Þegar byggð fór að þéttast í Borgarnesi á fyrri hluta 20. aldar stundaði fólk víða búskap í bænum enda var ekki hægt að reikna með fastri atvinnu þar árið um kring. Víða má sjá útihús frá þessum tíma og má þar nefna Hlíðartúnshúsin (Borgarbraut 52) sem dæmi, en Borgarbyggð hefur nú um nokkurra ára bil unnið að endurgerð þeirra og varðveislu. Annað dæmi um búskap í bænum eru gömlu grjótgarðarnir, en þeirra sér víða enn merki.  Mikilsvert er að varðveita þessar minjar um búskap í Borgarnesi enda eru þeir sannkölluð staðarprýði og verðugir minnisvarðar sögunnar.

 

Vegna afar góðrar aðsóknar hefur verið ákveðið að framlengja sýningartímabilið á leikriti Trausta Jónssonar, Ingiríði Óskarsdóttur. Síðasti sýningardagur verður 8. mars (alla virka daga kl. 16.00). Við þökkum frábærar undirtektir við þessu framtaki

Leiklistarstarf hefur alltaf verið stór þáttur í borgfirsku menningarlífi með ungmennafélögin fremst í flokki. Ein margra góðra uppfærslna í héraðinu var leikritið Ingiríður Óskarsdóttir, gamanleikur í þrem þáttum eftir Trausta Jónsson veðurfræðing. Það var sýnt af leikdeild Skallagríms fyrir 28 árum (1985) og hlaut rífandi aðsókn. Til er upptaka af uppfærslunni og er eintak af henni varðveitt í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Hún er nú tekin til sýninga í Safnahúsi með góðfúslegu leyti höfundar, leikara og annarra aðstandenda sýningarinnar. 

Árið 1913 varð Borgarneshreppur fyrst til sem sérstakt sveitarfélag. Af því tilefni hefur nú verið opnuð sýning í Safnahúsi með málverkum og ljósmyndum eftir ýmsa höfunda með Borgarnes sem myndefni. Einnig verður á Þorranum sýnd upptaka af einni vinsælustu sýningu leikdeildar Skallagríms, gamanleiknum Ingiríði Óskarsdóttur eftir Trausta Jónsson (sýnt 1985).

 

 

 

Starfsfólk Safnahúss óskar öllum velunnurum safnanna árs og friðar og þakkar góð samskipti á árinu sem leið.

Í Safnahúsi hefur verið sett upp ný sýning, í þetta sinn á mannamyndum eftir ýmsa listamenn. Myndunum er stillt upp í anddyri bókasafnsins. Þær eru valdar af handahófi úr safnkosti Listasafns Borgarness, en stærstur hluti þess er upphaflega kominn til sem rausnargjöf Hallsteins Sveinssonar til Borgnesinga árið 1971.  

Sendum öllum vinum og velunnurum safnanna bestu hátíðaróskir með þökkum fyrir allar góðar stundir!

 

Starfsfólk Safnahúss

Fyrirtæki í gamla miðbæ Borgarness tóku sig saman um að hafa aukaopnun í gærkvöldi og bjóða heim gestum. Einnig voru fjölskyldtónleikar haldnir í Borgarneskirkju kl. 20.30 þar sem Theodóra Þorsteinsdóttir, Olgeir Helgi Ragnarsson og Sigríður Ásta og Hanna Ágústa Olgeirsdætur komu fram. Samkór Mýramanna fór um bæinn og söng jólalög. Fólk tók vel undir þetta framtak, vel var mætt í fyrirtæki víða um gamla bæinn og kirkjan var þéttsetin á tónleikunum. Í Safnahús mættu tæplega 100 manns þetta kvöld og þökkum við þeim innilega fyrir komuna. Þetta er í fyrsta sinn sem rekstraraðilar í Borgarnesi efna til aðventurölts og það voru Neðribæjarsamtökin sem gengust fyrir framtakinu.

Um þessar mundir eru 180 ár síðan rekstur bókasafns hófst í Borgarfirði, en elsta safnið, sem vitað er um er Hið J. Möllerska bókasafn og lestrarfélag sem stofnað var í Hítardal 1832 og var í fullu starfi 1836 og er starfrækt fram til 1882 (síðast í Stafholti) að önnur lestrarfélög taka við.  Arftaki þeirra er Héraðsbókasafn Borgarfjarðar sem hefur starfsemi árið 1956. Starfssvæði þess var lengst af hið sama og hins Möllerska bókasafns, þ.e. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. Við sameiningu sveitarfélaga árið 2006 bættist Kolbeinsstaðahreppur við það svæði sem safnið þjónar.

 

Í anddyri við bókasafn er nú stillt upp litlu handsmíðu jólatré fyrir sautján kerti. Um er að ræða merkan safngrip úr eigu byggðasafns Borgarfjarðar en tréð var á sínum tíma smíðað af Guðmundi Böðvarssyni skáldi á Kirkjubóli (1904-1974) í Hvítársíðu og var notað þar á bæ í áratugi. Tréð er málað grænt  en fótur þess hvítur og rauður. Það var upprunalega skreytt með pappírsræmum. Böðvar sonur Guðmundar man eftir trénu og og er lítil saga því tengd á sýningarspjaldi við hlið trésins. 

 

Þar er einnig stillt upp sextán gömlum jóla- og nýárskortum og sagt frá þeim á sýningarspjaldi. Þau eru mikið augnayndi og eru úr eigu héraðsskjalasafnsins.  Báðar þessar örsýningar munu standa fram á þrettándann.