Viðburðir á næstunni

Helstu viðburðir á næstunni eru þeir að fimmtudaginn 13. febrúar kl. 10.00 verður myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafnsins, þar sem gestir aðstoða safnið við greiningu ljósmynda. Sama dag kl. 19.30 flytur Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur fyrirlestur um veiðinýtingu, líffræði og framtíð laxastofna í Borgarfirði. Fyrirlesturinn tekur um klukkustund og að honum loknum verður kaffispjall. Laugardaginn 15. febrúar kl. 13.00 til 15.00 verður laugardagsopnun hjá okkur á myndlistarsýninguna Flæði, en sú sýning hefur hlotið afar góðar móttökur gesta. Sýningin stendur til 22. febrúar, en þann dag verður einnig opið kl. 13.00 til 15.00. Næsti viðburður hjá okkur eftir þetta verður svo erindi sem Ebba Guðný Guðmundsdóttir heldur fyrir foreldra ungbarna á bókasafninu fimmtudagsmorguninn 5. mars kl. 10.30. Þar fjallar Ebba um næringu ungbarna.  Tvær ritsmiðjur verða í marsmánuði og er það Sunna Dís Másdóttir sem annast þær. Sjá heildarlista um viðburði í húsinu með því að smella hér og fylgist nánar með á heimasíðu okkar www.safnahus.is og á Facebook: Safnahús Borgarfjarðar. Birt með fyrirvara um breytingar.  Ljósmynd (GJ): Langá á Mýrum.  

Rökkursögur 17. janúar

Safnahús tekur að venju þátt í Föstudeginum Dimma í Borgarnesi, sem að þessu sinni er 17. janúar.  Ýmislegt verður á dagskrá í bæjarlífinu tengt myrkrinu þennan dag og í Safnahúsi verður unnið í anda baðstofunnar, með sögustund og vísnagátum í hádeginu. Gestum verður boðið upp á rúgbrauð með kæfu og flatbrauð með hangikjöti að ógleymdum ísköldum slurk af mysu. Fyrir þá sem ekki treysta sér í þann þjóðlega drykk verður boðið upp á kaffisopa. Það er kjörið við þetta tækifæri að ganga um núverandi sýningu í Hallsteinssal þar sem átta myndlistarkonur sýna falleg vatnslitaverk. Föstudagurinn dimmi er viðburður í Borgarnesi á vegum þeirra Evu Hlínar Alfreðsdóttur og Heiðar H. Hjartardóttur. Með framtakinu benda þær á nánd og kosti skammdegisins og hvetja til samveru fjölskyldunnar. Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): sviðsmynd Föstudagsins Dimma í Safnahúsi árið 2019. Í bakgrunni er fallegt málverk eftir Pál á Húsafelli, af Eiríksjökli og nágrenni hans.

Sýningaropnun 11. janúar

Laugardaginn 11. janúar 2020 verður opnuð í Hallsteinssal í Safnahúsi fyrsta samsýning hópsins Flæðis. Í hópnum eru átta konur sem hittast reglulega og mála saman. Allar hafa þær bakgrunn úr Myndlistarskóla Kópavogs hjá Derek Mundell. Einnig hafa þær sótt námskeið erlendis jafnt sem innanlands hjá kennurum eins og Keith Hornblower, Ann Larsson Dahlin og Bridget Woods. Hópurinn hefur heillast af vatnslitum og töfrum þeirra þegar litur og vatn flæða saman. Vatnslitir eru krefjandi miðill sem erfitt er að stjórna en glíman við þá leiðir mann að endalausum möguleikum. Efni sýningarinnar er eins og heiti hennar gefur til kynna, flæði vatns, lita og myndefnis. Meirihluti hópsins hefur mikla tengingu við Borgarfjörðinn, ein býr þar og margar eiga sumarhús á svæðinu sem oft er uppspretta listrænna myndefna sem sést í mörgum verkum á sýningunni.  Konurnar í Flæði eru þessar: Fríða Björg EðvarðsdóttirGuðrún SteinþórsdóttirRósa TraustadóttirSesselja JónsdóttirSigríður ÁsgeirsdóttirSvanheiður IngimundardóttirÞorbjörg KristinsdóttirÞóra Mínerva Hreiðarsdóttir Eftir opnunardaginn er sýningin opin alla virka daga frá kl 13 til 18 og um helgar samkvæmt samkomulagi sem þá verður auglýst sérstaklega. Hún stendur til 18. febrúar. Á ljósmyndinni eru í aftari röð f.v. Sesselja Jónsdóttir, Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir, Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Þorbjörg Kristinsdóttir og Sigríður Ásgeirsdóttir. Fremri röð f.v.: Svanheiður…

Opnunartími um hátíðar

Opið verður í Safnahúsi á virkum dögum um komandi hátíðar kl. 13.00 – 18.00, en einnig á öðrum tímum skv. samkomulagi fyrir hópa sem sækja vilja húsið heim. Fyrsti viðburður í Safnahúsi  á árinu 2020 er myndamorgunn fimmtudaginn 9. janúar, og laugardaginn 11. janúar verður opnuð ný myndlistarsýning sem hlotið hefur heitið Flæði, þar sýna átta konur vatnslitamyndir.

Tilkynning vegna veðurs

Vegna slæmrar veðurspár og skilyrða til ferðalaga verður opnunartími í dag styttur og einungis opið til 14.00 ef verstu spár ganga eftir.  Við biðjum fólk að fylgjast með uppfærslu þessarar tilkynningar hér á síðunni og taka enga áhættu nema brýna nauðsyn beri til.  Forstöðumaður svarar í síma 898 9498 til kl. 18.00 ef þörf er á afgreiðslu eða annarri aðstoð og við bregðumst við ef þess er nokkur kostur. Góðar kveðjur frá starfsfólki.

Aðventudagskrá 5. desember

Fimmtudaginn 5. desember 2019 verður opin aðventudagskrá í Safnahúsi, þar sem fólki er boðið að koma við og hlýða á bóklestur.  Dagskráin hefst kl. 17.00 með því að eftirtaldir höfundar lesa upp úr nýjum bókum sínum: Una Margrét Jónsdóttir  –  Gullöld revíunnarÞorbergur Þórsson  –  Kvöldverðarboðið Kl. 18.00 hefst svo árlegur upplestur Aðventu Gunnars Gunnarssonar sem fer fram með aðstoð sjálfboðaliða. Lesin verður þýðing Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal.  Ingibjörg Jónasdóttir spinnur á rokk meðan á lestrinum stendur og er það gert í minningu Benoníu Jónsdóttur (1872-1946) sem var fædd á Gilsbakka í Hvítársíðu og bjó síðar á Vestri- Leirárgörðum. Hún var dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sigurbjargar Steingrímsdóttur sem síðar bjuggu í Suddu í Reykholtsdal og fluttu til Ameríku vorið 1898.  Þau hjón eru fyrirmyndir af aðal sögupersónum Böðvars Guðmundssonar í bókunum Híbýlum vindanna og Lífsins tré, sem notið hafa mikilla vinsælda. Rokkur Benóníu var nýverið gefinn til Byggðasafns Borgarfjarðar og verður til sýnis við þetta tækifæri. Þess má einnig geta hér að árlega á aðventu stillum við upp litlu jólatré sem Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli smíðaði, en hann var bróðursonur Benóníu Jónsdóttur. Aðventa Gunnars Gunnarssonar var skrifuð á dönsku og kom fyrst út á þýsku. Hún var síðan…

Brák – samsýning kvenna

Laugardaginn  23. nóvember 2019 kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Hallsteinssal. Þar sýna fjórar konur, þær Elísabet Haraldsdóttir, Harpa Einarsdóttir, Ingibjörg Huld Halldórsdóttir og Ósk Gunnlaugsdóttir. Húsið verður opið til kl. 16.00 þennan dag og sýningin stendur fram til 7. janúar 2020. Sýningin ber heitið Brák eftir fóstru Egils Skallagrímssonar og þar er velt upp spurningunni um hvað sagan um Brák þýðir fyrir sjálfsmynd kvenna og hugmyndina um kvenleika á Íslandi.  Þar gefur að líta breitt svið listrænnar tjáningar; leirlist, stór akrýl- og vatnslitaverk, krosssaum, innsetningu og skúlptúr. Elísabet Haraldsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík, er búsett á Hvanneyri. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Universität der Angewandte Kunst í Vínaborg auk þess að hafa kennsluréttindi frá LHÍ. Hún hefur tekið þátt í fjöldamörgum einka- og samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Elísabet hefur verið í samstarfi um rekstur Gallerís Langbrókar og Gallerís Meistara Jakobs auk stundakennslu við Myndlista- og handíðaskólann og kennslu og skólastjórnun á Hvanneyri. Hún var menningarfulltrúi á Vesturlandi í 13 ár, samhliða þess að sinna leirlistinni. Harpa Einarsdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún útskrifaðist sem fatahönnuður úr LHÍ árið 2005 og starfar sem listamaður undir nafninu Ziska. Hún hefur unnið við margvísleg…

Dagur íslenskrar tungu

Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu. Var dagurinn valinn vegna þess að hann er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls á þessum degi og beinir þar með athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Í Safnahúsi er dagsins að venju minnst með því að birta fallegt kvæði Snorra Hjartarsonar sem vísar til arfleifðar Jónasar og ber heitið Jónas Hallgrímsson. Snorri Hjartarson var fæddur á Hvanneyri og bjó í Borgarfirði fram á unglingsár, á Ytri Skeljabrekku og í Arnarholti. Eitt einkenni ljóða hans eru friðsælar en litríkar myndir íslenskrar náttúru, en hann var mikill unnandi hennar.  Jónas Hallgrímsson Döggfall á vorgrænum víðumveglausum heiðum,sólroð í svölum og góðumsuðrænum blæ. Stjarnan við bergtindinn bliknar,brosir og slokknar,óttuljós víðáttan vaknarvonfrjó og ný. Sól rís úr steinrunnum straumum,stráum og blómumhjörðum og söngþrastasveimumsamfögnuð býr. Ein gengur léttfær að leita:lauffalin gjótageymir nú gimbilinn hvíta,gulan á brár. Hrynja í húmdimmum skútahljóðlát og glitrandi tár. Kvæði (1944)

Þorsteinsvaka 14. nóvember

Þann 1. október sl. var haldinn í Iðnó stofnfundur nýs félags sem ber heitið Arfur Þorsteins frá Hamri. Markmið félagsins er að sýna arfleifð Þorsteins ræktarsemi sem og þeim menningararfi sem hann tók í fang sér. Félagið mun standa fyrir ýmsum viðburðum, einkum á ævislóðum Þorsteins, í Borgarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Borgarbyggð styður verkefnið með ýmsum hætti og á Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahússins sæti í stjórn félagsins. Þann 14. nóvember stendur félagið fyrir Þorsteinsvöku á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi og er hún jafnframt einskonar framhaldsstofnfundur félagsins. Að þessu ljóða- og sagnakvöldi koma einstaklingar úr Borgarnesi og Reykjavík. Flutt verða stutt ávörp og lesin valin ljóð skáldsins.  Til máls taka: Guðrún Nordal, Þórarinn Jónsson, Vigdís Grímsdóttir, Theodór Þórðarson, Ástráður Eysteinsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Valdimar Tómasson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Dagskráin hefst kl. 20 og stendur í rúma klukkustund, aðgangur er ókeypis.