Í dag kom góður gestur færandi hendi í Safnahús, það var Sigurjón Vilhjálmsson sem kom fyrir hönd fjölskyldu sinnar með innrammaðar ljósmyndir af afa og ömmu konu sinnar heitinnar, Guðrúnar Arnórs. Afi hennar og amma voru hjónin sr. Arnór Þorláksson (1859-1913) og Guðrún Elísabet Jónsdóttir (1867-1906) á Hesti í Andakíl. Sr. Arnór hét fullu nafni Arnór Jóhannes og var prestur í Hestþingum frá árinu 1884 til dánardags. Þau hjónin áttu 10 börn, þar á meðal Mörtu Maríu sem var fædd árið 1891 og var móðir Guðrúnar Arnórs. Svo er sagt í Borgfirskum æviskrám (1. bindi, bls.: 83) um sr. Arnór: „Var vel gefinn, góður ræðumaður og söngvinn, skáldmæltur nokkuð, ágætlega ritfær...litlll vexti, en kvikur á fæti og talinn ágætur hestamaður.“
Ný örsýning hefur verið sett upp í Safnahúsi, í samvinnu skjala- og bókasafns. Um er að ræða bókamerki frá ýmsum tímum sem mörg hver hafa fundist í safngögnum. Sum hver voru fjöldaframleidd og bera með sér auglýsingar eða skilaboð á einhvern hátt en önnur eru persónuleg hönnun.
Öll eiga þau sameiginlegt að gegna því hlutverki að merkja þann stað í bókinni þegar skilið var við hana. Þeir sem þekkja sín bókamerki í kistunni mega endilega láta starfsfólk vita og fá þau aftur!
Sumarið hefur verið líflegt í Safnahúsi og m.a. mikið af erlendum ferðamönnum skoðað sýningarnar þrjár í húsinu: Börn í 100 ár, Ævintýri fuglanna og Landið sem þér er gefið - minningarsýningu um Guðmund Böðvarsson skáld.
Sýningarnar verða opnar næstu tvær helgar en annars hefur vetraropnun tekið gildi og þá er opið alla virka daga 13-16 eða á öðrum tímum eftir samkomulagi. Bókasafnið er eftir sem áður opið alla virka daga 13-18 og Héraðsskjalasafnið 8-16 alla virka daga. Tekið er á móti hópum, bæði skólahópum og almennum hópum og er bent á upplýsingablöð um það hér á heimasíðunni.
Á morgun föstudaginn 15. ágúst verður mikið um dýrðir í Safnahúsi, því þá verður lokum Sumarlestursins þetta árið fagnað, en alls tóku 53 börn þátt í sumar sem er nýtt héraðsmet. Bækurnar sem þessir duglegu krakkar lásu voru um 300, hvorki meira né minna. Uppskeruhátíðin hefst klukkan ellefu og stendur í um klukkustund að venju. Veitt verða viðurkenningar og tilkynnt um vinningshafa í happadrættinu. Boðið uppá veitingar og farið í leiki. Líklegt verður að teljast að Borgarnesmótið í Limbó verði háð einsog undanfarin ár. Alir hjartanlega velkomnir.
Á íslenska safnadaginn bjóða söfn landsins heim í öllum sínum fjölbreytileika. Í Safnahúsi verður ókeypis aðgangur að öllum sýningum í tilefni dagsins og boðið er upp á leiðsögn (Bjarki Þór Gunnarsson Grönfeldt) en í húsinu eru þrjár sýningar:
Börn í 100 ár - byggðamunir og ljósmyndir.
Ævintýri fuglanna - fuglasafn Náttúrugripasafns Borgarfjarðar
Landið sem þér er gefið, minningarsýning um Guðmund Böðvarsson skáld á Kirkjubóli.
Vonast er til að heimamenn og gestir nýti sér þennan dag til safnaheimsókna og bent skal sérstaklega á hitt safnið í Borgarfjarðarhéraði: Landbúnaðarsafn Íslands, http://www.landbunadarsafn.is/ en þar er einnig viðburður á laugardeginum 12. júlí vegna 125 ára afmælis skólastarfs á Hvanneyri.
Sveinbjörn Beinteinsson, skáldbóndi og Allsherjargoði fæddist þennan dag árið 1924, yngstur átta barna hjónanna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur konu hans sem fyrst bjuggu í Grafardal en síðar á Draghálsi í Svínadal. Einsog kunnungt er voru systkinin öll skáldmælt og út komu ljóðabækur eftir sex þeirra og öll áttu þau efni í bókinni Raddir Dalsins sem út kom árið 1993. Sveinbjörn var bóndi á Draghálsi frá 1944 en bjó síðustu æviárin í Hlíðarbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann var um tíma kvæntur Svanfríði Hagvaag og eignaðist með henni synina Georg Pétur og Einar. Hann stofnaði ásamt fleirum Ásatrúarsöfnuðinn 1972 og var fyrsti Allsherjargoði hans. Eftir Sveinbjörn liggja fjölmargar bækur og ýmis ritstörf önnur. Ævisögu sína skrifaði hann árið 1992 í félagi við Berglindi Gunnarsdóttur og bar bókin heitið Allsherjargoðinn.
Jón Helgason fæddist þann 27.maí árið 1914. Hann var sonur hjónanna Helga Jónssonar bónda á Stóra-Botni í Hvalfirði og konu hans Oddnýjar Sigurðardóttur. Jón kvæntist Margréti Pétursdóttur árið 1942 og saman eignuðust þau þrjá syni.
Jón var við nám í Alþýðuskólanum á Laugum í einn vetur og hluta úr vetri í Samvinnuskólanum þegar hann réð sig sem blaðamann við Nýja dagblaðið 1937. Þar má segja að ævistarfið hafi strax verið valið því Jón sinnti því starfi til æviloka, hann var fréttastjóri við Tímann frá 1938-1953 er hann varð ritstjóri Frjálsar Þjóðar í sjö ár en tók við starfi ritstjóra Tímans árið 1961 og sinnti til til æviloka. Blaðamannastörfin segja ekki nema hálfa söguna um starfsævi Jóns Helgasonar því eftir hann liggja yfir 20 frumsamdar bækur, mjög fjölbreytilegar að efni.
Í sjöunda sinn efnir Héraðsbókasafn Borgarfjarðar í Safnahúsi til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Tímabil sumarlesturs í ár er 10.júní-10.ágúst og markmiðið með verkefninu er að nemendur viðhaldi og þjálfi þá lestrarleikni sem þeir hafa tileinkað sér í skólunum yfir veturinn. Verkefnið hefur notið mikilla vinsælda og sömu krakkarnir eru með ár eftir ár og alltaf bætast fleiri við. Verkefnið er þátttakendum að kostnaðarlausu en sumarlestrinum lýkur formlega með uppskeruhátíð í lok sumars en þá koma krakkarnir í Safnahús til leiks og skemmtunar og þiggja viðurkenningar og hressingu.
Björn Jakobsson fæddist þennan dag árið 1894, yngstur fimm barna hjónanna Jakobs Jónssonar og Herdísar Sigurðardóttur á Varmalæk í Bæjarsveit. Björn kvæntist Guðnýju Kristleifsdóttur Þorsteinssonar árið 1927 en Guðný lést aðeins fimm árum síðar, þau voru barnlaus.
Björn var bústjóri og kennari við Hvítárbakkaskóla 1920-1926 og kennari við Reykholtsskóla 1941-1964. Björn var jafnframt bústjóri á Stóra-kroppi 1927-1953 en flutti þá aftur að Varmalæk og þaðan í Borgarnes árið 1964. Framlag Björns til tónlistar í héraðinu og víðar var afar þýðingarmikið; hann byrjaði ungur að kenna söng, var organisti í mörgum kirkjum í Borgarfirði, lengst í Bæjarkirkju þar sem hann starfaði í 60 ár. Um skeið starfaði Björn hjá Kirkjukórasambandi Íslands og þjálfaði þá kóra víða á Suðurlandi og í heimahéraði. Hann samdi fjölmörg sönglög, bæði sálma- og ljóðalög. Árið 1973 gaf Kaupfélag Borgfirðinga út nótnabók með sönglögum hans.
Í september s.l. barst til byggðasafnsins fagurlega útskorin tóbaksponta, gerð af Ríkharði Jónssyni og merkt með upphafsstöfum hans. Auk þess eru stafirnir GB á loki pontunnar (merking óljós). Gefandi var Doc Weaver sem búsettur er í Bandaríkjunum. Tildrög gjafarinnar voru nokkuð sérstök: Tvö systkini í Borgarnesi höfðu gefið föður gefandans, Frank M. Weaver foringja í bandaríska hernum pontuna við brottför hans frá Borgarnesi árið 1943, þau Sesselja og Jón Magnúsbörn (börn Magnúsar Jónssonar sparisjóðsstjóra í Borgarnesi og Guðrúnar Jónsdóttur). Við afhendinguna var tekið fram að tappann vantaði á pontuna, en nú hefur borist bréf frá Doc syni Weavers, hann er búinn að finna hann og senda í ábyrgðarpósti til Íslands. Þetta er vissulega gleðiefni og ber að þakka vel þá miklu natni og samviskusemi sem hann sýnir með þessu. Þess má einnig geta að Doc ætlar að taka saman það sem hann man af frásögn föður síns um dvölina í Borgarnesi á stríðsárunum og senda héraðsskjalasafninu til varðveislu, verður það efni eflaust mjög fróðleg lesning.
Sjá má nánar um þennan merka mun á www.sarpur.is (Byggðasafn Borgarfjarðar).