Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um hjón sem eiga 75 ára brúðkaupsafmæli og eiga þau lengsta hjónabandið á landinu.  Þetta eru Dallilja Jónsdóttir (f. 1921) og Gunnar Jónsson (f. 1913) sem bæði eru ættuð úr Borgarfirði. Dallilja er dóttir hjónanna Jóns H. Helgasonar frá Ásbjarnarstöðum og Halldóru Ólafsdóttur sem voru búsett í Borgarnesi frá árinu 1914.  Meðal systkina Dallilju  voru Bjarnína og Ásbjörn sem bæði voru búsett í Borgarnesi.  Gunnar er sonur Ingigerðar Kristjánsdóttur og Jóns Gunnarssonar sem lengst af voru í húsmennsku víða um Borgarfjörð.  Meðal systkina hans voru Guðleif Jónsdóttir sem bjó í Borgarnesi og Páll Jónsson sem kenndur var við Örnólfsdal og er gaf dýrmætt bókasafn sitt til Borgarness á sínum tíma.  Eins og fram kemur í grein mbl. búa Dallilja og Gunnar nú í Stykkishólmi.  Þau gengu í það heilaga laugardaginn 27. maí árið 1939, þegar brúðurin var 18 ára og brúðguminn 26.  Eru þeim hjónum færðar hlýjar kveðjur úr Borgarfirðinum með hamingjuóskum í tilefni dagsins.