Mikil aðsókn var að sýningunni Börn í 100 ár um helgina, þó sérstaklega á Íslenska safnadeginum, sem var á sunnudaginn. Gestir voru á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum og allir virtust geta notið sýningarinnar eins og best varð á kosið. Safnvörður veitti leiðsögn um sýninguna eftir þörfum og var hún vel þegin. Meðfylgjandi mynd var tekin á sýningunni á íslenska safnadeginum.

Fyrir nokkrum dögum komu nokkrir góðir menn færandi hendi til Safnahúss. Þeir voru með bát meðferðis sem færður var safninu að gjöf. Forsaga málsins er sú að fyrir nokkrum vikum kom Willy Petersen að máli við Safnahús og sagði að hann og nokkrir aðrir hefðu hug á að bjarga báti til byggða, en hann væri staðsettur uppi á Arnarvatnsheiði og hefði verið þar í rúmlega 80 ár.

Sú skemmtilega hugmynd hefur fæðst hjá aðstandendum Skemmukaffisins á Hvanneyri að fá eitthvað að láni frá söfnum í héraðinu til að sýna gestum.  Meðal muna sem koma frá Byggðasafni Borgarfjarðar er rokkur úr eigu Hildar Guðmundsdóttur, húsfreyju á Haukagili í Hvítársíðu.

Tvær sýningar eru nú í gangi í Safnahúsi. annars  vegar er það sýningin Börn í 100 ár, sem er á neðri hæð hússins. Þar er opið frá 13-18 alla daga sumarsins. Sýningin þykir einstök í sinni röð og segir sögu Íslands á 20 öld úr frá sjónarhóli og umhverfi barna. Hún hentar jafnt fyrir Íslendinga sem erlenda ferðamenn og alla aldurshópa, ekki síst börn.  Börn í 100 ár er fastasýning Safnahúss og mun standa óbreytt næstu árin. Aðgangseyrir er kr. 600 fyrir fullorðna, en ókeypis er fyrir börn allt að 16 ára aldri. Afsláttur er fyrir eldri borgara, öryrkja og hópa.

 

Á efri hæð hússins er svo sýningin Kaupmannsheimilið, þar sem sagt er frá vandaðri og metnaðarfullri fjölskyldu sem var búsett í Borgarnesi á fyrri hluta 20. aldar.

Meðfylgjandi mynd var tekin fyrir helgina þegar tveir nemendur við Menntaskóla Borgarfjarðar heimsóttu Sævar Inga Jónsson héraðsbókavörð til að færa honum blóm með þökkum fyrir góða þjónustu á námstímanum.  Áður höfðu fleiri nemendur heimsótt safnið í líkum erindagjörðum og sýndu Sævari þannig hlýhug sinn í verki.

 

Aðstoð við námsmenn er mikilvægur hluti af daglegri starfsemi bókasafnsins og er gott að finna að það er vel metið, en greiðvikni og hjálpsemi Sævars Inga hefur verið við brugðið þegar þörf hefur verið á að leita heimilda í bókasafninu.

 

Mynd eftir Elínu E. Einarsdóttur en Elín hefur teiknað eina mynd fyrir hvert ár sem verkefnið hefur verið í gangi í Safnahúsi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í þriðja sinn efnir Héraðsbókasafn Borgarfjarðar til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Tímabil sumarlesturs er frá 10. júní - 10. ágúst.

 

Markmiðið með verkefninu sem þreytt hefur verið víða um land með góðum árangri er að: Nemendur viðhaldi og þjálfi ennfremur, þá lestrarleikni sem þeir hafa tileinkað sér í skólunum yfir veturinn. 

 

Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu.

 

Á morgun hefst sumaropnun sýningarinnar Börn í 100 ár, fastasýningar Safnahúss. Verður hún opin alla daga í sumar, frá 13-18 alla daga (jafnt hátíðisdaga og helgar sem virka daga).

 

Sýningin er hönnuð af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndateiknara og hefur hlotið mikið lof þeirra sem hana hafa séð, ekki síst fyrir frumlegt og óvenjulegt  sjónarhorn á menningararfinn. Í sýningunni má sjá sögu Íslands á 20. öld út frá börnum og umhverfi þeirra. Hið sjónræna er þar í fyrirrúmi og því leika ljósmyndir stór hlutverk. Ennfremur eru byggðasafnsmunir í sýningarhólfum á veggjum sem opnuð eru eins og jóladagatal. Á sýningunni er einnig stillt upp gamalli baðstofu frá Úlfsstöðum í Hálsasveit auk þess sem gestir ganga um herbergi unglings í nútímanum; frá árinu 2008.

 

Safnahúsi hefur borist góð gjöf frá Snorrastofu vegna 50 ára afmæli Byggðasafns Borgarfjarðar. Um er að ræða eftirtaldar bækur úr ritröð og útgefnar af Snorrastofu: Studies in Icelandic Fourteenth Century Book Painting (eftir dr. Lena Liepe, prófessor í listasögu við Háskólann í Osló),  Snorres Edda i europeisk og Islands kultur (ritstjóri dr. Jon Gunnar Jørgensen), Den norröna renässansen. Reykholt, Norden och Europa 1150-1300 og bókina Til heiðus og hugbótar, sem í eru greinar um trúarkveðskap á fyrri tíð.

 

Síðast en ekki síst var innifalið í gjöfinni eintak af Reykjaholtsmáldaga sem Snorrastofa gaf út í samvinnu við Reykholtskirkju árið 2000. Um er að ræða eitt stakt kálfskinnsblað með máldaga kirkjunnar í Reykholti í Borgarfirði, þ.e. skrá yfir eignir og réttindi kirkjunnar seinni hluta 12. aldar til aldamótanna 1300.

 

Starfsfólk kann Snorrastofu bestu þakkir fyrir þessa veglegu gjöf og hlýhug til starfseminnar í Safnahúsi.

 

Sögusýningin Kaupmannsheimilið verður opnuð í Safnahúsi miðvikudaginn 12. maí næstkomandi. Um er að ræða einstakt safn gagna og muna úr eigu fjölskyldu Jóns Björnssonar frá Bæ og Helgu Maríu Björnsdóttur konu hans og er uppistaðan rausnargjöf sem söfnunum barst fyrir  nokkru.

Útskriftarhópur frá leikskólanum Klettaborg voru glaðir í bragði þegar þeir komu til að skoða sýningu nemenda Varmalandsskóla  í Safnahúsi í morgun.  Mest þótti þeim til um stóra fjallið með fossinum, þar sem útilegumaðurinn Fjalla-Eyvindur bjó með fjölskyldu sinni. Að skoðun lokinni heimsóttu krakkarnir bókasafnið og skoðuðu bækur góða stund.