Árlegt sagnakvöld Safnahúss verður að þessu sinni haldið fimmtudaginn 3. nóvember n.k. kl. 20.00. Dagskráin verður í senn fjölbreytt og borgfirsk. Nokkrar nýjar og nýlegar bækur sem tengjast héraðinu með einum eða öðrum hætti verða kynntar auk þess sem tónlistin kemur við sögu. Ari Sigvaldason mun kynna bókina Víst þeir sóttu sjóinn - Útgerðarsaga Borgfirðinga. Helgi Kristjánsson hefur skrifað endurminningar sínar frá Trönu og hafa þær fengið nafnið Í björtum Borgarfirði. Trönustrákur segir frá. Viðar Hreinsson segir frá bók sinni Bjarni Þorsteinsson. Eldhugi við ysta haf, og Kristín Á. Ólafsdóttir syngur nokkur þjóðlög í minningu þjóðlagasafnarans góða. Að lokum kynnir Bjarni Guðmundsson bók sína um Farmalinn: Alltaf er Farmall fremstur.
Ein mynda Einars Ingimundarsonar málara hefur nú verið hengd upp í anddyri Safnahúss þar sem einnig er gerð grein fyrir höfundi hennar í nokkrum orðum. Þetta er liður í að miðla merkum safnkosti Listasafns Borgarness með tímabundnum örsýningum. Mynd Einars er máluð ofarlega í Húsafellslandi og sýnir landslagið í nágrenni Kaldadals, tignarlega jökla og fjöll. Staðhættir og sögulegar heimildir voru einmitt stór þáttur í verkum málarans og mörg þeirra eru góð heimild um liðinn tíma.
Í dag eru liðin 150 ár frá fæðingu þess mikla þjóðlagasafnara Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni var fæddur á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. október árið 1861. Foreldrar hans voru Þorsteinn Helgason (1835-1908) bóndi á Mel og kona hans Guðný Bjarnadóttir (1833-1909). Bjarni varð stúdent 1883 frá Latínuskólanum í Reykjavík og lauk embættisprófi frá Prestaskólanum 1888. Á námsárunum var hann bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, stundakennari við Latínuskólann og sýsluskrifari í Vatnsdal. Árið 1892 kvæntist hann Sigríði dóttur Lárusar Blöndals sýslumanns Húnvetninga og eignuðust þau fimm börn. Bjarni gerðist sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 1888 og gegndi því embætti allt til 1935. Hann lærði lítilsháttar tónfræði hjá Jónasi Helgasyni og harmóníumleik hjá frú Önnu Petersen. Bjarni var brautryðjandi í íslensku tónlistarlífi. Hann samdi fjölda alkunnra laga og hafði með messusöngvum sínum mikil áhrif á söngmennt í kirkjum landsins. Stærsta minnisvarða reisti hann sér þó með þjóðlagasafni sínu sem hann safnaði frá árinu 1880 og kom út á árunum 1906-09 með styrk úr Landssjóði og Carlsberg-sjóðnum danska. Ritið vapar ljósi á tónlistararf þjóðarinnar og er óumdeilt afrek á sviði íslenskrar menningarsögu. Bjarni var sæmdur prófessorsnafnbót fyrir afrek sín. Hann lést árið 1938.
Tvö af barnabörnum sr. Magnúsar Andréssonar á Gilsbakka og Sigríðar Pétursdóttur konu hans komu í Safnahús í dag til að skoða sýninguna um afa sinn. Þetta voru Áslaug og Magnús Ásmundsbörn, en foreldrar þeirra voru Steinunn Magnúsdóttir frá Gilsbakka og Ásmundur Guðmundsson biskup.
Af barnabörnum Magnúsar (1845-1922) og Sigríðar(1860-1917) eru níu á lífi. Hafa þau nú öll komið í Safnahús til að sjá sýninguna, sem var opnuð í maí s.l. Slíkur stuðningur er mikilvægur í því starfi sem fer fram í Safnahúsi.
Einsog undanfarin ár hefur verið góð aðsókn að Héraðsbókasafni Borgarfjarðar en fyrstu átta mánuði ársins höfðu 5442 gestir sótt safnið heim sem er ívið hærri tala miðað við sama tíma í fyrra en í heildina var gestafjöldi á bókasafninu á árinu 2010 7800 gestir en benda má á að töluverð aukning var á gestafjölda á árinu 2009 þegar gestum fjölgaði um 21% á milli ára.
Aðgangur að safninu er að sjálfsögðu öllum opinn en lánþegaskírteini kostar 1300 krónur og gildir í eitt ár í senn. Líklegt er að lánþegagjald hækki eilítið um næstu áramót. Frítt skírteini er fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega og einnig börn að átján ára aldri. Einnig er boðið upp á skammtímaskírteini sem gildir í þrjá mánuði í senn.
Í dag eru liðin 75 ár frá sjóslysinu mikla þegar rannsóknaskipið fræga Pourquoi-pas? fórst við Straumfjörð á Mýrum. Þetta gerðist þann 16. september 1936. Safnahús er ekki í stakk búið til að minnast slyssins sérstaklega núna, en það var gert myndarlega með uppsetningu sérstakrar sýningar í Englendingavík árið 2006. Safnið tekur þó alltaf við munum tengdum skipinu og bárust tveir slíkir á síðasta ári. Einnig hefur örsýning um skipið verið uppi við lesaðstöðu í bókasafni síðan í ársbyrjun 2010. Þar má m.a. sjá líkan af skipinu, gert af Skúla Torfasyni, og rauðvínsflösku sem bjargað var úr flakinu af Eysteini Sveinbjörnssyni kafara sumarið 1961.
Á þessu ár eru 150 ár liðin frá fæðingu tveggja frændsystkina sem tengjast bænum Húsafelli í Hálsasveit, þeirra Guðrúnar Jónsdóttur vinnukonu þar og Kristleifs Þorsteinssonar bónda og fræðimanns á Stóra Kroppi, en hann var fæddur á Húsafelli. Af þessu tilefni hefur verið sett upp örsýning í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi, þar sem ýmislegt sem tengist Guðrúnu og Kristleifi er sýnt og sagt frá ævi þeirra og fjölskyldu.
Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður hélt í gær fyrir hönd Safnahúss fyrirlestur fyrir nemendur í Sögu 204 hjá Menntaskóla Borgarfjarðar. Erindið fjallaði um ævi sr. Magnúsar Andréssonar á Gilsbakka (1845-1922) og var hugsað sem innlegg í umfjöllun kennara um samtíma hans. Í Safnahúsi hefur verið unnin mikil heimildavinna vegna uppsetningar sýningar um sr. Magnús, en hún var opnuð í vor. Var þetta kærkomið tækifæri til að kynna hluta þess fróðleiks til nemenda við skólann.
Safnahús vill þakka forsvarsmönnum MB og Ívari Erni Reynissyni kennara fyrir gott samstarf í þessu verkefni, sem skapar nýjan flöt á miðlun menningararfsins. Eftir að erindinu lauk voru umræður undir stjórn kennara, þar sem nemendur sýndu lifandi áhuga á efninu og spurðu greinargóðra spurninga.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.