Í lok síðustu viku barst vegleg gjöf til Héraðsskjalasafnsins. Um var að ræða ljósmyndasafn Einars Ingimundarsonar málara sem  lést fyrir um 17 árum.  Safnið er mikið að vöxtum og afar vandað. Það var sonur Einars, Ingimundur Einarsson sem færði Héraðsskjalasafninu myndirnar fyrir hönd fjölskyldu sinnar með það í huga að sem flestir geti notið þeirra í framtíðinni. Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður tók á móti þessari miklu gjöf sem er sérstakur fengur nú, þar sem vinna við ritun sögu Borgarnes stendur yfir. Sú bók kemur út á vegum Borgarbyggðar árið 2017 í tilefni af 150 ára afmæli Borgarness og er höfundur hennar Egill Ólafsson. Ljósmyndir skipa stóran sess í bókinni, en einnig er fyrirhuguð sýning á ljósmyndum Einars í Safnahúsi í tengslum við afmælið þegar þar að kemur.