Á laugardaginn kl. 13.00 verður opnuð minningarsýning um Bjarna Helgason á Laugalandi (1928-2012). Sýningin er sett upp í tilefni af því að fjölskylda Bjarna hefur gefið myndasafn hans og ljósmyndabúnað til safnanna.  Bjarni var garðyrkjubóndi á Laugalandi við Varmaland og brautryðjandi á sínu sviði.  Hann var vel liðinn og mætur maður og tók virkan þátt í borgfirsku samfélagi, bæði með almennum félagsstörfum og þátttöku í stjórnmálum.  Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Lea Kristín Þórhallsdóttir og börn þeirra eru fjögur: Helgi, Steinunn, Þórhallur og Sigrún.  Sýningin um Bjarna er í anddyri bókasafns á efri hæð Safnahúss. Hún verður opin á laugardaginn  kl. 13.00 – 17.00 en eftir það á opnunartíma bókasafns kl. 13.00 – 18.00 alla virka daga. Allir eru velkomnir á opnunina og boðið verður upp á veitingar og konfekt.

 

Ennfremur verður glæsilegur bókamarkaður í Safnahúsi á laugardaginn kl. 13.00 – 17.00 í samvinnu við Sögufélag Borgarfjarðar. Þar verður almennur bókakostur til sölu auk útgáfu Sögufélagsins og verðin verða góð í tilefni Sauðamessu.