Viðurkenning frá Grapevine

Rýnihópur ferðatímaritsins Grapevine hefur veitt Safnahúsi viðurkenningu og telur sýningar hússins í fremstu röð. Er þetta afar ánægjulegt fyrir Borgarbyggð sem hefur ákvæði um framúrskarandi safnastarf meðal markmiða sinna í menningarmálum. Meðal þess sem tilgreint er við grunnsýningar hússins er að í annarri þeirra sé sýnt eftirminnanlega fram á þær gríðarlegu breytingar sem æska landsins stóð frammi fyrir á 20. öld þegar samfélagið tók stökk yfir í nútímann.  Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Þær eru hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndahönnuði sem hefur hlotið mikið lof fyrir nálgun sína.  Hér má sjá textann á heimasíðu blaðsins: Safnahús Borgarfjarðar is one of the most locally-focused museums in the country. Located inside a bright red house near the sea, the museum offers a new program every year focusing on local artists. Their permanent exhibition, ‘Children Throughout A Century’, dives into the dramatic changes Icelandic children have faced as Icelandic society transformed from an agricultural community to a modern nation. “They reconstructed an old turf living room and from there you just walk into a modern teenagers bedroom from IKEA,” one panel member says. “It’s a crazy contrast, just a great exhibit.”   

Safnfræðsla

Eitt megin markmið menningarstefnu Borgarbyggðar er að efla menningarvitund með fræðslu hvers konar.  Safnahús leggur sitt af mörkum með því að vanda til um móttöku skóla- og frístundahópa og koma árlega margir slíkir á söfnin. Eru þetta öll skólastig, frá leikskóla- og upp í háskóla, auk almennra hópa s.s. vinahópa og félagasamtök. Frásögn er hagað eftir hópnum hverju sinni og aldrei eru vandræði að finna viðfangsefni eða nálgun, því borgfirsk saga er uppfull af afreksfólki sem á einn eða annan hátt er frásagnarvert.  Einnig hefur hönnun Snorra Freys Hilmarssonar á sýningunum Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna vakið mikla athygli, en hún er djúphugsuð og á erindi við alla.  Þannig vinnur menningin með listinni sem er einnig hluti af menningunni. Hér ofar má sjá nokkrar myndir af hópum sem komið hafa í húsið að undanförnu og vill starfsfólk Safnahúss nota tækifærið til að þakka leiðbeinendum og leiðangursstjórum fyrir gott og gefandi samstarf um heimsóknirnar það sem af er ári.

Flutti lagið sitt í Alþingishúsinu

Ungur nemandi Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Kristján Karl Hallgrímsson frá Vatnshömrum, kom fram við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu 17. júní, þar sem ný hátíðarútgáfa af Íslendingasögum og þáttum var afhent. Kristján Karl flutti þar eigið lag við ljóð Sigríðar Einarsdóttur frá Munaðarnesi. Viðstödd voru m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir og hr. Guðni Th. Jóhannesson, ráðherrar og forsætisráðherra. Var gerður afar góður rómur að lagi og flutningi Kristjáns sem er einungis 10 ára gamall. Samkoman var á vegum afmælisnefndar um 100 ára fullveldi Íslands, en Alþingi fól nefndinni að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu. Lagið sem Kristján Karl samdi var fyrst flutt á sameiginlegum tónleikum Safnahúss og Tónlistarskólans í vor, en þessar tvær stofnanir standa árlega að verkefninu „Að vera skáld og skapa“, þar sem nemendur skólans velja ljóð eftir borgfirskt skáld og semja lag við það undir handleiðslu kennara sinna. Þess má geta að kennari Kristjáns Karls við Tónlistarskólann er Hafsteinn Þórisson. Það var Einar K. Guðfinnsson formaður afmælisnefndar sem kynnti unga listamanninn í Alþingishúsinu á þjóðhátíðardaginn og fórust honum m.a. svo orð: „Segja má að öll listsköpun eigi sér rætur í einhvers konar texta. Verkefnið „Að vera skáld og skapa“ spratt af þeirri hugsun og er eitt af fjölmörgum verkefnum sem…

Sumarlestrarmyndin 2018

Við kynnum nýjan höfund Sumarlestrarmyndar fyrir okkur, það er hún Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir sem gert hefur þessa fallegu mynd fyrir verkefnið í ár.  Eins og sjá má á myndinni líður manni vel þegar maður les bækur.  Nánar um Sumarlesturinn: Hann stendur yfir frá 10.júní-10.ágúst og er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Börnin koma á safnið og velja sér bók eða bækur til lesturs og skrá sig um leið í Sumarlesturinn.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð ennfremur sem er eitt af markmiðum átaksins, annað markmið er að hafa gaman yfir sumarið með bók í hönd.   Þetta er í ellefta sinn sinn sem Héraðsbókasafnið gengst fyrir þessu verkefni.  Fyrir hverja lesna bók fæst happamiði sem fer í pott sem dregið er úr í lok sumars þar sem nokkrir heppnir lestrarhestar hljóta vinning, en öllum þátttakendum er færður glaðningur á sérstakri sumarlesturshátíð í Safnahúsi þar sem farið er í leiki og veitingum gerð skil.  Bókasafnið er opið alla virka daga frá 13 til 18. Sjáumst krakkar á bókasafninu í sumar!  

Sumarlestur í Safnahúsi

Frá 10.júní-10.ágúst verður eins og undanfarin ár boðið uppá Sumarlestur á bókasafninu fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Börnin koma á safnið og velja sér bók eða bækur til lesturs og skrá sig um leið í Sumarlesturinn.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð ennfremur sem er eitt af markmiðum átaksins, annað markmið er að hafa gaman yfir sumarið með bók í hönd.   Þetta er í ellefta sinn sinn sem Héraðsbókasafnið gengst fyrir þessu verkefni.  Fyrir hverja lesna bók fæst happamiði sem fer í pott sem dregið er úr í lok sumars þar sem nokkrir heppnir lestrarhestar hljóta vinning, en öllum þátttakendum er færður glaðningur á sérstakri sumarlesturshátíð í Safnahúsi þar sem farið er í leiki og veitingum gerð skil.  Bókasafnið er opið alla virka daga frá 13 til 18. Sjáumst krakkar á bókasafninu í sumar!   Ljósmynd (GJ): Frá uppskeruhátíð Sumarlestrarins 2017.

Ný bók Guðmundar Eggertssonar

Meðal nýrra bóka sem keyptar hafa verið að undanförnu á bókasafnið er ný bók Dr. Guðmundar Eggertssonar en hann er fæddur árið 1933 og er alinn upp á Bjargi í Borgarnesi.  Bókin ber heitið Rök lífsins og þar er sagt frá nokkrum brautryðjendum líffræðinnar, sérstaklega á sviði erfðafræði.  Guðmundur var lengi prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sameindaerfðafræði. Hann hefur verið nefndur faðir erfðafræðinnar á Íslandi.  Rök lífsins er fjórða bók Guðmundar á sínu fræðasviði en einnig hefur hann skrifað fjölda greina í tímarit.  Bókin er 192 síður, í mjúku bandi. Það er hið nýja og vaxandi forlag Benedikt sem gefur hana út. Hönnun kápunnar var í höndum Ólafs Unnars Kristjánssonar.  Ljósmyndir með frétt: (GJ): a: Guðmundur Eggertsson kynnir bók sína Ráðgátu lífsins í Safnahúsi fyrir fjórum árum. b: forsíða nýju bókarinnar.

Valdís Halldórsdóttir  (1908-2002)

Um þessar mundir eru 110 ár liðin frá fæðingu Valdísar Halldórsdóttur skáldkonu. Valdís var eldri dóttir Halldórs Helgasonar og Vigdísar Valgerðar Jónsdóttur á Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum; fædd 27. maí árið 1908. Hún starfaði sem kennari og bjó lengst af í Hveragerði ásamt manni sínum sr. Gunnari Benediktssyni presti og rithöfundi. Saman eignuðust þau tvö börn, Heiðdísi og Halldór en fyrir átti Gunnar þrjá syni.  Valdís ritstýrði tímaritinu Emblu sem flutti efni eftir konur í þremur heftum á árunum 1945-1949.  Þar átti hún sjálf bæði ljóð og smásögur sem birtust einnig víðar í tímaritum. Þetta var óvenjulegt og djarft framtak þess tíma og sýnir áhuga hennar og yndi af skáldskap. Valdís var um margt á undan sinni samtíð. Hún sótti sér menntun sem var ekki algengt meðal kvenna af hennar kynslóð og vann alla tíð utan heimilis. Einnig lét hún sig ýmis málefni varða, hérlendis sem erlendis. Árið 2015 heiðruðu Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús minningu Valdísar og nokkurra ættkvenna hennar á tónleikum og við það tækifæri var gefið út hefti með ljóðum þeirra. Var það gert í samvinnu við fjölskyldur kvennanna og var nokkuð af ljóðunum áður óbirt, m.a. eftirfarandi vísa þar sem Valdís kveður um líkt veðurfar og verið hefur…

Eldri skjöl Hvalfjarðarsveitar afhent

  Eldri skjöl Hvalfjarðarsveitar voru afhent Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar miðvikudaginn 9. maí s.l. Skúli Þórðarson sveitarstjóri kom og afhenti Jóhönnu Skúladóttur héraðsskjalaverði tvö bretti af skjölum frá Hvalfjarðarstrandarhreppi, Innri- Akraneshreppi, Leirár- og Melahreppi og Skilmannahreppi. Þessir hreppar sameinuðust árið 2006 í Hvalfjarðarsveit. Í afhendingunni voru einnig gögn frá byggingafulltrúa, grunnskóla, leikskóla og fleiri stofnunum sveitarfélaganna. Með Skúla í för voru Birna Mjöll Sigurðardóttir og Erla Dís Sigurjónsdóttir sem unnu fyrir Hvalfjarðarsveit að frágangi skjalanna til langtímavarðveislu á skjalasafnið. Með þessum skilum er góðum áfanga náð í skjalamálum Hvalfjarðarsveitar.  Ljósmynd: Birna Mjöll Sigurðardóttir. 

Birkistóll – nýr safngripur

Nýverið barst byggðasafninu góð gjöf Þorbjargar Guðmundsdóttur ekkju Þorkels Sigurðssonar frá Kolsstöðum (1923 – 2015). Ögmundur Runólfsson tengdasonur þeirra hjóna kom með stólinn og þá var myndin tekin.  Þetta er stóll úr birki sem Bjarni Sigurðsson í Hraunsási smíðaði úr völdum viði í nágrenni Hraunsáss í Hálsasveit. Verður stóllinn til sýnis í anddyri bókasafns næstu daga. Aftan á stólnum er eftirfarandi texti skráður: Bjarni Sigurðsson fæddur 30. apríl 1901, dáinn 30. júlí 1974 smíðaði þennan stól úr birki, úr hraunsásskógi.   Við undirrituð eignuðumst þennan stól 1973. Að okkur gengnum á hann að fara á Byggðasafnið í Borgarnesi. Reykjavík 1. júní 1974 Þorbjörg Guðmundsdóttir Þorkell Sigurðsson Stólinn verður nú skráður sem safngripur á byggðasafnið og er þessu góða fólki þakkað fyrir þann hug sem gjöfinni fylgir.  

Tónleikar á sumardaginn fyrsta

Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að því að hvetja ungt fólk til að semja tónlist við borgfirsk ljóð. Fer verkefnið þannig fram að ljóðahefti er útbúið og sett í hendur nemenda. Þeir velja sér texta úr safninu og semja lög við. Þeir ákveða síðan flutningsmátann sjálfir og frumflytja verkin ásamt kennurum sínum á opnum tónleikum. Verkefnið hefur fengið sérstaklega jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar og íbúum í héraðinu. Einnig fékk verkefnið styrk hjá afmælisnefnd um fullveldi Íslands og eru tónleikarnir því einn af viðburðum afmælisársins 2018. Verkefnið byggir á ákvæði í menningarstefnu Borgarbyggðar um frumkvæði, sköpun og menningararf. Um 160 nemendur stunda nú nám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem starfað hefur í fimmtíu ár. Safnahús hefur verið við lýði síðan um 1960. Báðar stofnanir eru í eigu Borgarbyggðar og vinna að þessu verkefni þvert á fagsvið sín undir heitinu: „Að vera skáld og skapa“. Verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans. Á árinu 2018 tekur markmið og textaval sérstakt mið af fullveldisárinu og horft er til ástar á landinu eins og hún kemur fram í ljóðum skálda. Eru skáldin fulltrúar ýmissa tímabila,…