Sveinbjörn Beinteinsson, skáldbóndi og Allsherjargoði fæddist þennan dag árið 1924, yngstur átta barna hjónanna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur konu hans sem fyrst bjuggu í Grafardal en síðar á Draghálsi í Svínadal. Einsog kunnungt er voru systkinin öll skáldmælt og út komu ljóðabækur eftir sex þeirra og öll áttu þau efni í bókinni Raddir Dalsins sem út kom árið 1993. Sveinbjörn var bóndi á Draghálsi frá 1944 en bjó síðustu æviárin í Hlíðarbæ á Hvalfjarðarströnd.  Hann var um tíma kvæntur Svanfríði Hagvaag og eignaðist með henni synina Georg Pétur og Einar. Hann stofnaði ásamt fleirum Ásatrúarsöfnuðinn 1972 og var fyrsti Allsherjargoði hans.  Eftir Sveinbjörn liggja fjölmargar bækur og ýmis ritstörf önnur. Ævisögu sína skrifaði hann árið 1992 í félagi við Berglindi Gunnarsdóttur og bar bókin heitið Allsherjargoðinn.