Um hundrað manns komu á opnun sýningarinnar Ævintýri fuglanna s.l. föstudag. Sýningin hefur verið lengi í undirbúningi, en efniviður hennar er safnkostur Náttúrugripasafns Borgarfjarðar og er elsti fuglinn frá árinu 1940. Elsti gripurinn er hins vegar langvíuegg frá árinu 1906 og var það tínt í Grímsey á sínum tíma, af Matthíasi Eggertssyni sem þá var þar nýráðinn prestur. Eggið ásamt fleiri gripum á sýningunni kemur úr safni Kristjáns Geirmundssonar hamskera.

 

Meðal þeirra sem mættu var Jón M. Guðmundsson fyrrv. kennari, en hann stoppaði upp stærstan hluta safnkosts Náttúrugripasafnsins á sínum tíma. Jón er níræður en lét aldurinn ekki aftra sér frá að mæta og færði hann safninu við þetta tækifæri nýjan og vandaðan grip að gjöf, uppstoppaða skúfönd.

 

Viðstaddur opnunina var ennfremur hönnuður sýningarinnar, Snorri Freyr Hilmarsson sem einnig er hönnuður að Börn í 100 ár sem er á sömu hæð og fuglasýningin.

 

Eins og fram hefur komið er sýningin helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar fyrrv. sparisjóðsstjóra í Borgarnesi og sagði dótturdóttir hans Birna Hlín Guðjónsdóttir frá afa sínum á opnunarathöfninni. Ennfremur söng Ásdís Haraldsdóttir nokkur falleg lög tengd heimi fuglanna og Jónína Erna Arnardóttir lék undir á barónsflygilinn.

 

Að dagskrá lokinni var hin nýja sýning skoðuð. Þar er lögð áhersla á farflugið; flugleiðir og verndun búsvæða fugla. Túlkunin er á margan hátt óvenjuleg og byggir mjög á sjónrænum áhrifum. Á sýningunni má heyra hljóð 74 fugla og er sú upptaka gerð af Sigurþóri Kristjánssyni í Borgarnesi.

Ævintýri fuglanna verður opin á sumrin 13.00-17.00 alla daga (júní, júlí og ágúst) en fram að því samkvæmt samkomulagi. Helgina 6. og 7. apríl verður sérstök opnun í tilefni þessara tímamóta, frá 13.00-17.00. 

 

Ljósmyndir: Jóhanna Skúladóttir

 

1.: Fólk skoðar sýninguna.

2.: Jón M. Guðmundsson og eiginkona hans Margrét Sæmundsdóttir mættu á staðinn. Hér ásamt ungum dreng, líklegast barnabarni.

Categories:

Tags:

Comments are closed