apríl árið 1927, langyngst fimm barna hjónanna Kristjáns Franklíns Björnssonar bónda og smiðs og konu hans Jónínu Rannveigar Oddsdóttur. Í uppvexti Þuríðar var heimilið á Steinum mannmargt og meðal annars náði hún í „skottið“ á baðstofulífi en í húsinu var stórt herbergi í risi, baðstofan. 

Mynd tekin Steinum árið 1930, Þuríður ásamt hundinum Karo.
Þuríður stundaði nám í farskóla þess tíma en skólaskylda í farskóla hófst við tíu ára aldur. Að loknu skyldunámi gekk Þuríður menntaveginn og eftir nám í Héraðsskólanum í Reykholti tók hún kennararpróf frá K.Í. árið 1948. Í framhaldinu stundaði hún nám erlendis á næstu árum og lauk meðal annars B.Sc. í sálarfræði frá ríkishásk. í Illinois í Bandaríkjunum 1968 og M.Ed. i menntasálarfræði frá sama skóla ári síðar. Hún lauk síðan doktorsprófi þaðan árið 1971. Þuríður kenndi í tvo vetur við gagnfræðaskólann í Stykkishólmi 1948-1950 og einn vetur við héraðsskólann á Skógum, veturinn 1952-53. Um haustið sama ár réðst hún sem kennari við Hagaskólann í Reykjavík og kenndi þar samfellt til ársins 1966. Þuríður var kennari við Kennaraháskóla Íslands frá 1971-73 en það ár var hún skipuð fyrsti prófessor Kennara- háskólans og varð jafnframt fyrsta konan sem gegndi prófessorsembætti í sálarfræði við íslenskan háskóla. Stöðu sinni gegndi Þuríður til ársins 1989 en á árunum 1983-1987 starfaði hún sem Konrektor við skólann. Eftir að hún sagði stöðu sinni lausri starfaði hún sem stundarkennari við skólann í nokkur ár. Meðal annarra kennslustarfa Þuríðar má nefna að hún starfaði sem stundakennari við fleiri skóla, m.a. H.Í. og Fósturskóla sumargjafar og var jafnframt í eitt ár skólastjóri í hlutastarfi við skólann. Þá starfaði Þuríður í eitt ár í hlutastarfi við Skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins og skipulagði og stjórnaði fjarnámi við KHÍ 1979-83 og aftur 1987-1991 svo fátt eitt sé nefnt.

 

Í tilefni af 70 ára afmæli Þuríðar árið 1997 heiðruðu vinir hennar og samstarfsfólk hana með greinasafni um helstu viðfangsefni hennar á sviði menntunar og skólamála. Bókin ber heitið Steinar í vörðu. Í upphafi bókar er viðtal við Þuríði þar sem hún greinir frá ævi sinni í stuttu máli, þar eru einnig birtar frásagnir nemenda hennar í gegnum tíðina og eru þær á þann veg; að þar hafi farið framúrskarandi góður kennari sem hafði góða stjórn á nemendum sínum og lét sér annt um þá.

 

Auk ýmissa skrifa í blöð, tímarit og bækur og skrif tengdu námi sínu og starfi, hefur Þuríður starfað ötullega að framgangi Sögufélags Borgarfjarðar síðustu ár og hún hefur verið ritstjóri og meðhöfundur Borgfirskra æviskráa frá áttunda bindi og er enn að, en nú þegar hafa 13 bindi litið dagsins ljós. Í viðtali við Morgunblaðið 5.desember 2005 segir Snorri Þorsteinsson formaður Sögufélags Borgarfjarðar það hafa verið ómetanlegt fyrir félagið að fá Þuríði til starfa við æviskrárnar hún sé góður vísindamaður og hafi verkefnið verið tekið föstum tökum í tíð hennar. Þuríður hafði einnig umsjón með Íbúatali Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu og Akraness árin 1991 og 1996, en Sögufélag Borgarfjarðar gefur það að jafnaði út fimmta hvert ár. Þá hefur Þuríður starfað nokkuð við þyðingar og þýddi hún meðal annars ævisögu Margrétar Þórhildar danadrottningar sem út kom árið 1990 og bókina Hvað er Heyrnarleysi í félagi við Ólaf Halldórsson árið 1988.

Þuríður hefur einnig fengist nokku við ljóðagerð en ljóð hennar hafa m.a birst í Borgfirðingaljóðum og í bókinni Þá rigndi blómum sem gefin var út í tilefni af 60 ára afmæli Sambands borgfirskra kvenna þann 4. maí 1991. Þuríður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, árið 1990 hlaut hún Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf í þágu kennaramenntunar á Íslandi. Árið 2007 var hún heiðruð af félaginu Delta Kappa Gamma, félagi kvenna í fræðslustörfum fyrir framlag sitt til félagsins og menntamála í landinu en hún var fyrsti formaður þess. Myndin við upphaf þessarar greinar er einmitt tekin við það tilefni í Reykholti.

Um leið og sendar eru bestu hamingjuóskir til Þuríðar í tilefni af þessum merku tímamótum þakkar starfsfólk Safnahúss einstaka velvild hennar og hjálpsemi í garð safnanna í gegnum tíðina.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed