Sumarlestur 2017 – uppskeruhátíð

Í morgun var haldin uppskeruhátíð sumarlestrar og mættu ötulir lestrarhestarnir í Safnahús þar sem starfsfólk bauð til dagskrár undir stjórn Sævars Inga héraðsbókavarðar.  Alls lásu 22 börn 85 bækur í þessu átaki og átta þeirra hlutu lestrarvinninga.  Allir þátttakendur fengu svo viðkenningarskjöl ásamt lestrargóðgæti sem var barnaföndurbók og Andrés blað frá Eddu útgáfu. Einnig fengu þau muni frá Tryggingamiðstöðinni og Arion banka. Ekki komust allir þátttakendur á hátíðina en þeir sem ekki sáu sér fært að mæta geta vitjað vinnings og viðurkenninga í næstu ferð á bókasafnið.  Styrktaraðilum verkefnisins eru færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn. Á meðf. mynd (GJ) má sjá Sævar Inga Jónsson héraðsbókavörð fyrir miðju með sumarstarfsmenn Safnahúss sér til beggja handa, þau Sandra Sjabansson og Önnu Þórhildi Gunnarsdóttur.

Munir úr M/S Hvítá MB 8 gefnir Byggðasafni

Tvær merkar gjafir hafa borist til Byggðasafns Borgarfjarðar. Um er að ræða skipsbjöllu og lukt úr skipinu M/S Hvítá, sem gegndi talsverðu hlutverki í útgerðarsögu Borgarness um miðja síðustu öld.  Það var Björgvin E. Vídalín kafari og framkvæmdastjóri Eldvíkur ehf sem afhenti gripina tvo, sem hann hafði gætt vandlega síðan hann sótti þá sjálfur í flakið árið 1966 eða fyrir rúmri hálfri öld. Björgvin segir sjálfur svo frá: „Ungur fékk ég mikinn áhuga á köfun og nýtt hvert tækifæri til að vaða út í sjó og kafa. Um 1966 eða 67 fór ég að kafa út frá skipasmíðastöðinni Bátalóni, í Hafnarfirði. Ég synti út í Helgasker til að tína krækling og öðuskel. Þegar ég fór til baka var komið háflóð. Ég synti að skipi sem maraði í hálfu kafi í fjörunni. Á dekkinu var bjalla sem ég tók í land ásamt lukt, sem ég tel að hafi verið í formastri flaksins.“ Um Hvítána Hvítáin var byggð í Svíþjóð árið 1946 og kom til Íslands í júlímánuði það ár. Hún var keypt af félagi sem hét Fjörður og starfaði undir forystu þeirra Eggerts Einarssonar og Finnboga Guðlaugssonar í Borgarnesi. Skipið var til að byrja með 91 brúttólest en var síðar stækkað upp…

Starfsemin á næstunni

Líflegt hefur verið í Safnahúsi í sumar enda alls fimm sýningar í húsinu. Sumarlestri er nú lokið og var það í tíunda sinn sem héraðsbókasafn stóð fyrir lestrarátaki fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Í ágústlok verður þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu dr Selmu Jónsdóttur sem var fædd og uppalin í Kaupangi í Borgarnesi (nú Egils guesthouse) og átti ættir að rekja í Borgarfjarðarhérað að langfeðgatali.  Verða sett upp veggspjöld um Selmu við stigauppgöngu á efri hæð. Fyrirlestraröð verður á dagskrá í upphafi vetrar og eftir áramót munu fjórar myndlistarkonur sýna í Hallsteinssal: janúar (lau).- 02. mars (fö)  –    Guðrún Helga Andrésdóttir mars (lau) – 20. apríl (fö)   –       Christina Cotofana apríl (lau) – 25. ágúst (fö)  –      Áslaug Þorvaldsdóttir sept. (lau) – 26. okt. (fö)   –          Steinunn Steinarsdóttir Margt verður fleira á dagskrá ársins 2018 og má þar nefna árlega samstarf við Tónlistarskóla Borgarfjarðar undir heitinu „ Að vera skáld og skapa.“  

Sumarlestur í tíunda sinn

Nú er tímabil Sumarlesturs hafið á bókasafninu en það stendur frá 10. júní – 10. ágúst  og er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Börnin koma á safnið og velja sér bók eða bækur til lesturs og skrá sig um leið í Sumarlesturinn.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð ennfremur sem er eitt af markmiðum átaksins, annað markmið er að hafa gaman yfir sumarið með bók í hönd.  Þetta er í tíunda sinn sem Héraðsbókasafnið gengst fyrir þessu verkefni. Árlega hefur verið gerð sérstök sumarlestrarmynd og má sjá mynd ársins 2017 hér með fréttinni.  Myndirnar eru gerðar af myndlistarmanninum Elínu Elísabetu Einarsdóttur. Fyrir hverja lesna bók fæst happamiði sem fer í pott sem dregið er úr í lok sumars þar sem nokkrir heppnir lestrarhestar hljóta vinning, en öllum þátttakendum er færður glaðningur á sérstakri sumarlesturshátíð í Safnahúsi þar sem farið er í leiki og veitingum gerð skil.   Sjáumst á bókasafninu í sumar!

Steinasafn Þórdísar í Höfn

Sá mikilvægi áfangi náðist í Safnahúsi nú í maílok að lokið var við að greina, mynda og skrá steinasafn Náttúrugripasafns Borgarfjarðar auk þess sem búið var um gripina upp á nýtt og þeim komið í góðar geymslur. Þess má geta að þar með er Náttúrugripasafn Borgarfjarðar fyrsta safn sinnar tegundar sem skráir safnkost sinn í Sarp. Greiningu steinasafnsins annaðist Unnur Þorsteinsdóttir meistaranemi í jarðfræði en einnig komu Bryndís Ýr Gísladóttir og Rob Askew að verkinu. Ljósmyndun, skráning og frágangur var í höndum Halldórs Óla Gunnarssonar.  Verkefnið var stutt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Safnaráði Íslands.  Stærsti hluti safnsins er steinasafn sem Þórdís Jónsdóttir, Höfn í Borgarfirði eystra gaf náttúrugripasafninu  árið 1983.  Má nú sjá safn Þórdísar á www.sarpur.is með því að smella hér.  Fyrsta afhending Þórdísar kom árið 1978 þegar hún var á ferð í Borgarnesi og Bjarni Bachmann safnvörður ræddi við hana. Þá kom fram að hún vildi hvergi frekar vita af steinasafni  sínu en í Borgarnesi. Árið 1983 gaf hún safnið í heild sem  við andlát hennar gekk til náttúrugripasafnsins.  Þórdís var úr Mýrasýslu, fædd 8. júlí árið 1900, dóttir Kristínar Herdísar Halldórsdóttur (1868-1948) og Jóns Böðvarssonar (1856-1934) sem voru m.a. bændur á þremur bæjum í Norðurárdal, Hreðavatni, Hvammi og Brekku en bjuggu síðast í…

Sýningar – opnunartími – exhibitions

Sýningar Safnahúss eru opnar alla daga 13.00 – 17.00 á sumrin, frá 1. maí til 31. ágúst.  Aðgangseyrir er 1.200 kr. fyrir fullorðna (18 – 67 ára)  og  800 fyrir hópa (10+), eldra fólk og öryrkja. Ókeypis aðgangur fyrir börn að 18 ára aldri.  Grunnsýningar eru tvær: Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna.   Á efri hæð eru þrjár aðrar sýningar, sjá nánar undir sýningar hér annars staðar á síðunni. Exhibitions are open daily 1-5 p.m. May 1st – August 31st. Admission:  Adults (18 – 67 years) kr. 1.200. Groups (10+), seniors (67 years +) kr. 800. Children (-18): free of charge

Sumargjöf í minningu Björns Guðmundssonar

Í dag er alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi. Fulltrúar starfsmanna Safnahúss hófu daginn á fundi byggðaráðs sem tók við sumargjöf hússins til sveitarstjórnar á afmælisári Borgarness; veggspjaldi um Björn Guðmundsson höfund Bjössaróló. Fengu starfsmenn afar hlýjar móttökur hjá fundarmönnum.  Veggspjaldið hefur verið í smíðum um nokkurt skeið og er hugsunin að baki því að minna á hugsjónir Björns á sviði umhverfismála.  Spjaldið hannaði Heiður Hörn Hjartardóttir og textagerð annaðist Guðrún Jónsdóttir sem einnig á þar ljósmynd ásamt Theodór Kr. Þórðarsyni. Byggðaráð hyggst koma veggspjaldinu fyrir á stað þar sem margir eiga leið hjá og er það vel.  Á veggspjaldinu má sjá eftirfarandi texta: Bjössaróló í Borgarnesi Björn Guðmundsson og hugsjónir hans Björn Guðmundsson var fæddur árið 1911. Hann var trésmiður og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Bjössi var langt á undan sinni samtíð á sviði sjálfbærni og minjaverndar. Meðal þess sem hann átti þátt í að bjarga frá eyðileggingu voru gömlu verslunarhúsin í Englendingavík í Borgarnesi. Bjössi var barnelskur mjög.  Árið 1979 hóf hann smíði róluvallarins, í næsta nágrenni við hús sitt á Vesturnesi og hélt honum síðan við og endurbætti. Hann lagði áherslu á að hafa leiktækin í náttúrulegum litum og vildi að börnin gengju vel um og umgengjust náttúruna…

Sumaropnun frá 1. maí

Frá 1. maí n.k. eru sýningar Safnahúss opnar alla daga vikunnar 13.00 – 17.00, jafnt helgidaga sem aðra daga.  Sumaropnunin gildir fram til 1. september en eftir það er opið 13.00 – 16.00 virka daga. Alls verða fimm sýningar í húsinu í sumar, tvær grunnsýningar á neðri hæðinni og sýningin Tíminn gegnum linsuna (ljósmyndir frá Borgarnesi), veggspjaldasýning um Pourquoi pas og minningarsýning um Jakob Jónsson á Varmalæk á efri hæð.  Vakin er athygli á að sumaropnun á einungis við um sýningar, afgreiðslutímar bókasafns og skjalasafns eru óbreyttir. Sýningin Tíminn gegnum linsuna verður opin aukalega laugardaginn 29. apríl vegna afmælishátíðar Borgarness og þá 13.00 – 14.45.   Kl. 15.00 hefst svo afmælisdagskrá sem Borgarbyggð býður til í Hjálmakletti. Grunnsýningar Safnahúss eru Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, en þær eru ekki síst þekktar fyrir listræna og frumlega hönnun Snorra Freys Hilmarssonar.  Margir merkir gripir eru á sýningunum, þar á meðal baðstofa frá Úlfsstöðum í Reykholtsdal.  Sýningarnar henta fyrir alla aldurshópa og jafnt fyrir Íslendinga sem erlenda gesti.  

Flokkun og greining á steinasafni

Eitt sex megin markmiða nýútkominnar safnastefnu Þjóðminjasafns á sviði menningarminja er að vinna faglega og á vandaðan hátt með safnkostinn. Um þessar mundir erum við að hefja flokkun og skráningu steinasafns náttúrugripasafns Borgarfjarðar þökk sé Uppbyggingarsjóði Vesturlands og fleiri aðilum. Unnur Þorsteinsdóttir meistaranemi í jarðfræði við HÍ vinnur greininguna fyrir Safnahús og sést hér á mynd fyrir miðju ásamt liðsmönnum sínum við verkefnið. Henni til beggja handa eru Bryndís Ýr Gísladóttir og Rob Askew. Þess má geta að Unnur er úr Borgarfirðinum, nánar tiltekið frá Fróðastöðum í Hvítársíðu.  Að flokkun og greiningu lokinni tekur Halldór Óli Gunnarsson starfsmaður okkar við verkefninu og skráir safnið í Sarp, viðurkenndan gagnagrunn safna (www.sarpur.is).  Verður það verk unnið í maí og vinnst þar með mikilvægur áfangi þar sem þá verða allir gripir náttúrugripasafnsins skráðir í Sarp, er það fyrsta fagsafnið sinnar tegundar á landsvísu sem það gerir.

Borgarnes 150 ára – afmælishátíð á laugardag

Næstkomandi laugardag kl. 15.00 býður Borgarbyggð til afmælishátíðar Borgarness í Hjálmakletti.  Einnig verða aðrir dagskrárliðir þennan dag sem sjá má nánar um á www.borgarbyggd.is. Er tilefnið 150 ára afmæli Borgarness, en miðað er við árið sem staðnum var veitt verslunarleyfi sem var vorið 1867.   Á laugardaginn kemur má því reikna með að brottfluttir Borgnesingar og aðrir velunnarar bæjarins verði á ferðinni. Því verður Borgarnessýning Safnahúss, Tíminn gegnum linsuna opin þennan dag kl.  13.00 – 14.45 sem undanfari að afmælishátíðinni.    Er vonast til að margir leggi leið sína í Borgarnes til að fagna þessum tímamótum.  Þess má einnig geta að frá 1. maí tekur við sumaropnun í Safnahúsi þar sem sýningar verða opnar alla daga kl. 13.00 – 17.00, gildir það fram til 1. september að vetraropnun tekur við aftur.