„Meðan geislaglóðir

glæða líf á jörð,

vaki vættir góðir

verndi Borgarfjörð.“

 

 

 

Í dag hefði borgfirska skáldið Jóhannes Halldór Benjamínsson orðið áttræður, en hann lést árið 2008. Jóhannes var fæddur á Hallkelsstöðum í Hvítársíðu þann 11. mars 1933. Foreldrar hans voru Benjmín N. Jóhannesson og Elín Helga Jónsdóttir, hjón á Hallkelsstöðum og bjó Jóhannes í foreldrahúsum til ársins 1957 er hann fluttist til Reykjavíkur og vann þar m.a. við bifreiðaakstur og almenn verkamannastörf. Hann starfaði nokkuð að félagsmálum og sat m.a í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar í fjöldamörg ár.

 

Þann 12. mars 1960 kvæntist hann danskri unnustu sinni, Aase Johanne Sanko og saman eignuðust þau 5 börn og komust 4 þeirra á legg en sonur lést í frumbernsku. 

 

Árið 1982 gaf Jóhannes út bókina „Héðan og þaðan“ sem hafði að geyma bæði frumkveðin ljóð og þýdd, m.a eftir sænska skáldið Gústaf Fröding. Þar má meðal annars finna ljóð sem flutt var við vísglu Félagsheimilisins Brúaráss 17. júní 1982. 

 

Í tengslum við áttræðis afmæli Jóhannesar ákvað fjölskylda hans að gefa út nokkur áður óútgefin ljóð hans. Sú bók heitir „Ljóð og annar kveðskapur“ og kemur út í dag, 11. mars 2013. Hún er ekki hugsuð til almennrar sölu, heldur sem fallegt minningabrot fyrir fjölskyldu hans og velunnara. Eintak af bókinni hefur verið gefið til Héraðsbókasafns Borgarfjarðar. 

Jóhannes hefur samið mikið af ljóðum og kvæðum við þekkt dægurlög og við önnur ljóð samdi hann sjálfur lög og útsetti ýmist fyrir blandaða kóra, karlakóra eða einsöng. Jafnframt samdi hann nokkuð af harmonikkutónlist, enda góður harmonikkuleikari og spilaði ósjaldan á böllum og skemmtunum, bæði í Borgarfirði og víðar.

 

Hann samdi m.a lag við kvæði Halldórs Helgasonar Borgfirska sem Kveldúlfskórinn í Borgarnesi söng á disk sínum Árin með Imbu. Jóhannes á víðar ljóð s.s. í bókinni Borgfirðingaljóðum og oft var leitað til hans eftir tækifærisvísum eða gamankvæðum enda landsþekktur hagyrðingur.

 

Til Borgarfjarðar

Napurt haustið hylur

hauðrið frera og snæ.

býr þó yndi og ylur

enn í gömlum bæ.

Þótt ei greinist gata

gegnum élin hörð,

heim mun hugur rata,

heim, í Borgarfjörð.

 

Burt þó liggi leiðir

lifir rótin forn,

aldrei andann deyðir

örlaganna norn.

Meðan geislaglóðir

glæða líf á jörð,

vaki vættir góðir

verndi Borgarfjörð.

 

Fold úr fannadróma

færir ylhýrt vor,

skrýðir ljúfum ljóma

löngu gengin spor.

Minning veginn varðar

vafin geislakrans.

Börnin Borgarfjarðar

blessa nafnið hans.

 

 

Úr ljóðinu Mánuðirnir

Marz reynir löngum manndóm á,

marglyndi gjarn að sýna,

rólega stundum raular sá

raust kann hann og að brýna.

Einatt gengur því illa að spá

um það hvort taki að hlýna,

en hækkandi braut má sólar sjá

senn mun veturinn dvína.

 

 

Hugsað heim

Þegar haustsins vindar hrista blöð af greinum

og með hvítum földum brotnar sær við Strönd,

þegar tindrar hrím á grænni grund og steinum

verður gott að hverfa inn í draumalönd.

Það var sælt að una sumarlangan daginn

heima í sveitinni, þar gamli bærinn stóð.

Þó að birta sé í borginni við sæinn

er þó bjartara af minninganna glóð.

 

En burt ég fór og finn það nú með sanni,

það var flónska hrein og afleiðingin sést,

því er gleðin stopul göngulúnum manni,

sem að getur síðan hvergi rætur fest.

meðan napurráðar nornir þræði spinna

og norðurljósin flögra um himininn,

ég þrái aftur föðurhús að finna,

þar sem forðum mamma leiddi drenginn sinn.

 

En samt skal ekki köldum vetri kvíða,

þó að komi frost og snjórinn hylji jörð,

en herða sig og betri stunda bíða,

þegar blómin spretta gleymast élin hörð.

Því einhvern tíma óskir munu rætast,

að ég aftur finni löngu gengin spor

inni í dalnum, þar sem hraun og heiðin mætast,

þegar hækkar sól og aftur kemur vor.

 

 

 

 

Helstu heimildir

Aðalsteinn Halldórsson ofl. 1978. Borgfirskar æviskrár V. bindi, bls. 204.

Jóhannes Benjamínsson. 1982. Héðan og þaðan. Flateyjarútgáfan.

Minning: Jóhannes Benjamínsson. Morgunblaðið, 2008. 11. júlí, bls. 26-27.

Munnleg heimild og aðstoð: Elín Helga Jóhannesdóttir Sanko, mars 2013.

Ljósmyndir: Elín Helga Jóhannesdóttir Sanko.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed