Sagnakvöld Safnahúss s.l. fimmtudag var afar vel sótt, en alls hlýddu rúmlega 100 manns á dagskrána, þar sem rithöfundar kynntu bækur sínar. Fjórar bækur voru kynntar, en margt fleira tengt Borgarfirðinum kemur út í ár og mega héraðsbúar vera stoltir af.  

Dagskráin hófst með því að Ari Sigvaldason las upp úr bókinni Víst þeir sóttu sjóinn – Útgerðarsaga  Borgfirðinga, þar næst kynnti Helgi Kristjánsson endurminningar sínar frá Trönu. Viðar Hreinsson var þar næstur og sagði frá bók sinni um Bjarna Þorsteinsson þjóðlagasafnara sem lengst af bjó á Siglufirði en var fæddur á Mel. í framhaldi af kynningu Viðars söng Kristín Á. Ólafsdóttir nokkur þjóðlög í minningu Bjarna. Að lokum las Bjarni Guðmundsson upp úr bók sinni um Farmalinn. Í tilefni kvöldsins voru tveir merkir gripir til sýnis í salnum: Falleg Farmal dráttarvél frá Sæmundi Sigmundssyni og líkan af Laxfossi eftir Grím Karlsson.

 

Eins og fram kemur hér ofar er ýmislegt fleira tengt Borgarfirðinum sem kemur út á þessari bókavertíð.  Má t.d. nefna ævisögu Þórhalls Bjarnasonar biskups sem um tíma var þingmaður Borgfirðinga, nefnist sú bók Brautryðjandinn og er eftir Óskar Guðmundsson.  Þriðja ljóðabók Bjarna Valtýs Guðjónssonar Döggin skær, lítur líka dagsins ljós innan tíðar og þá hefur Þorsteinn frá Hamri sent frá sér nýja ljóðabók sem nefnist Allt kom það nær, sem án efa á eftir að njóta hylli lesenda eins og fyrri verk hans.

 

Kristín Thorlacius heldur áfram ötulu þýðingarstarfi sínu og sama má segja um Böðvar Guðmundsson sem þýðir nú metsölubók eftir Bandarískan rithöfund.  Ævar Þór Benediktsson sendir frá sér sína aðra bók, nú bregður hann sér í gervi prófessors Ævars sem yngri kynslóðin þekkir vel úr Stundinni okkar. Og meira tengt héraðinu: Pétur Pétursson er að skrifa ævisögu Haraldar Níelssonar, sem eins og flestir hér inni vita var ættaður frá Grímsstöðum.

 

Þá má þess einnig geta að 11. árgangur Borgfirðingabókar, ársrits Sögufélags Borgarfjarðar kom út fyrr á þessu ári en það hefur nú komið út samfellt frá árinu 2004.  Einnig má nefna afmælisrit Sambands Borgfirskra kvenna sem fagnaði 80 ára afmæli í sumar og tvö ungmennafélög í héraði eiga 100 ára afmæli á þessu ári, Dagrenning og Íslendingur. Bæði hafa þau látið taka saman ágrip af sögu sinni, Dagrenning birti sitt í aukablaði með Skessuhorni fyrir stuttu og Bjarni Guðmundsson hefur skrifað sögu Íslendings í riti sem er að koma út.

 

Ljósmynd 1: Á Sagnakvöldi. Unnsteinn Arason, Þorkell Fjeldsted og Jón Blöndal.   – Ljósm. GJ

 

Ljósmynd 2: Farmall Sæmundar Sigmundssonar.   – Ljósm. GJ

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed