Sumargjöf í minningu Björns Guðmundssonar

Í dag er alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi. Fulltrúar starfsmanna Safnahúss hófu daginn á fundi byggðaráðs sem tók við sumargjöf hússins til sveitarstjórnar á afmælisári Borgarness; veggspjaldi um Björn Guðmundsson höfund Bjössaróló. Fengu starfsmenn afar hlýjar móttökur hjá fundarmönnum.  Veggspjaldið hefur verið í smíðum um nokkurt skeið og er hugsunin að baki því að minna á hugsjónir Björns á sviði umhverfismála.  Spjaldið hannaði Heiður Hörn Hjartardóttir og textagerð annaðist Guðrún Jónsdóttir sem einnig á þar ljósmynd ásamt Theodór Kr. Þórðarsyni. Byggðaráð hyggst koma veggspjaldinu fyrir á stað þar sem margir eiga leið hjá og er það vel.  Á veggspjaldinu má sjá eftirfarandi texta: Bjössaróló í Borgarnesi Björn Guðmundsson og hugsjónir hans Björn Guðmundsson var fæddur árið 1911. Hann var trésmiður og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Bjössi var langt á undan sinni samtíð á sviði sjálfbærni og minjaverndar. Meðal þess sem hann átti þátt í að bjarga frá eyðileggingu voru gömlu verslunarhúsin í Englendingavík í Borgarnesi. Bjössi var barnelskur mjög.  Árið 1979 hóf hann smíði róluvallarins, í næsta nágrenni við hús sitt á Vesturnesi og hélt honum síðan við og endurbætti. Hann lagði áherslu á að hafa leiktækin í náttúrulegum litum og vildi að börnin gengju vel um og umgengjust náttúruna…

Sumaropnun frá 1. maí

Frá 1. maí n.k. eru sýningar Safnahúss opnar alla daga vikunnar 13.00 – 17.00, jafnt helgidaga sem aðra daga.  Sumaropnunin gildir fram til 1. september en eftir það er opið 13.00 – 16.00 virka daga. Alls verða fimm sýningar í húsinu í sumar, tvær grunnsýningar á neðri hæðinni og sýningin Tíminn gegnum linsuna (ljósmyndir frá Borgarnesi), veggspjaldasýning um Pourquoi pas og minningarsýning um Jakob Jónsson á Varmalæk á efri hæð.  Vakin er athygli á að sumaropnun á einungis við um sýningar, afgreiðslutímar bókasafns og skjalasafns eru óbreyttir. Sýningin Tíminn gegnum linsuna verður opin aukalega laugardaginn 29. apríl vegna afmælishátíðar Borgarness og þá 13.00 – 14.45.   Kl. 15.00 hefst svo afmælisdagskrá sem Borgarbyggð býður til í Hjálmakletti. Grunnsýningar Safnahúss eru Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, en þær eru ekki síst þekktar fyrir listræna og frumlega hönnun Snorra Freys Hilmarssonar.  Margir merkir gripir eru á sýningunum, þar á meðal baðstofa frá Úlfsstöðum í Reykholtsdal.  Sýningarnar henta fyrir alla aldurshópa og jafnt fyrir Íslendinga sem erlenda gesti.  

Flokkun og greining á steinasafni

Eitt sex megin markmiða nýútkominnar safnastefnu Þjóðminjasafns á sviði menningarminja er að vinna faglega og á vandaðan hátt með safnkostinn. Um þessar mundir erum við að hefja flokkun og skráningu steinasafns náttúrugripasafns Borgarfjarðar þökk sé Uppbyggingarsjóði Vesturlands og fleiri aðilum. Unnur Þorsteinsdóttir meistaranemi í jarðfræði við HÍ vinnur greininguna fyrir Safnahús og sést hér á mynd fyrir miðju ásamt liðsmönnum sínum við verkefnið. Henni til beggja handa eru Bryndís Ýr Gísladóttir og Rob Askew. Þess má geta að Unnur er úr Borgarfirðinum, nánar tiltekið frá Fróðastöðum í Hvítársíðu.  Að flokkun og greiningu lokinni tekur Halldór Óli Gunnarsson starfsmaður okkar við verkefninu og skráir safnið í Sarp, viðurkenndan gagnagrunn safna (www.sarpur.is).  Verður það verk unnið í maí og vinnst þar með mikilvægur áfangi þar sem þá verða allir gripir náttúrugripasafnsins skráðir í Sarp, er það fyrsta fagsafnið sinnar tegundar á landsvísu sem það gerir.

Borgarnes 150 ára – afmælishátíð á laugardag

Næstkomandi laugardag kl. 15.00 býður Borgarbyggð til afmælishátíðar Borgarness í Hjálmakletti.  Einnig verða aðrir dagskrárliðir þennan dag sem sjá má nánar um á www.borgarbyggd.is. Er tilefnið 150 ára afmæli Borgarness, en miðað er við árið sem staðnum var veitt verslunarleyfi sem var vorið 1867.   Á laugardaginn kemur má því reikna með að brottfluttir Borgnesingar og aðrir velunnarar bæjarins verði á ferðinni. Því verður Borgarnessýning Safnahúss, Tíminn gegnum linsuna opin þennan dag kl.  13.00 – 14.45 sem undanfari að afmælishátíðinni.    Er vonast til að margir leggi leið sína í Borgarnes til að fagna þessum tímamótum.  Þess má einnig geta að frá 1. maí tekur við sumaropnun í Safnahúsi þar sem sýningar verða opnar alla daga kl. 13.00 – 17.00, gildir það fram til 1. september að vetraropnun tekur við aftur.

Unga fólkið og Halldóra

Safnahús og Tónlistarskóli Borgarfjarðar stóðu fyrir tónleikum á sumardaginn fyrsta,  þar sem nemendur skólans fluttu frumsamin verk sín við ljóð Halldóru B. Björnsson. Verkefnið var stutt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Það hefur verið í undirbúningi síðan í september s.l. og hafa nemendurnir sett orð í tóna undir handleiðslu kennara sinna.  Fjölmenni var á tónleikunum og tala myndirnar sínu máli. Um þessar mundir eru liðin 110 ár frá fæðingu Halldóru B. Björnsson.  Voru fulltrúar fjölskyldu hennar viðstaddir tónleikana, m.a. dóttir hennar Þóra Elfa Björnsson sem var Safnahúsi innan handar við val á ljóðum í ljóðahefti og formála að því.  Hefur hún áður komið að ýmsum fræðiverkefnum fyrir Safnahús. Þetta er í fimmta sinn sem Safnahús og Tónlistarskóli vinna saman að verkefninu sem ber vinnuheitið „Að vera skáld og skapa“  og felst í að miðla bókmenntaarfinum og hvetja til listsköpunar  ungs fólks samkvæmt menningarstefnu Borgarbyggðar.  Áður hafa þessi skáld verið til umfjöllunar:   Guðrún Jóhannsdóttir (1892-1970), Guðrún Halldórsdóttir (1848-1930), Sigríður Helgadóttir (1884-1977). Valdís Halldórsdóttir (1908-2002), Guðrún Halldórsdóttir yngri (1912-2006), Guðmundur Böðvarsson (1904-1974) og Snorri Hjartarson (1906-1986). Eru öllum hlutaðeigandi færðar bestu þakkir fyrir alla þá vinnu sem lá að baki þessari fallegu stund í upphafi sumars.

Halldóru B. Björnsson minnst með tónleikum

Á sumardaginn fyrsta n.k. (20. apríl) verða haldnir tónleikar í Safnahúsi. Eru þeir hluti af samstarfsverkefni Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Safnahúss sem hafa á undanförnum árum unnið saman að listrænni sköpun ungs fólks á grundvelli borgfirskra bókmennta.  Á hverju ári er valinn höfundur eða þema sem nemendur skólans semja lög við. Útbúið er hefti með textum og fróðleik um höfund  þeirra, í samvinnu við fjölskyldu viðkomandi skálds.  Nemendur velja sér síðan texta og tónsetja hann. Þeir ákveða síðan flutningsmátann og flytja verkin, allt undir handleiðslu kennara sinna. Þetta verkefni hefur fengið afar jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar.  Það byggir á ákvæði í menningarstefnu sveitarfélagsins um frumkvæði, sköpun og menningararf.  Uppskerutónleikar verkefnisins verða nú haldnir í fimmta sinn, á sumardaginn fyrsta.  Þar flytja á þriðja tug nemenda verk sín og  eru þeir yngstu í 1. bekk í grunnskóla. Tónlistarskólinn Borgarfjarðar fagnar 50 ára afmæli í ár og 164 nemendur stunda þar nám. Safnahús hefur verið við lýði í svipaðan tíma eða síðan um 1960. Báðar stofnanir eru í eigu Borgarbyggðar og vinna að þessu verkefni þvert á fagsvið sín undir heitinu: „Að vera skáld og skapa“. Verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og…

Borgarfjarðarbrúin – hópar og heimsmynd

Dagana 27.-28. maí næstkomandi verður blásið til landsbyggðarráðstefnu í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús, Reykjavíkur Akademíuna og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Hér gefst tækifæri fyrir fræðafólk á fræðasviðum félags- og hugvísinda að leiða saman hesta sína og miðla af þekkingu sinni bæði til meðbræðra sinna og –systra en ekki síst að koma rannsóknum og niðurstöðum á framfæri út fyrir fræðasamfélagið Það eru miklar hræringar í samfélögum út um allan heim og svo hefur ef til vill alltaf verið. Hópar og hópvitund er grundvöllur samfélaga hvort sem það er í samtímanum eða fortíðinni. Hópar eru af ýmsum togum fjölmennir og fámennir og öll tilheyrum við mörgum ólíkum hópum. Hugtök eins og minnihlutahópar, jaðarhópar, elítuhópar eða innflytjendur heyrum við öll í daglegri umræðu. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar í þessa ólíku hópa og mikið fleiri sem byggja samfélög í nútíð og fortíð og hvernig líf fólks mótast af því hvaða hópum það tilheyrir og ekki síst hvaða hópum það tilheyrir ekki. Hvað geta rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda lagt af mörkum til að byggja brýr á milli hópa, auka skilning á áhrif þeirra á samfélög og dregið fram þá sammannlegu þræði sem liggja um öll…

Fjölmenni við opnun sýningar

Sýningin Tíminn gegnum linsuna var opnuð í gær að viðstaddri sveitarstjórn og sveitarstjóra, Gunnlaugi A. Júlíussyni sem flutti ávarp. Nefndi hann m.a. hversu mikilvægt það sé að halda sjónrænum heimildum til haga í samfélagi nútímans.  Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss flutti stutta tölu og ungir tónlistarmenn fluttu frumsamið lag og ljóð um Borgarnes, eftir Theodóru Þorsteinsdóttur. Alls komu ríflega tvö hundruð manns á opnunina og mátti víða heyra fróðleg samtöl um gamla tíma í Borgarnesi.  Sýningin stendur út árið 2017, afmælisár Borgarness.   Val mynda og textagerð annaðist Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur og hönnun sýningarinnar er unnin af Heiði Hörn Hjartardóttur. Sá elsti þeirra var fæddur 1896 (Friðrik Þorvaldsson) og sá yngsti árið 1952 (Theodór Kr. Þórðarson). Hinir tveir eru Einar Ingimundarson og Júlíus Axelsson.  Á meðfylgjandi mynd sést Heiðar Lind á tali við Theodór. Myndataka: Jóhanna Skúladóttir. Þess má geta að næsti liður í hátíðahöldum á vegum sveitarfélagsins vegna afmælis Borgarness er hátíðardagskrá í Hjálmakletti í Borgarnesi 29. apríl n.k. kl. 15.00, nánar auglýst síðar. 

Ársskýrsla 2016 komin á vefinn

  Ársskýrsla Safnahúss fyrir árið 2016 er nú fullbúin og hefur verið birt á vef Safnahúss: http://safnahus.is/arsskyrslur/ Árið var afar viðburðaríkt og þakkar starfsfólk Safnahúss öllum þeim fjömörgu sem þar lögðu hönd á plóg. Meðfylgjandi ljósmynd er frá einum viðburða ársins, þegar nemendur Tónlistarskólans fluttu eigin verk við ljóð Snorra Hjartarsonar á tónleikum í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta. Freyr Dominic Jude M. Bjarnason  flytur verk sitt með aðstoð Jónínu Ernu Arnardóttur kennara við skólann. Við sama tækifæri var opnuð sýning á ljósmyndum af refaveiðimönnum í héraðinu eftir Sigurjón Einarsson ljósmyndara á Hvanneyri. Vakti sýningin mikla athygli og veitti verðmæta innsýn í refaveiðina. Myndataka: Elín Elísabet Einarsdóttir.