Í dag eru liðin hundrað ár frá fæðingu Sigríðar Beinteinsdóttur frá Grafardal en hún bjó lengst af á Hávarðsstöðum í Leirársveit.  Sigríður var ein af skáldmæltu systkinunum frá Grafardal, sú fjórða í röð átta systkina barna hjónanna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur sem bjuggu í 20 ár í Grafardal en síðar á Geitabergi og á Draghálsi. 

 Sigríður giftist Jóni Magnússyni frá Brekku í Hvalfjarðarstrandarhreppi árið 1937 og bjuggu þau frá 1944 á Hávarðsstöðum í Leirársveit, Jón lést árið 1998. Synir Jón og Sigríðar eru þrír, tvíburarnir Gunnar Magnús og Grétar f. 1938 og Georg Pétur f.1946. Eins og kunnugt er voru systkinin frá Grafardal afar skáldmælt og komu út ljóðabækur eftir sex þeirra, auk þess sem finna má kveðskap þeirra allra í bókinni Raddir dalsins sem Hörpuútgáfan á Akranesi gaf út árið 1993. Ljóðabækur Sigríðar eru tvær, sú fyrri kom út árið 1984 og bar heitið Komið af fjöllum og Um fjöll og dali leit dagsins ljós árið 1990. Gaman er að segja frá því að í smíðum er grein um ævi Sigríðar og mun hún væntanlega birtast í Borgfirðingabók innan skamms. Sigríður lést í janúar 2008 á 96. aldursári.

 

Það fer vel á því að ljúka þessari frétt með því að birta eitt kvæða Sigríðar, það nefnist Á leið upp í Borgarfjörð 1977.

 

Ef við sjáum sviðna jörð

svarta, gráa og bleika

upp um bláan Borgarfjörð

best er þá að reika.

 

Þar er litaljóminn skær

ljósbrot titra daggar

lindin sitrar silfurtær

sólargliti vaggar.

 

Verjið landið, vötn og fjöll

vits með brandi hálum

saman standið ávallt öll

eyðið vandamálum.

 

Ykkur geymi auðnan há

andar sveimi góðir

aldrei streyma eitur má

um ykkar heimaslóðir.

(Komið af fjöllum: 53-54)

 

Mynd með frétt: Björn Sv. Björnsson 1994.

Categories:

Tags:

Comments are closed