Sparisjóður Mýrasýslu tók til starfa þann 1. október 1913.  Höfuðstöðvar hans voru alltaf í Borgarnesi,  fyrst í húsi Kaupfélags Borgfirðinga við Skúlagötu sem nefnt var Salka.  Er Kaupfélagið flutti starfsemi sína í verslunarhúsin í Englendingavík árið 1916 fylgdi sjóðurinn með og var þar fram til ársins 1920 að nýtt hús var byggt við Skúlagötu 14 (kallað Gamli sparisjóðurinn). Þar var starfsemi sparisjóðsins var á neðri hæð en íbúð gjaldkera hans á efri hæð.  Þarna var reksturinn til húsa í 42 ár eða allar götur til ársins 1962 að reist var nýbygging að Borgarbraut 14 sem flutt var inn í í lok september það ár.  Það hús var síðar stækkað og þar var starfsemin til ársins 2005 að hún var flutt í nýtt hús að Digranesgötu 2 þar sem nú er Arion banki. 

 

Í sviptingum ársins 2008 varð rekstur Sparisjóðsins ekki undanskilinn áföllum eins og kunnugt er og að lokum rann saga hans sitt skeið.  Á þessum tímamótum verður vitnað í orð Magnúsar Sigurðssonar á Gilsbakka sem lengi gegndi formennsku stjórnar Sparisjóðsins og ritar svo í formála að 90 ára sögu hans: „Á tímum eins og nú eru, þegar margt er á hverfanda hveli, innan héraðs og utan, er gott að glöggva sig á liðinni tíð – og forsendum þess, sem þá tókst vel, en þær voru fyrst og fremst samstaða hinna mörgu og smáu um verkefnin og þær hugmyndir sem þau voru byggð á.“ 

 

Eins og Magnús kom einnig inn á í nefndum formála er saga sparisjóðsins góður og gildur þáttur í sögu Borgarfjarðarhéraðs á tuttugustu öld. Því er hans minnst hér í tilefni dagsins.

Fimmtudaginn 19. sept. kl. 17.30 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi. Þar er sögð saga Hallsteins Sveinssonar (1903-1995), sem var mikill velgjörðarmaður safnanna.

 

Sýningin er sett upp í samvinnu við fjölskyldu Hallsteins og Ásmundarsafn. Hún mun standa fram til loka janúar og er fólk hvatt til að koma og kynna sér sögu þessa merka manns sem ekki hafði áhuga á veraldlegum auði en sýndi á ævikvöldi sínu einstaka rausn í garð síns heimahéraðs.

 

Skólastofnunum er sérstaklega bent á að notfæra sér sýninguna en boðið verður upp á fræðslu um hana fyrir börn á öllum aldri auk leiðsagnar fyrir fullorðna.

 

Vetraropnun á sýningum hefur nú tekið gildi í Safnahúsi og eru þær þá opnar 13.00-16.000 alla virka daga en á öðrum tímum eftir samkomulagi. Opið hefur verið alla daga frá því snemma í vor og er þetta í fyrsta sinn sem sýningar hússins eru með fastan opnunatíma allt árið. Aðsókn hefur verið mikil í vor og sumar og hafa bæði Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna fengið afar góð ummæli gesta. Sem dæmi um slíkt má nefna þessi orð sem franskur gestur skrifaði í gestabók um Börn í 100 ár: „A walk full of emotion through Icelandic old way of life.“ 

Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur fagnaði sjötugsafmæli sínu 15. ágúst síðastliðinn. Hún fæddist og ólst upp á bænum Hæli í Flókadal, dóttir hjónanna Ingimundar Ásgeirssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Björk lagði stund á frjálsar íþróttir á sínum yngri árum og keppti fyrir hönd UMSB á mótum víðsvegar um landið, þar á meðal fjórum landsmótum UMFÍ.

Björk lauk kand. mag. prófi í íslenskum fræðum frá H.Í. árið 1971 og hóf þá störf við Þjóðskjalasafn Íslands. Auk starfa sinna þar hefur hún sinnt hinum ýmsu ritstörfum, mörgum hverjum tengdum heimahéraði hennar.

Í dag á Bjarni Guðmundsson safnamaður á Hvanneyri merkisafmæli. Starfsfólk Safnahúss sendir honum og fjölskyldu hans hlýjar kveðjur og heillaóskir í tilefni dagsins og þakkar honum ómetanlegt framlag hans til landbúnaðarsögu Íslands. Megi hann áfram njóta farsældar í öllum sínum störfum.

Í gær kom góður gestur í Safnahús, Erna Einarsdóttir sem búsett er á Djúpavogi. Erna er frá Akranesi og var fljót að þekkja sjálfa sig á einni myndinni sem blasir við gestum á sýningunni Börn í 100 ár sem er önnur fastasýninga Safnahúss. Myndin er tekin þegar Erna var 12 ára gömul og ljósmyndarinn var Bjarni Jónsson á Akranesi. Á myndinni er Erna í fallegri prjónaðri peysu. Afar verðmætt var fyrir Safnahús og þar með Ljósmyndasafn Akraness að fá þessar upplýsingar og var Ernu vel þakkað fyrir góða heimsókn.

Metaðsókn hefur verið að sýningum Safnahúss það sem af er ári og er það mikið ánægjuefni. Einnig hefur verið líflegt á bókasafninu og má þar nefna Sumarlesturinn sem er í fullum gangi og krakkar duglegir að skila inn bókatitlum. Í húsinu eru nú þrjár sýningar, þ.e. Börn í 100 ár, Ævintýri fuglanna og myndlistarsýning Tolla. Sýningar eru opnar alla daga frá 13-17 og bókasafnið er opið 13-18 alla virka daga.

Í sjötta sinn efnir Héraðsbókasafn Borgarfjarðar til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Tímabil sumarlesturs er frá 10. júní - 10. ágúst.  Markmiðið með verkefninu er sem fyrr: Að nemendur viðhaldi og þjálfi ennfremur, þá lestrarleikni sem þeir hafa tileinkað sér í skólunum yfir veturinn.  Verkefnið hefur notið mikilla vinsælda og sömu krakkarnir eru með ár eftir ár og alltaf bætast fleiri við.  Verkefnið er þátttakendum að sjálfsögðu að kostnaðarlausu en sumarlestrinum lýkur formlega með uppskeruhátíð í lok sumars en þá koma krakkarnir í Safnahús til leiks og skemmtunar og þiggja viðurkenningar og hressingu. 

 

Bókasafnið er opið alla virka daga frá 13-18, en auk þess eru sýningar í Safnahúsi opnar frá 13-17 alla daga, einnig hátíðis- og helgidaga.

 

Mynd með frétt: Elín Elísabet Einarsdóttir. Elín hefur gert einkennismynd fyrir öll ár Sumarlesturs til þessa.

 

 

 

 

 

Mikil aðsókn hefur verið að sýningum Safnahúss á síðustu vikum. Sýningarnar (Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna) verða opnar alla daga í sumar (líka helgar- og hátíðisdaga) frá 13.00 - 17.00. Sýning Tolla (á efri hæð hússins) stendur fram til 5. ágúst. Bókasafnið er opið alla virka daga 13.00-18.00. 

Í gær hittist safnafólk á Akranesi og í Borgarnesi og ræddi ýmis málefni er viðkoma söfnunum sem eru eftirtalin.  Bókasafn Akraness, Skjalasafn Akraness, Ljósmyndasafn Akraness, Byggðasafn Akraness, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Héraðsbókasafn Borgafjarðar, Byggðasafn Borgarfjarðar, Náttúrugripasafn Borgarfjarðar og Listasafn Borgarness.  Meðal þess sem rætt var var upplýsingaflæði og samstarfsmöguleikar auk almennrar umræðu um rekstur safna. Til grundvallar umræðunni lá viljayfirlýsing Akraness og Borgarbyggðar um samvinnu í menningarmálum (2007).