Í september s.l. barst til byggðasafnsins fagurlega útskorin tóbaksponta, gerð af Ríkharði Jónssyni og merkt með upphafsstöfum hans. Auk þess eru stafirnir  GB á loki pontunnar (merking óljós).  Gefandi var Doc Weaver sem búsettur er í Bandaríkjunum. Tildrög gjafarinnar voru nokkuð sérstök:  Tvö systkini í Borgarnesi höfðu gefið föður gefandans, Frank M. Weaver foringja í bandaríska hernum pontuna við brottför hans frá Borgarnesi árið 1943, þau Sesselja og Jón Magnúsbörn (börn Magnúsar Jónssonar  sparisjóðsstjóra í Borgarnesi og Guðrúnar Jónsdóttur).  Við afhendinguna var tekið fram að tappann vantaði á pontuna, en nú hefur borist bréf frá Doc syni Weavers, hann er búinn að finna hann og senda í ábyrgðarpósti til Íslands.  Þetta er vissulega gleðiefni og ber að þakka vel þá miklu natni og samviskusemi sem hann sýnir með þessu.  Þess má einnig geta að Doc ætlar að taka saman það sem hann man af frásögn föður síns um dvölina í Borgarnesi á stríðsárunum og senda héraðsskjalasafninu til varðveislu, verður það efni eflaust mjög fróðleg lesning.

 

Sjá má nánar um þennan merka mun á www.sarpur.is (Byggðasafn Borgarfjarðar).