Um þessar mundir eru 180 ár síðan rekstur bókasafns hófst í Borgarfirði, en elsta safnið, sem vitað er um er Hið J. Möllerska bókasafn og lestrarfélag sem stofnað var í Hítardal 1832 og var í fullu starfi 1836 og er starfrækt fram til 1882 (síðast í Stafholti) að önnur lestrarfélög taka við.  Arftaki þeirra er Héraðsbókasafn Borgarfjarðar sem hefur starfsemi árið 1956. Starfssvæði þess var lengst af hið sama og hins Möllerska bókasafns, þ.e. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. Við sameiningu sveitarfélaga árið 2006 bættist Kolbeinsstaðahreppur við það svæði sem safnið þjónar.

 

Svo segir Bjarni Bachmann safnvörður um sögu bókasafna í héraðinu í grein í Fréttabréf bókavarðafélags Íslands árið 1972: „Upp úr aldamótum fara að vera til bókasöfn i öllum hreppum. Einstök félög eða ungmennafélög stofna til lestrarfélaga og þessi litlu söfn eru til enn. Í Borgarnesi er stofnað Lestrarfélag Borgarness 1905 fyrir tilstilli Jóns Björnsonar frá Bæ, en hann vann ötullega að vexti og viðgangi safnsins allt þar til 1945. Síðan tekur Gestur Kristjánsson, verzlunarmaður, við formennsku, en hann er annar og síðasti formaður Lestrarfélagsins, því í hans tíð er safnið afhent Héraðsbókasafninu. Bókaverðir hafa verið við hið gamla safn mjög margir. Fyrsti bókavörður var Magnús Jónsson kennari og síðar sparisjóðsstjóri. Hjá honum var safnið síðar lengi til húsa og útlána í Sparisjóðnum. Sá safnvörður, sem Borgnesingar muna lengst, var Þórarinn Ólafsson,trésmiður, en hann varðveitti og annaðist safnið af stakri elju og vandvirkni. Aðrir safnverðir: Gísli Magnússon rakari, Ásbjörn Guðmundsson verzlunarmaður, Sveinn Níelsson verzlunarmaður, Ásmundur jónsson verzlunarmaður, Friðrik Þorvaldsson afgreiðslumaður, Arnbergur Stefánsson bifreiðastjóri, Sigurbjörn Þórarinsson skósmiður, Karl E. jónsson bifreiðastjóri, Jón Sigurbjörnsson leikari, Jón Sigurðsson kjötiðnaðarmaður og Sigurþór Halldórsson skólastjóri.“

 

Ljósmynd: bækur í Pálssafni/GJ.

 

 

Heimild:

Bjarni Bachmann. 1971. Héraðsbókasafn Borgarfjarðar. Fréttabréf bókavarðafélags Íslands, bls. 13.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed