Dagana 20. og 22. nóvember verða tveir viðburðir í Safnahúsi, annars vegar okkar  fimmtudaginn 20. nóvember og hins vegar opnun málverkasýningar Birnu Þorsteinsdóttur laugardaginn 22. nóvember.

 

 

Á sagnakvöldum Safnahúss er dagskráin yfirleitt  helguð bókum tengdum Borgarfirðinum.  Þar kemur fólk saman, hlýðir á bókmenntafróðleik og þiggur veitingar að lokinni dagskrá.  Í ár verða nýútkomin verk eftir eftirtalda höfunda kynnt (sjá nánar í fréttatilkynningu með því að smella hér):

 

  • Guðni Líndal Benediktsson
  • Dr. Guðmundur Eggertsson
  • Kristín Steinsdóttir
  • Þuríður Guðmundsdóttir
  • Ævar Þór Benediktsson

 

Birna Þorsteinsdóttir er mörgum héraðsbúum að góðu kunn. Hún er tónlistarkennari og starfar við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Hún lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem tónmenntakennari. Birna hefur alla tíð haft mikinn áhuga á og sinnt ýmsum listformum, og lærði við Myndlistarskóla Reykjavíkur um tíma, ásamt því að sækja önnur myndlistarnámskeið. Hún var meðal stofnenda Myndlistarfélags Borgarfjarðar á sínum tíma og hélt í framhaldi af því nokkrar samsýningar á Vesturlandi, en þetta er hennar fyrsta einkasýning.

 

Birna hefur málað myndir frá unga aldri og málaði um tíma aðallega kyrralífsmyndir og landslagsmyndir. Í seinni tíð hefur hún fært sig út í að mála abstrakt myndir sem eru á óræðan hátt innblásnar af landslagi og fólki.