Vorið

sínum laufsprota

á ljórann ber.

Ég fer

á fund við ástina

í fylgd með þér

og er

aldrei síðan

 

með sjálfum mér.

 

Þannig hljómar ljóðið Í fylgd með þér í ljóðabókinni Vísur Bergþóru eftir Þorgeir Sveinbjarnarson en bókin kom út árið 1955 og var hans fyrsta bók en Þorgeir var þá fimmtugur að aldri. Hann fæddist og ólst upp á Efsta-Bæ í Skorradal, sonur hjónanna Sveinbjarnar Bjarnasonar og Halldóru Pétursdóttir. Þorgeir stundaði nám í Hvítárbakkaskóla, lauk prófi frá sænskum lýðháskóla og stundaði framhaldsnám í Statens Gymnastikinstitut í Kaupmannahöfn.  Hann var íþróttakennari við Laugaskóla í Reykjadal frá 1931- 1944 og forstjóri Sundhallar Reykjavíkur frá 1945 til dauðadags.

Góð aðsókn hefur verið á sýninguna Gleym þeim ei, þar sem saga fimmtán kvenna er sögð. Mesta athygli vekur að það er gert með dyggri aðstoð aðstandenda kvennanna fimmtán. Það gerir nálgunina einlægari og persónulegri. Fjölskyldur lánuðu einnig gripi á sýninguna. Meðal þeirra er mikil gersemi, sem er söðulklæði frá árinu 1876. Klæðið var fermingargjöf til Ingveldar Hrómundsdóttur sem síðar bjó í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi. Það er ofið, litað og saumað af móður hennar Sigrríði Pálsdóttur.  Það var Ingveldur Gestsdóttir á Kaldárbakka sem lánaði klæðið á sýninguna.

Í áttunda sinn efnir Héraðsbókasafn Borgarfjarðar í Safnahúsi til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Tímabil sumarlesturs í ár er 10.júní-10.ágúst og markmiðið með verkefninu er að nemendur viðhaldi og þjálfi þá lestrarleikni sem þeir hafa tileinkað sér í skólunum yfir veturinn.  

 

Bókasafnið er opið alla virka daga kl. 13.00-18.00.

Sjáumst á bókasafninu í sumar! 

 

Mynd: Elín Elisabet Einarsdóttir.

 

Safnahúsið er opið 13.00-17.00 á íslenska safnadaginn (sunnudaginn 17. maí) eins og aðra daga sumarsins. Boðið verður upp á leiðsögn um sýningarnar  Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna og sögustund verður kl. 13.00 á sýningunni Gleym þeim ei, sem er afar falleg sýning um konur, unnin  með aðstoð fjölskyldna þeirra. Leiðsögn um sýningar: Anna Þ. Gunnarsdóttir. Umsjón sögustundar: Guðrún Jónsdóttir.

 

Í húsinu eru tvær fastasýningar: Börn í 100 ár (ljósmyndir/munir) og Ævintýri fuglanna (uppstoppaðir fuglar), báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni sem er þekktur listamaður og nálgast viðfangsefnið á frumlegan og fallegan hátt. 

 

Ennfremur er í sumar (fram í nóvember) sýningin Gleym þeim ei, sem er um sögu fimmtán íslenskra kvenna. Sýningin er hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur og er sett upp í tilefni af kosningaafmæli kvenna. Sýningin er óvanaleg að því leyti að efniviðurinn í hana kemur frá aðstandendum kvennanna fimmtán: texti, munir og myndir.

  

Aðgangseyrir á sýningarnar er 1000 kr. á manninn, en afsláttur er fyrir hópa (10 + = 600 kr.) og eldri borgara/öryrkja (700 kr.).  

 

Opið er alla daga 13.00 - 17.00. 

 

 

Verið velkomin í Safnahús! 

Þann 1. maí tekur sumaropnun sýninga gildi og verða þær opnar alla daga 13.00-17.00, helgidaga jafnt sem virka daga. Afgreiðslutími bókasafns er óbreyttur, 13.00-18.00 virka daga svo einnig er hægt að sjá sýninguna Gleym þeim ei til kl. 18.00 virka daga, en hún er á sömu hæð og bókasafnið. Ekki er tekinn aðgangseyrir á þá sýningu en frjáls framlög vel þegin. Sumaropnunin gildir fram til 1. september. Við bjóðum gesti innilega velkomna að sækja söfnin heim í sumar!

Sýningin Gleym þeim ei verður opnuð á sumardaginn fyrsta kl. 15.00. Eftir opnun verður hún opin virka daga frá 13.00-18.00 og frá 1. maí alla daga 13.00-17.00 (til 1. sept. þá tekur vetraropnun aftur við). Undirbúningur er í fullum gangi - hönnuður er Heiður Hörn Hjartardóttir. 

Fimmtudaginn 16. apríl 2015 opnaði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra við hátíðlega viðhöfn vefinn einkaskjalasafn.is sem er samskrá yfir einkaskjalasöfn á landinu. Vefurinn er afrakstur samstarfsverkefnis Þjóðskjalasafns, héraðsskjalasafnanna og Landsbókasafns - Háskólabókasafns og vonast er til að með honum batni aðgengi að heimildaflokknum. Rúmlega 5000 færslur eru komnar inn á vefinn, þar af eru 130 frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Unnið verður að því að koma fleiri skráningum inn á vefinn. Þjóðskjalasafn Íslands hefur umsjón með vefnum sem það einnig á og rekur.

Sýningaropnun - Á sumardaginn fyrsta (23. apríl) n.k. verður opnuð ný sýning í Safnahúsi. Hefur hún hlotið heitið Gleym þeim ei og er hönnuður hennar Heiður Hörn Hjartardóttir. Sýningin er að mestu leyti samvinnuverkefni skjalasafns og byggðasafns og er framlag Safnahúss til 100 ára kjörgengisafmælis kvenna 2015.

Á sýnngunni verður sögð saga 15 kvenna af starfssvæði Safnahúss, frá Haffjarðará og að Hvalfirði. Markmiðið er að draga nöfnin fram úr djúpi gleymskunnar.  Allar voru þær á lífi árið 1915 þegar konur fá kosningarétt. Verkefnið er unnið í víðtæku samstarfi, með fjölskyldum kvennanna og öðrum tengiliðum sem setja saman fróðleik um þær sem mun liggja frammi á sýningunni. Með leyfi höfunda fara gögnin svo í heild á Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar til varðveislu til framtíðar. Verkefnið hefur verið í undirbúningi síðan snemma hausts 2014 og sýningin stendur í hálft ár eða fram til októberloka.   

 

Tónleikar - Á opnunardaginn verða ennfremur tónleikar, afrakstur samstarfs við Tónlistarskóla Borgarfjarðar um listsköpun ungs fólks og með aðkomu Héraðsbókasafns Borgarfjarðar. Í Safnahúsi hefur verið tekið saman ljóðasafn fjögurra borgfirskra kvenna. Nemendur skólans velja sér texta og vinna með hann undir handleiðslu kennara á vorönn. Við opnun sýningarinnar Gleym þeim ei flytja þau svo eigin verk við ljóðin, það verður aðaldagskrárliður opnunarinnar, sem verður á sumardaginn fyrsta (23. apríl) kl. 15.00.  Á bilinu 10-15 verk verða flutt á tónleikunum og er yngsta tónskáldið aðeins sex ára. Er skólastjóra og kennurum Tónlistarskóla Borgarfjarðar þakkað afar farsælt samstarf um þetta þróunarverkefni sem nú kemur til framkvæmda í þriðja sinn. 

Sýningu Loga Bjarnasonar, Morphé, er nú lokið. Á þriðja hundrað manns kom og sá verk hans, en þema sýningarinnar er hreyfing. Starfsfólk í Safnahúsi þakkar Loga fyrir afar áhugaverða sýningu og óskar honum góðs gengis í áframhaldandi listsköpun.

 

Þess má geta að næsta sýning hússins er sýningin Gleym þeim ei sem opnuð verður 23. apríl n.k. Sagt verður nánar frá henni við síðara tækifæri. Við opnun hennar verða hátíðartónleikar í samstarfi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, þar sem flutt verða frumsamin lög nemenda við ljóð fjögurra kvenna frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum.

 

Aðsókn að Safnahúsi hefur verið afar góð það sem af er ári, bæði á bókasafn og list- og byggðasýningar.