Sumaropnunartími hefur verið tekinn upp í Safnahúsi og eru sýningar hússins opnar alla daga frá 13.00 til 17.00 fram til 1. september. Opið á öðrum tímum eftir samkomulagi. Við þetta má bæta að í næsta nágrenni Safnahúss eru ýmsir aðrir skemmtilegir afþreyingarmöguleikar s.s. sundlaugin, Skallagrímsgarður, Edduveröld, Landnámssetur og Bjössaróló auk vinnustofa handverkslistamanna. Í Brákarey er Fornbílafélag Borgarfjarðar með samgönguminjasafn og þar er einnig víðfrægur sölumarkaður körfuboltadeildar Skallagríms.
Þorlákur Morthens, betur þekktur sem Tolli, sýnir málverk og teikningar í Hallsteinssal sumarið 2013 og verður sýningin opnuð á Sumardaginn fyrsta (25. apríl) kl. 13.00, allir velkomnir. Sýningin ber heitið Mýrar, móar, fjöll og verkin eru innblásin af töfrum borgfirskra sveita. Við opnunina segir Tolli frá list sinni og Bubbi Morthens syngur nokkur lög. Tolli verður síðan viðstaddur á sýningunni til kl. 16.00 þennan opnunardag.
Tolli er fæddur 1953. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Hochschule der Künste í Vestur-Berlín og kom fyrst fram á samsýningu sjömenninga úr Myndlista- og handíðaskólanum í Norræna húsinu 1982. Verk hans njóta mikilla vinsælda en megin stefið er íslensk náttúra í kröftugu samspili ljóss og lita.
Sýningin stendur 25. apríl til 5. ágúst 2013. Opið er á afgreiðslutíma bókasafns 13.00-18.00 alla virka daga, en einnig um helgar 13.00-17.00.
Þess má einnig geta að báðar fastasýningar Safnahúss, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, verða opnar frá 13-17 á Sumardaginn fyrsta, gengið er inn um vesturdyr.
Mikil aðsókn hefur verið að sýningunum Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna það sem af er apríl og verða þær því opnar helgina 20/21. apríl frá 13 til 17 báða dagana. Ennfremur eru þetta síðustu forvöð til að sjá myndasýningu um Borgarnes sem sett var upp tilefni af því að í ár eru liðin 100 ár frá því að Borgarneshreppur var stofnaður. Sú sýning verður tekin niður á mánudag og fimmtudaginn 25. apríl (Sumardagurinn fyrsti) kl. 13.00 verður opnuð sýning á málverkum og teikningum Tolla í Hallsteinssal.
Sýningarnar Börn í 100 ár, Ævintýri fuglanna og Borgarnes í myndum - eru opnar skv. samkomulagi fram að 1. júní, en vegna mikillar eftirspurnar verður opið sunnudaginn 14. apríl frá 13.00 til 17.00. Aðgangseyrir er 800 kr. fyrir fullorðna en ókeypis fyrir börn að 16 ára aldri. Eldri borgarar fá afslátt. Frá 1. júní til 30. september verður opið alla daga frá 13 til 17.
Nokkrir nemendur Tónlistarskólans fóru til Ísafjarðar fyrir stuttu og komu þar fram á Nótu-tónleikum sem eru hluti uppskeruhátíðar tónlistarskólanna á Íslandi. Þar á meðal var samspilshópurinn Ísleifur sem lék og söng frumsamið efni undir stjórn Ólafs Flosasonar og fékk viðurkenningu fyrir frumsamið tónverk á grunnstigi. Efniviðurinn að verkinu var þula eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur (1912-1970) og er verkið afrakstur af samstarfi Safnahúss og Tónlistarskólans um þulur eftir Guðrúnu. Krökkunum og kennara þeirra er óskað innilega til hamingju með árangurinn og er einkar ánægjulegt að unga fólkið skuli vinna með gamlan menningararf með þessum hætti.
Þriðji og lokahluti Nótunnar fer fram með tónleikum á landsvísu sem verða haldnir í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 14. apríl.
Um hundrað manns komu á opnun sýningarinnar Ævintýri fuglanna s.l. föstudag. Sýningin hefur verið lengi í undirbúningi, en efniviður hennar er safnkostur Náttúrugripasafns Borgarfjarðar og er elsti fuglinn frá árinu 1940. Elsti gripurinn er hins vegar langvíuegg frá árinu 1906 og var það tínt í Grímsey á sínum tíma, af Matthíasi Eggertssyni sem þá var þar nýráðinn prestur. Eggið ásamt fleiri gripum á sýningunni kemur úr safni Kristjáns Geirmundssonar hamskera.
Meðal þeirra sem mættu var Jón M. Guðmundsson fyrrv. kennari, en hann stoppaði upp stærstan hluta safnkosts Náttúrugripasafnsins á sínum tíma. Jón er níræður en lét aldurinn ekki aftra sér frá að mæta og færði hann safninu við þetta tækifæri nýjan og vandaðan grip að gjöf, uppstoppaða skúfönd.
Viðstaddur opnunina var ennfremur hönnuður sýningarinnar, Snorri Freyr Hilmarsson sem einnig er hönnuður að Börn í 100 ár sem er á sömu hæð og fuglasýningin.
Eins og fram hefur komið er sýningin helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar fyrrv. sparisjóðsstjóra í Borgarnesi og sagði dótturdóttir hans Birna Hlín Guðjónsdóttir frá afa sínum á opnunarathöfninni. Ennfremur söng Ásdís Haraldsdóttir nokkur falleg lög tengd heimi fuglanna og Jónína Erna Arnardóttir lék undir á barónsflygilinn.
Að dagskrá lokinni var hin nýja sýning skoðuð. Þar er lögð áhersla á farflugið; flugleiðir og verndun búsvæða fugla. Túlkunin er á margan hátt óvenjuleg og byggir mjög á sjónrænum áhrifum. Á sýningunni má heyra hljóð 74 fugla og er sú upptaka gerð af Sigurþóri Kristjánssyni í Borgarnesi.
Þann 5. apríl n.k. kl. 17.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi, þar sem fuglar úr náttúru Íslands eru sýndir í mögnuðu umhverfi. Þemað er farflugið; hin miklu og óskiljanlegu afrek fuglanna sem hafa heiminn undir í ferðum sínum en rata þó alltaf til baka. Um leið er minnt á að á Íslandi eru mikilvæg búsvæði fugla sem ber að vernda til hagsbóta allra jarðarbúa, enda er Ísland aðili að alþjóðlegum náttúruverndarsáttmálum. Sýningarhönnuður er Snorri Freyr Hilmarsson, sá sami og hannaði sýninguna Börn í 100 ár.
Ársskýrsla Safnahúss fyrir árið 2012 er komin á vefinn, sjá hér til hliðar. Starfsemin var lífleg á árinu og fylgir þar menningarstefnu sveitarfélagsins þar sem áhersla er lögð á lifandi miðlun menningararfsins.
Starfsfólk hefur notið góðs af velvild fólks á árinu, ýmist í formi upplýsingagjafar eða fræðistarfa, gjafa og góðra óska og hlýhugar. Öllu þessu fólki er hér með þakkaður verðmætur stuðningur á árinu.
Borgarfjarðarstofu og sveitarstjórn eru færðar bestu þakkir fyrir gott samstarf og skarpa sýn á þau gildi sem hafa ber í heiðri við varðveislu og miðlun menningararfsins.
„Meðan geislaglóðir
glæða líf á jörð,
vaki vættir góðir
verndi Borgarfjörð.“
Í dag hefði borgfirska skáldið Jóhannes Halldór Benjamínsson orðið áttræður, en hann lést árið 2008. Jóhannes var fæddur á Hallkelsstöðum í Hvítársíðu þann 11. mars 1933. Foreldrar hans voru Benjmín N. Jóhannesson og Elín Helga Jónsdóttir, hjón á Hallkelsstöðum og bjó Jóhannes í foreldrahúsum til ársins 1957 er hann fluttist til Reykjavíkur og vann þar m.a. við bifreiðaakstur og almenn verkamannastörf. Hann starfaði nokkuð að félagsmálum og sat m.a í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar í fjöldamörg ár.
Þann 12. mars 1960 kvæntist hann danskri unnustu sinni, Aase Johanne Sanko og saman eignuðust þau 5 börn og komust 4 þeirra á legg en sonur lést í frumbernsku.
Árið 1982 gaf Jóhannes út bókina „Héðan og þaðan“ sem hafði að geyma bæði frumkveðin ljóð og þýdd, m.a eftir sænska skáldið Gústaf Fröding. Þar má meðal annars finna ljóð sem flutt var við vísglu Félagsheimilisins Brúaráss 17. júní 1982.
Í tengslum við áttræðis afmæli Jóhannesar ákvað fjölskylda hans að gefa út nokkur áður óútgefin ljóð hans. Sú bók heitir „Ljóð og annar kveðskapur“ og kemur út í dag, 11. mars 2013. Hún er ekki hugsuð til almennrar sölu, heldur sem fallegt minningabrot fyrir fjölskyldu hans og velunnara. Eintak af bókinni hefur verið gefið til Héraðsbókasafns Borgarfjarðar.