Í dag kom góður gestur færandi hendi í Safnahús, það var Sigurjón Vilhjálmsson sem kom fyrir hönd fjölskyldu sinnar með innrammaðar ljósmyndir af afa og ömmu konu sinnar heitinnar, Guðrúnar Arnórs.  Afi hennar og amma voru hjónin sr. Arnór Þorláksson (1859-1913) og Guðrún Elísabet Jónsdóttir (1867-1906) á Hesti í Andakíl.  Sr. Arnór hét fullu nafni  Arnór Jóhannes og var prestur í Hestþingum frá árinu 1884 til dánardags. Þau hjónin áttu 10 börn, þar á meðal Mörtu Maríu sem var fædd árið 1891 og var móðir Guðrúnar Arnórs. Svo er sagt í Borgfirskum æviskrám (1. bindi, bls.: 83) um sr. Arnór: „Var vel gefinn, góður ræðumaður og söngvinn, skáldmæltur nokkuð, ágætlega ritfær...litlll vexti, en kvikur á fæti og talinn ágætur hestamaður.“