Mikil aðsókn var að sýningunni Börn í 100 ár um helgina, þó sérstaklega á Íslenska safnadeginum, sem var á sunnudaginn. Gestir voru á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum og allir virtust geta notið sýningarinnar eins og best varð á kosið. Safnvörður veitti leiðsögn um sýninguna eftir þörfum og var hún vel þegin. Meðfylgjandi mynd var tekin á sýningunni á íslenska safnadeginum.

Fyrir nokkrum dögum komu nokkrir góðir menn færandi hendi til Safnahúss. Þeir voru með bát meðferðis sem færður var safninu að gjöf. Forsaga málsins er sú að fyrir nokkrum vikum kom Willy Petersen að máli við Safnahús og sagði að hann og nokkrir aðrir hefðu hug á að bjarga báti til byggða, en hann væri staðsettur uppi á Arnarvatnsheiði og hefði verið þar í rúmlega 80 ár.