Jón Helgason fæddist þann 27.maí árið 1914.  Hann var sonur hjónanna Helga Jónssonar bónda á Stóra-Botni í Hvalfirði og konu hans Oddnýjar Sigurðardóttur.  Jón kvæntist Margréti Pétursdóttur árið 1942 og saman eignuðust þau þrjá syni.

Jón var við nám í Alþýðuskólanum á Laugum í einn vetur og hluta úr vetri í Samvinnuskólanum þegar hann réð sig sem blaðamann við Nýja dagblaðið 1937.  Þar má segja að ævistarfið hafi strax verið valið því Jón sinnti því starfi til æviloka, hann var fréttastjóri við Tímann frá 1938-1953 er hann varð ritstjóri Frjálsar Þjóðar í sjö ár en tók við starfi  ritstjóra Tímans árið 1961 og sinnti til til æviloka.  Blaðamannastörfin segja ekki nema hálfa söguna um starfsævi Jóns Helgasonar því eftir hann liggja yfir 20 frumsamdar bækur, mjög fjölbreytilegar að efni. 

Fyrsta bók Jóns var árbók Ferðafélags Íslands árið 1950 sem bar nafnið Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar en þar fjallaði Jón um átthaga sína. Árið 1967 skrifaði hann bókina Hundrað ár í Borgarnesi á hundrað ára kaupstaðarafmæli staðarins.  Þá átti Jón einnig frásagnir í Borgfirski blöndu og skrifaði formála og hafði umsjón með bók Halldóru B. Björnsson Jörð í álögum sem kom út ári eftir andlát hennar.  Þó ljóðagerð sé lítt áberandi í höfundarverki Jóns átti hann ljóð í bókinni Borgfirsk ljóð sem út kom árið 1947 og hafði að geyma ljóð eftir 54 höfunda.

 

Frumsamdar bækur Jóns. Mynd:GJ
Fyrirferðamest í höfundarverki Jóns eru þó án efa ritröðin Íslenskt Mannlíf sem út kom í fjórum bindum á árunum 1958-1962 en var svo endurútgefin árið 1984 í fallegri öskju.  þar má finna þessi orð orð Dr. Kristjáns Eldjárns um verkið: … Þessi höfundur fer listamannshöndum um efni sitt, byggir eins og listamaður af þeim efnivið, sem hann dregur saman sem vísindamaður. 

 

Á næstu árum sendi Jón frá sér fjölmargar bækur, meðal annars bækurnar Öldin átjánda og Öldin sautjánda úr hinum vinsæla bókaflokki um aldirnar.  Jón var líka nokkuð afkastamikill þýðandi. Nýr bókaflokkur leit dagsins ljós á árunum 1968-1970 og bar hann heitið Vér Íslands börn og kom út í þremur bindum sem nokkurskonar framhald af Íslensku mannlífi en þar hélt Jón áfram að segja örlagasögur fólks frá liðnum öldum.  Tvær ævisögur skrifaði Jón í framhaldinu og bætti svo enn um betur í fjölbreytileika ritstarfa sinna og sendi frá sér uppúr 1970 fjögur smásagnasöfn sem hlutu eins og aðrar bækur hans góðar viðtökur. Jón var meðal annars  annálaður fyrir frábært vald sitt á íslensku máli.  Síðustu útgefnu bækur hans voru Öldin sextánda í tveimur bindum og bókin Stóra bomban sem Jón hafði nýlokið við fyrir andlát sitt en hún greinir sem kunnugt er frá einhverjum hatrömmustu átökum sem átt hafa sér stað í íslenskum stjórnmálum fyrr og síðar.

 

Jón hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars frá Rithöfundasjóði Íslands árið 1975.  Þá þáði hann listamannalaun frá árinu 1972.  Hér eru ótalin ýmis fyrirferðarmikil störf önnur svo sem að stjórnmálum og ferðamálum.

 

Jón varð bráðkvaddur í veiðiferð við ána Svartá 4.júlí árið 1981- rúmlega 67 ára að aldri. Þá voru í deiglunni ýmis ritstörf og hafði hann byggt sér lítið hús á æskuslóðum sínum í Hvalfirði og þar hafði hann komið ritvélinni sinni fyrir eins og frá greinir í einni af fjölmörgum minningargreinum sem um merkismanninn Jón Helgason frá Stóra-Botni voru skrifaðar.

 

Myndin af Jón birtist í V.bindi B.Æ. 1978.
 
Samantekt: Sævar Ingi Jónsson
Helstu heimildir:
Borgfirskar æviskrár v.bindi 1978.
Íslendingaþættir Tímans 15.júlí 1977.
Bækur Jóns Helgasonar.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed