Björn Jakobsson fæddist þennan dag árið 1894, yngstur fimm barna hjónanna Jakobs Jónssonar og Herdísar Sigurðardóttur á Varmalæk í Bæjarsveit.  Björn kvæntist Guðnýju Kristleifsdóttur Þorsteinssonar árið 1927 en Guðný lést aðeins fimm árum síðar, þau voru barnlaus.

Björn var bústjóri og kennari við Hvítárbakkaskóla 1920-1926 og kennari við Reykholtsskóla 1941-1964. Björn var jafnframt bústjóri á Stóra-kroppi 1927-1953 en flutti þá aftur að Varmalæk og þaðan í Borgarnes árið 1964.  Framlag Björns til tónlistar í héraðinu og víðar var afar þýðingarmikið; hann byrjaði ungur að kenna söng, var organisti í mörgum kirkjum í Borgarfirði, lengst í Bæjarkirkju þar sem hann starfaði í 60 ár.  Um skeið starfaði Björn hjá Kirkjukórasambandi Íslands og þjálfaði þá kóra víða á Suðurlandi og í heimahéraði.  Hann samdi fjölmörg sönglög, bæði sálma- og ljóðalög. Árið 1973 gaf Kaupfélag Borgfirðinga út nótnabók með sönglögum hans.