Farskóli íslenskra safna og safnmanna er haldinn árlega. Þar koma starfsmenn safna á öllu landinu saman til skrafs og ráðagerða. Um er að ræða þriggja daga þing þar sem fengnir eru virtir fyrirlesarar til að fræða safnamenn. Að þessu sinni  var skólinn haldinn í Stykkishólmi dagana 29. sept. til 1. október og var Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss formaður fimm manna nefndar sem annaðist undirbúning.

Um helgina kom David Gislason í heimsókn í Safnahús, m.a. í fylgd Almars Grímssonar stjórnarformanns Þjóðræknisfélags Íslands. Hópurinn skoðaði sýninguna Börn í 100 ár og fékk svo fylgd forstöðumanns Safnahúss um elsta hluta Borgarness þar sem m.a. var skoðaður minningarsteinn um Vestur-íslensk hjón sem fluttu frá Borgarfirði vestur um haf árið 1900. 

Þann 22. ágúst, fagnaði gamanvísnaskáldið og bóndinn með svo miklu meiru, Bjartmar Hlynur Hannesson á Norður-Reykjum í Hálsasveit, sextugsafmæli sínu.  Bjartmar er sonur Dýrunnar Þorsteinsdóttur og Hannesar Hjartarsonar.  Hann ólst upp með móður sinni í Giljahlíð í Flókadal en flutti með henni til Keflavíkur árið 1958, þá átta ára gamall.

Eiginkona hans er Kolbrún Sveinsdóttir frá Ásgarði í Reykholtsdal, börn þeirra eru tvö; Unnar Þorsteinn fæddur 1974 og

Þóra Geirlaug fædd 1986.

Bjartmar og Kolbrún hófu búskap á Hreðavatni 1975 en fluttust búferlum að Norður-Reykjum árið 1980 þar sem þau hafa stundað búskap síðan. 

Í morgun kom hópur krakka úr Kleppjárnsreykjadeild Grunnskóla Borgarfjarðar í heimsókn í Safnahús. Þetta voru börn úr 4. og 5. bekk skólans og það var Ágústa Þorvaldsdóttir kennari þeirra sem hafði skipulagt ferðina. Börnin skoðuðu fyrst sýninguna Börn í 100 ár og fengu í upphafi leiðsögn og fróðleik um söguna. Vakti margt athygli þeirra og ekki síst baðstofan gamla frá Úlfsstöðum, sem er miðpunktur sýningarinnar.  Í lok heimsóknarinnar fóru börnin síðan á bókasafnið þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Voru mörg þeirra áhugasamir lesendur. 

 

John L. Dixon frá Durham á Bretlandi kom í Safnahús í gær til að leita upplýsinga um herdeild föður síns, Roberts Bagnall Dixon, sem lést 1998. Hafði Dixon yngri áhuga á að fá ljósmyndir úr Borgarnesi frá stríðsárunum vegna vefsíðu sem hann er að setja á fót um herdeild föður síns. Faðir hans var í 70. fótgönguliðsherdeild Breta, en menn úr þeirri deild dvöldu m.a. á Íslandi á árunum 1940-1942. Úr þeim hópi áætlar John Dixon að á bilinu 3-400 manns hafi verið í Borgarnesi á þessum tíma. 

Byggðasafni Borgarfjarðar hefur verið færð kærkomin gjöf. Um er að ræða aldraða rauðvínsflösku úr rannsóknaskipinu Pourquoi Pas? sem fórst við Mýrar í september 1936.  Það var Eysteinn Sveinbjörnsson sem færði safninu flöskuna, en hún hefur verið varðveitt hjá honum allar götur síðan skipið fannst á hafsbotni sumarið 1961, eða í tæplega hálfa öld. Ennfremur kom hann með blaðaúrklippur frá þeim tíma að skipið fannst og verða þær varðveittar í Héraðsskjalasafninu.

Í sumar varð sú nýjung í starfi Héraðsbókasafns Borgarfjarðar að safnið keypti aðgang að rafrænu efni hljóðbókasíðunnar hlusta.is. Með því móti getur safnið betur mætt sívaxandi þörf fólks fyrir hlustun við hin ýmsu störf og áhugamál. 

Fólk á margvísleg erindi í Safnahús. Meðal kærkominna gesta er fólk sem leitar upplýsinga um uppruna sinn. Fyrir stuttu komu Vestur-íslensk systkini sem vantaði slíkar upplýsingar sem voru fúslega veittar.  

Hluti gesta á uppskeruhátíðinni
Uppskeruhátíð sumarlestrarátaks Héraðsbókasafns Borgarfjarðar var haldin í dag og var mikið fjör þegar krakkarnir mættu í Safnahúsið í Borgarnesi. Farið var í leiki og þrautir leystar undir styrkri stjórn Sævars Inga Jónssonar héraðsbókavarðar og Eddu Bergsveinsdóttur sumarstarfsmanns safnanna. Meðal annars þurftu foreldrar og börn að kljást við þá þraut að stökkva jafnfætis yfir sauðarlegg,  en slíkt hefur áður verið gert í Þjóðminjasafninu við góðar undirtektir. Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur, en alls lásu  47 krakkar 305 bækur þetta sumar sem telst frábær frammistaða. Þetta er met þátttaka í sumarlestrarverkefninu, en þetta er í þriðja sinn sem Safnahús stendur fyrir slíku hvatningarátaki í lestri að sumri til.

Sýningin Börn í 100 ár verður opin um Verslunarmannahelgina eins og alla aðra daga í sumar frá 13-18.

 

Í tengslum við Unglingalandsmót verður jafnframt boðið uppá eftirtaldar sögustundir í rými sýningarinnar á neðri hæð Safnahúss:

 

Föstudagur (30.júlí): Ragnar Olgeirsson les

Laugardagur (31.júlí): Laufey Hannesd. les

Sunnudagur (1. ág.): Kristín Thorlacius les

 

Allar sögustundirnar hefjast klukkan 15:00 og standa yfir í 30-45 mínútur.

 

Verið hjartanlega velkomin í Safnahús um helgina.