Björn Jakobsson fæddist þennan dag árið 1894, yngstur fimm barna hjónanna Jakobs Jónssonar og Herdísar Sigurðardóttur á Varmalæk í Bæjarsveit.  Björn kvæntist Guðnýju Kristleifsdóttur Þorsteinssonar árið 1927 en Guðný lést aðeins fimm árum síðar, þau voru barnlaus.

Björn var bústjóri og kennari við Hvítárbakkaskóla 1920-1926 og kennari við Reykholtsskóla 1941-1964. Björn var jafnframt bústjóri á Stóra-kroppi 1927-1953 en flutti þá aftur að Varmalæk og þaðan í Borgarnes árið 1964.  Framlag Björns til tónlistar í héraðinu og víðar var afar þýðingarmikið; hann byrjaði ungur að kenna söng, var organisti í mörgum kirkjum í Borgarfirði, lengst í Bæjarkirkju þar sem hann starfaði í 60 ár.  Um skeið starfaði Björn hjá Kirkjukórasambandi Íslands og þjálfaði þá kóra víða á Suðurlandi og í heimahéraði.  Hann samdi fjölmörg sönglög, bæði sálma- og ljóðalög. Árið 1973 gaf Kaupfélag Borgfirðinga út nótnabók með sönglögum hans. 

Björn hlaut fyrstur tónskálda verðlaun úr Tónmenntasjóði kirkjunnar fyrir frumsamin sálmalög og organistastörf. 

Að auki sinnti hann ýmsum ritstörfum öðrum.

Í II.bindi Héraðssögu Borgarfjarðar er stórmerkilegur bókarkafli eftir Björn sem ber heitið Skáld, rithöfundar og hagyrðingar.  Þar er á einn stað safnað saman fróðleik um nær alla þá sem lagt höfðu skáldskapinn fyrir sig í héraðinu, allt frá dögum Egils Skallagrímssonar til ársins 1937.  Það yfirlit er afar ítarlega og vel unnið og hefur mikið heimildagildi enn þann dag í dag. 

 

Björn var mikill áhugamaður um þjóðlegan fróðleik og birtust margar greinar hans í borgfirskri blöndu og raunar víðar í blöðum og tímaritum.  Hann var fyrsti ritstjóri Kaupfélagsritsins og forgöngumaður um stofnun þess árið 1964 og stýrði því til æviloka.  Það fer vel á því að ljúka þessum örfáu orðum um ævi þessa merka manns á Kveðjustefi hans sem birtist lesendum á baksíðu 58. heftis af Kaupfélagsritinu sem varð jafnframt hans síðasta en Björn lést 17. ágúst 1977 aðeins nokkrum vikum eftir útkomu ritsins.

 

Með síðsta hefti- sem er mitt-

sendi ég kveðju mína

öllum, sem þau hafa hitt,

– og hjálp mér veittu sína.

 

Samantekt: Sævar Ingi Jónsson
helstu heimildir:
B.Æ. I.bindi 1969
Organistablaðið 10.árg. 3.tbl 1977
Kaupfélagsritið 58.hefti, Júní 1977.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed