Sýningu Birnu Þorsteinsdóttur lýkur næstkomandi föstudag, 19. desember. Margir hafa sótt sýninguna heim síðan hún var opnuð 22. nóvember og flestöll verkin eru þegar seld.
Um er að ræða merkan áfanga hjá Birnu sem myndlistarmanni því þetta er fyrsta einkasýningin sem hún heldur. Fólk er hvatt til að nýta sér þá daga sem eftir eru vikunnar til að skoða þessa fallegu sýningu.
 
Næsta myndlistarsýning verður svo opnuð 10. janúar næstkomandi. Þar verða sýnd verk eftir listakonuna Michelle Bird sem hefur sest að í Borgarnesi og sýnir verk sem eru innblásin af hughrifum frá staðnum sem hún er nýflutt í, umhverfi bæjarins og mannlífi.
 

Í lok síðustu viku barst vegleg gjöf til Héraðsskjalasafnsins. Um var að ræða ljósmyndasafn Einars Ingimundarsonar málara sem  lést fyrir um 17 árum.  Safnið er mikið að vöxtum og afar vandað. Það var sonur Einars, Ingimundur Einarsson sem færði Héraðsskjalasafninu myndirnar fyrir hönd fjölskyldu sinnar með það í huga að sem flestir geti notið þeirra í framtíðinni. Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður tók á móti þessari miklu gjöf sem er sérstakur fengur nú, þar sem vinna við ritun sögu Borgarnes stendur yfir. Sú bók kemur út á vegum Borgarbyggðar árið 2017 í tilefni af 150 ára afmæli Borgarness og er höfundur hennar Egill Ólafsson. Ljósmyndir skipa stóran sess í bókinni, en einnig er fyrirhuguð sýning á ljósmyndum Einars í Safnahúsi í tengslum við afmælið þegar þar að kemur.

Döggfall á vorgrænum víðum

veglausum heiðum,

sólroð í svölum og góðum

suðrænum blæ.

 

Stjarnan við bergtindinn bliknar,

brosir og slokknar,

óttuljós víðáttan vaknar

vonfrjó og ný.

 

Sól rís úr steinrunnum straumum,

stráum og blómum

hjörðum og söngþrastasveimum

samfögnuð býr.

 

Ein gengur léttfær að leita:

lauffalin gjóta

geymir nú gimbilinn hvíta,

gulan á brár.

 

Hrynja í húmdimmum skúta

hljóðlát og glitrandi tár.

 

Snorri Hjartarson

 

Dagana 20. og 22. nóvember verða tveir viðburðir í Safnahúsi, annars vegar okkar  fimmtudaginn 20. nóvember og hins vegar opnun málverkasýningar Birnu Þorsteinsdóttur laugardaginn 22. nóvember.

 

 

Á sagnakvöldum Safnahúss er dagskráin yfirleitt  helguð bókum tengdum Borgarfirðinum.  Þar kemur fólk saman, hlýðir á bókmenntafróðleik og þiggur veitingar að lokinni dagskrá.  Í ár verða nýútkomin verk eftir eftirtalda höfunda kynnt (sjá nánar í fréttatilkynningu með því að smella hér):

 

  • Guðni Líndal Benediktsson
  • Dr. Guðmundur Eggertsson
  • Kristín Steinsdóttir
  • Þuríður Guðmundsdóttir
  • Ævar Þór Benediktsson

 

Birna Þorsteinsdóttir er mörgum héraðsbúum að góðu kunn. Hún er tónlistarkennari og starfar við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Hún lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem tónmenntakennari. Birna hefur alla tíð haft mikinn áhuga á og sinnt ýmsum listformum, og lærði við Myndlistarskóla Reykjavíkur um tíma, ásamt því að sækja önnur myndlistarnámskeið. Hún var meðal stofnenda Myndlistarfélags Borgarfjarðar á sínum tíma og hélt í framhaldi af því nokkrar samsýningar á Vesturlandi, en þetta er hennar fyrsta einkasýning.

 

Birna hefur málað myndir frá unga aldri og málaði um tíma aðallega kyrralífsmyndir og landslagsmyndir. Í seinni tíð hefur hún fært sig út í að mála abstrakt myndir sem eru á óræðan hátt innblásnar af landslagi og fólki.

 

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um hjón sem eiga 75 ára brúðkaupsafmæli og eiga þau lengsta hjónabandið á landinu.  Þetta eru Dallilja Jónsdóttir (f. 1921) og Gunnar Jónsson (f. 1913) sem bæði eru ættuð úr Borgarfirði. Dallilja er dóttir hjónanna Jóns H. Helgasonar frá Ásbjarnarstöðum og Halldóru Ólafsdóttur sem voru búsett í Borgarnesi frá árinu 1914.  Meðal systkina Dallilju  voru Bjarnína og Ásbjörn sem bæði voru búsett í Borgarnesi.  Gunnar er sonur Ingigerðar Kristjánsdóttur og Jóns Gunnarssonar sem lengst af voru í húsmennsku víða um Borgarfjörð.  Meðal systkina hans voru Guðleif Jónsdóttir sem bjó í Borgarnesi og Páll Jónsson sem kenndur var við Örnólfsdal og er gaf dýrmætt bókasafn sitt til Borgarness á sínum tíma.  Eins og fram kemur í grein mbl. búa Dallilja og Gunnar nú í Stykkishólmi.  Þau gengu í það heilaga laugardaginn 27. maí árið 1939, þegar brúðurin var 18 ára og brúðguminn 26.  Eru þeim hjónum færðar hlýjar kveðjur úr Borgarfirðinum með hamingjuóskum í tilefni dagsins.

 

Í dag eru hundrað ár liðin frá fæðingu Dr.Hallgríms Helgasonar, eins af okkar mestu fræðimönnum á sviði tónlistar á 20.öld.  Hann varelstur fimm barna hjónanna Helga Hallgrímssonar frá Grímsstöðum í Álftaneshreppi á Mýrum og Ólafar Sigurjónsdóttur frá Vatnsleysuströnd. Þó Hallgrímur væri Reykvíkingur að megninu til dvaldi hann oft í Borgarfirði á lífstíð sinni og safnaði þar meðal annars þjóðlögum á sínum tíma. Það er ekki ofsögum sagt að Hallgrímur hafi helgað líf sitt tónlist í sem fjölbreyttustu mynd og framlag hans er geysimikilvægt á mörgum sviðum hennar.  Hann tók m.a kennarapróf í fiðluleik frá Konservatorium Zürich 1949, og ríkispróf í tónsmíði frá sama skóla, sama ár og lauk doktorsgráðu í tónvísindum við Universität Zürich 1954. Hann var fiðluleikari með hljómsveit Reykjavíkur 1927-1933, söngkennari við MR 1940-46, stjórnaði ýmsum kórum og kom fram sem píanóleikari, bæði hér innanlands sem víða um lönd.  Hallgrímur var prófessor við University of Saskatchewan 1966-1974 og dósent við HÍ 1974-1983.  Þá samdi hann fjölmörg tónverk, t.d sönglög, móttettur, einleiksverk fyrir hin ýmsu klassísku hljóðfæri, verk fyrir strengjasveit, sinfóníuhljómsveit og svo framvegis.  Hallgrímur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.   

Ríflega hundrað manns komu í Safnahús s.l. laugardag þegar sýning um Bjarna Helgason á Laugalandi var opnuð. Við það tækifæri var þessi mynd tekin, en á henni eru öll börn Bjarna og Leu Kristínar konu hans, ásamt Julíönu föðursystur sinni. Frá vinstri: Steinunn, Þórhallur, Júlíana, Helgi og Sigrún.

 

Með þess sem sjá má á sýningunni er ljósmyndabúnaður Bjarna í gegnum tíðina auk persónulegra muna úr lífi hans. Ennfremur má sjá ljósmyndir úr myndasafni hans sem fjölskylda hans hefur gefið skjalasafninu. Sýningin um Bjarna er í anddyri bókasafns og stendur fram í nóvember. Hún er opin á virkum dögum 13.00 - 18.00; aðgangur er ókeypis. 

Á laugardaginn kl. 13.00 verður opnuð minningarsýning um Bjarna Helgason á Laugalandi (1928-2012). Sýningin er sett upp í tilefni af því að fjölskylda Bjarna hefur gefið myndasafn hans og ljósmyndabúnað til safnanna.  Bjarni var garðyrkjubóndi á Laugalandi við Varmaland og brautryðjandi á sínu sviði.  Hann var vel liðinn og mætur maður og tók virkan þátt í borgfirsku samfélagi, bæði með almennum félagsstörfum og þátttöku í stjórnmálum.  Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Lea Kristín Þórhallsdóttir og börn þeirra eru fjögur: Helgi, Steinunn, Þórhallur og Sigrún.  Sýningin um Bjarna er í anddyri bókasafns á efri hæð Safnahúss. Hún verður opin á laugardaginn  kl. 13.00 – 17.00 en eftir það á opnunartíma bókasafns kl. 13.00 – 18.00 alla virka daga. Allir eru velkomnir á opnunina og boðið verður upp á veitingar og konfekt.

 

Ennfremur verður glæsilegur bókamarkaður í Safnahúsi á laugardaginn kl. 13.00 – 17.00 í samvinnu við Sögufélag Borgarfjarðar. Þar verður almennur bókakostur til sölu auk útgáfu Sögufélagsins og verðin verða góð í tilefni Sauðamessu.