Vorið

sínum laufsprota

á ljórann ber.

Ég fer

á fund við ástina

í fylgd með þér

og er

aldrei síðan

 

með sjálfum mér.

 

Þannig hljómar ljóðið Í fylgd með þér í ljóðabókinni Vísur Bergþóru eftir Þorgeir Sveinbjarnarson en bókin kom út árið 1955 og var hans fyrsta bók en Þorgeir var þá fimmtugur að aldri. Hann fæddist og ólst upp á Efsta-Bæ í Skorradal, sonur hjónanna Sveinbjarnar Bjarnasonar og Halldóru Pétursdóttir. Þorgeir stundaði nám í Hvítárbakkaskóla, lauk prófi frá sænskum lýðháskóla og stundaði framhaldsnám í Statens Gymnastikinstitut í Kaupmannahöfn Web Site.  Hann var íþróttakennari við Laugaskóla í Reykjadal frá 1931- 1944 og forstjóri Sundhallar Reykjavíkur frá 1945 til dauðadags.

Þorgeir giftist Bergþóru Davíðsdóttur og saman eignuðust þau þrjú börn. Bergþóra lést árið 1952, þremur árum fyrir útkomu bókarinnar.  Vísum Bergþóru var vel tekið og Þorgeir varð þjóðkunnugt skáld.  Hann nýtti sér hefðina í ljóð sem bæði þóttu prýðilega ort, hnyttin og skemmtileg.  Þorgeir telst til módernista í íslenskri ljóðagerð og í seinni ljóðabókum sínum tveimur, Vísum um drauminn 1965 og Vísum jarðarinnar 1971 gerði hann frekari tilraunir með form ljóða sinna og vék í þeirri þriðju alveg frá rími og stuðlum.  Þorgeir birti einnig ljóð og greinar í ýmsum blöðum og tímaritum og birti þýðingar á smásögum.  Hann skrifaði ásamt Guðmundi Sigurjónssyni Hofdal kennslubók í Glímu sem út kom árið 1968.  Þorgeir hlaut rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1966.  Við nokkur ljóða Þorgeirs hafa verið gerð lög, sem dæmi má nefna 12 sönglög Jóns Hlöðvers Áskelssonar við jafnmörg ljóð bókarinnar Vísur um drauminn.  Eitt þeirra nefnist Lauf.

 

Mér var gefið sumar.

Sól er í æðum mínum,

sól og dögg.

 

Ég var fögnuður trés,

en fékk svo að kynnast

kaldri haustnótt.

Næðingurinn losaði mig

af greininni.

Og regnið gróf mig

í gljúpan svörð.

 

Ég hverf

Í moldina.

 

Í hjarta mínu

er himinn

 

og jörð.

 

Þorgeir lést 19.febrúar 1971, skömmu fyrir útgáfu þriðju bókarinnar.

 

Helstu heimildir:

 

Borgfirskar Æviskrár 12.bindi.

Silja Aðalsteinsdóttir, Íslensk bókmenntasaga V.bindi (bls: 136-137)

 

 

Mynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar 
Samantekt: Sævar Ingi Jónsson

Categories:

Tags:

Comments are closed