Þann 22. ágúst, fagnaði gamanvísnaskáldið og bóndinn með svo miklu meiru, Bjartmar Hlynur Hannesson á Norður-Reykjum í Hálsasveit, sextugsafmæli sínu.  Bjartmar er sonur Dýrunnar Þorsteinsdóttur og Hannesar Hjartarsonar.  Hann ólst upp með móður sinni í Giljahlíð í Flókadal en flutti með henni til Keflavíkur árið 1958, þá átta ára gamall.

Eiginkona hans er Kolbrún Sveinsdóttir frá Ásgarði í Reykholtsdal, börn þeirra eru tvö; Unnar Þorsteinn fæddur 1974 og

Þóra Geirlaug fædd 1986.

Bjartmar og Kolbrún hófu búskap á Hreðavatni 1975 en fluttust búferlum að Norður-Reykjum árið 1980 þar sem þau hafa stundað búskap síðan. 

Bjartmar hefur verið afar afkastamikill hagyrðingur og skemmtikraftur í gegnum tíðina og komið fram á ótal skemmtunum og uppákomum, bæði innan héraðs og utan.  Ferill hans á sviði spannar yfir 30 ár, hann var einn af leikendum verksins Nakinn maður og annar í kjölfötum sem Leikdeild Umf. Stafholtstungna setti upp árið 1978 en verkið var umskrifað af Kára Halldóri Þórssyni. Ein af breytingunum var nýr söngtexti eftir Bjartmar.  Á tíu ára afmæli leikdeildarinnar árið 1987 var frumsýndur revíukabarett sem bar heitið Bjartsýni en höfundar þess kölluðu sig BROSA en það nafn var samsett úr upphafsstöfum höfundanna, b-ið var Bjartmars, en aðrir höfundar voru Ragnhildur Einarsdóttir, Orðabelgir, Snorri Þorsteinsson og Andrea Davíðsdóttir.  

 

Mynd: leiklist.is. Guðmundur Pétursson, Hildur Jósteinsdóttir, Daði Freyr Guðjónsson og Pétur Pétursson í hlutverkum sínum.

Þá hefur Bjartmar einnig starfað með og samið efni fyrir Leikdeild Ungmennafélags Reykdæla, þar ber sennilega hæst söng og gleðileikurinn 

Töðugjaldaballið: Sendu mér sms,  sem þeir sömdu í sameiningu Bjartmar sem samdi handrit og söngtexta og Hafsteinn Þórisson bóndi og tónlistarkennari á Brennistöðum í Flókadal sem samdi tónlistina.  Verkið var sýnt við afar góðar viðtökur í Logalandi snemma árs 2009 en leikstjórar voru Steinunn Garðarsdóttir og Jón Pétursson.  Alls komu um 30 manns að uppfærslunni, þar á meðal dansarar og fjögurra manna hljómsveit undir stjórn Hafsteins.  Smellið hér til að lesa stutta grein um söngleikinn af vefnum leiklist.is og hér má einnig lesa lofsamlegan ritdóm Magnúsar Magnússonar um verkið.

 

Árið 1977 hóf Bjartmar að koma fram með Hauki Ingibergssyni þá skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst en þeir félagar léku og sungu frumsamið efni og komu víða fram. Á annarri hljómplötu hinnar þekktu hljómsveitar frá Akranesi, Dúmbó og Steina eiga þeir félagar, Haukur og Bjartmar, tvö lög.  Fyrra lagið ber heitið Halló apabróðir og segja má af titlinum að dæma, að Bjartmar hafi strax gefið tóninn í spaugilegri textagerð sinni.  Seinna lagið sem þeir félagar eiga á plötunni er þó öllu þekktara meðal almennings enda hefur það fyrir löngu eignast sérstakan sess meðal þjóðarinnar; lagið 17.júní. Síðar flutti hljómsveitin Upplyfting lagið, en hún var einskonar skólahljómsveit í  Samvinnuskólanum á Bifröst og þar nutu nemendurnir mikillar aðstoðar Hauks skólastjóra sem m.a samdi lög fyrir sveitina.  Hljómsveitin varð síðar landsfræg en á fyrstu plötu hennar sem ber heitið Kveðjustund og út kom 1980 lagði Bjartmar jafnframt fram texta.  Þá hefur hann m.a samið texta fyrir skagfirska sveiflukónginn Geirmund Valtýsson og einnig átt marga texta í Dægurlagasamkeppni Ungmennafélags Reykdæla, flesta við lög Indriða Jósafatssonar.  Síðasta aldarfjórðung eða svo hefur Bjartmar verið hirðskáld Gleðifundar ungmennafélagsins “með þeim ágætum að Reykdælum er hætt að blöskra eitt eða neitt” eins og fram kemur í í afmælisriti UMFR frá árinu 2008 er félagið fagnaði hundrað ára afmæli sínu.

 

 

Útgefnir geisladiskar Bjartmars eru tveir en þar syngur hann frumsamda gamanbragi um fólkið í nágrannasveitunum og dregur fram gamansamar hliðar mannlífsins af mikilli list einsog honum einum er lagið.  Á fyrri diskinum sem út kom árið 2005 endurnýjuðu þeir músik-kynni sín Haukur og Bjartmar og fluttu texta þess síðarnefnda við eigin lög og annarra ásamt þekktum dægurlögum undir styrkri stjórn Vilhjálms Guðjónssonar sem sá um hljóðfæraleik ásamt Hauki.  Eitt laganna á disknum nefndist Ærlegt lag en það lag Bjartmars er einkennislag Sauðamessu sem haldin er að jafnaði ár hvert að hausti til í Borgarnesi.  Lagið var fyrst flutt á Sauðamessu árið 2005.

Þess má geta að Bjartmar flutti nokkur laganna af plötunni við eigin gítarundirleik á skemmtikvöldi í Safnahúsi Borgarfjarðar í desember það ár.  Þar komu einnig fram rithöfundarnir Súsanna Svavarsdóttir, Þráinn Bertelsson, Ragnar Arnalds og Ólafur Gunnarsson. 

 

Sögur úr Sveitinni þóttu ganga svo vel að ári síðar var gefin út annar diskur með svipuðu efni og fékk hann að sjálfsögðu nafn við hæfi og nefndist Fleiri sögur úr sveitinni.  Vignir Bergmann æskufélagi Bjartmars úr Keflavík og þekktur tónlistarmaður leysti Hauk Ingibergsson af hólmi en Vilhjálmur Guðjónsson sinnti sem fyrr sínu hlutverki.  Bjartmar sá um sönginn sem fyrr og lagði auk þess drjúgan skerf til lagasmíða.  Þá naut hann góðrar aðstoðar Þóru Geirlaugar dóttur sinnar við söng og raddir en saman fluttu þau meðal annars hinn hugljúfa ástardúett Ást á Langasandi. 

Útgáfunni fagnaði Bjartmar með tónleikum í Logalandi haustið 2006 þar sem hann flutti lög af plötunni ásamt þriggja manna hljómsveit sem skipuð var af gömlum félögum úr Keflavík. Hljómsveitina skírði Gísli Einarsson Sinfóníuhljómsveit Keflavíkur í ávarpi sínu í upphafi. 

Lokalag plötunnar ber heitið Biðin langa og er lag Guðjóns Guðmundssonar frá Brekkukoti í Reykholtsdal við ljóð Bjartmars. Ljóðið hafði að vísu birst áður í safnritinu Borgfirðingaljóð sem hefur að geyma safn ljóða og kvæða eftir 120 borgfirska höfunda en Hörpuútgáfan á Akranesi gaf bókina út árið 1990.  Hér fær stétt iðnaðarmanna létt á baukinn frá skáldbóndanum:

 

Biðin langa

 

Enn fram úr nóttunni morgninum miðar,

magnast nú glæður;

þetta er mitt ljóð og þetta er yðar,

ó þjáningabræður.

 

Illt er að treysta þeim iðnaðarmönnum,

ágerast meinin;

þeir eru í sífellu í upplognum önnum,

andskotans beinin.

 

Hvarvetna reisa þeir mistakamerkin,

minnkar vor lukka,

ferlega seinir að framkvæma verkin

en fljótir að rukka.

 

Kann ekki nokkur á klukkuna ratinn

með kvarnir í straffi;

ef hingað þeir mæta í hádegismatinn

þeir hætta á kaffi.

 

Ef maður þá hittir og minnir á orðin

þeir möskvana smjúga;

í huganum róa þeir bæði á borðin

og byrja að ljúga.

 

Þeirra er loforða þaulsetinn skutur

og það finnst mér sárast

að ekki er gerður einn einasti hlutur

sem ætti að klárast.

 

Þeir félagar Bjartmar og Vignir Bergmann héldu áfram að segja sögur á geisladisk sem út kom árið 2007 og nú voru sögur af Suðurnesjum í brennidepli, enda þeim málið jú skylt eins og áður hefur komið fram.  Í viðtali í Morgunblaðinu 23.okt. 2006 sagði Bjartmar diskinn “fjalla um tímabilið frá Tyrkjaráninu 1627 þar til Sandgerðingar ráku Leoncie af höndum sér”.  Bjartmar lét sér þó nægja textaskrif á þessum disk en meðal flytjenda var sjálfur rokkkóngurinn Rúnar Júlíusson.  

 

Í fyrra varð Sigurði Óla Ólasyni bónda á Lambastöðum á Mýrum og Bjartmari bankahrunið að umfjöllunarefni á diskinum Bankaæringjarnir en þar söng Siggi Óli þekkt lög úr öllum áttum við texta, nær alla eftir bóndann á Norður-Reykjum, sem allir fjölluðu á einhvern hátt um kreppuna svokölluðu; atburði hennar og persónur.  Segja má að afurðin hafi verið borgfirsk í meira lagi því platan var að mestu tekin upp af Sigurþóri Kristjánssyni (Sissa) í hljóðveri hans í Borgarnesi sem nefnist Gott hljóð.  Sissi lagði einnig sitt af mörkum í hljóðfæraleiknum en fjölmargir komu þar við sögu, flestir úr héraði.

 

Meðal annarra ritstarfa Bjartmars má nefna að hann skrifaði á tímabili pistla í óbundnu máli sem birtust í Skesshorninu.  Þá sá hann einnig um vísnaþætti í blaðinu Röðli á árunum 1984-86 en blaðið var gefið út af Alþýðubandalaginu í Borgarnesi og nærsveitum.

 

Ýmislegt fleira mætti tína til fleira um fjölbreyttan og skemmtilegan skáldaferil Bjartmars Hannessonar.  Hann er iðinn sem fyrr og hefur jafnan mörg járn í eldinum; sem dæmi má nefna að væntanleg er sólóplata Hafsteins Þórissonar þar sem Bjartmar semur flesta textanna og um þessar mundir vinnur Bjartmar að textagerð við lög Vignis Bergmann sem væntanleg eru á plötu sem hefur fengið vinnuheitið Sögur af sjó og landi, fleiri verkefni skáldbóndans mætti nefna, en eitt af því sem sem hann fæst við er að yrkja sonnettur með sama formi og sjálfur William Shakespeare orti og notaði.  Safnahús er svo lánsamt að hafa fengið frá skáldinu sonnettu sem birtist nú í fyrsta sinn opinberlega, hér er líf rokkkóngins Elvis Presley til umfjöllunar: 

 

GRACELAND 1977

 

Í Greislandi Elvis hann liggur á meltunni mettur

makindalegur og hugurinn framleiðir dillur

það stríkkar á dressinu, maðurinn þungur og þéttur

þreifar í boxið og nær sér í kringlóttar pillur,

 

ávanabindand´og eftirritunarskildar

úr apótekinu grenndar,með framandi bragði

keyptar á öryrkjaafslætti kjörunum vildar

kóngurinn hugsar um þetta sem spákonan sagði,

 

margt fyrir löngu, að Lísa María myndi

með Mikjáli Djakksyn´í hjónasæng alsæl sér rísla

og Elvis hann stynur,”fátt hérna leikur í lyndi”

lífvörður rokkkóngsins heyrir hann dauflega hvísla,

 

“því tel ég ráð að ferðast til himna í hasti

háðung að eiga sér tengdason gerðan úr plasti”.

 

 Um leið og Safnahús Borgarfjarðar sendir Bjartmari sínar bestu síðbúnu afmæliskveðjur er hér birt annað ljóð hans úr Borgfirðingaljóðum, hér verður tilvist mannsins sjálfs skáldinu að yrkisefni:

 

Niðurstaða

 

Vort líf er stundum bæði fúlt og frekt

það fer um loftið undarlegur kliður.

Á hanabjálka set ég sand í trekt,

mér sýnist þetta orðinn fastur liður,

og niður aftur sæki meiri sand,

sinnar gæfu hver er talinn smiður,

og sama hvernig verk mín legg um land

þau löngum eru aftur rifin niður.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed