Frásögn af háskaferð

Safnahús var með innlegg í félagsstarf aldraða að Borgarbraut 65a í Borgarnesi í hádeginu, sem hluta af sumardagskrá á vegum félagsstarfsins. Það er Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir sem skipuleggur dagskrána og er hér á mynd með þátttakendum, sem hlýddu á Guðrúnu Jónsdóttur safnstjóra rifja upp skrif Kristleifs Þorsteinssonar um háskaferð frostaveturinn 1881 frá Húsafelli til Reykjavíkur. Þess má geta að það verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá hjá félagsstarfinu næstu þrjár vikurnar sem hægt er að nálgast á heimasíðu Borgarbyggðar. Kristleifur ÞorsteinssonKristleifur var fæddur árið 1861 og lést 1952. Hann var þekktur fyrir vandaða sagnaritun um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stærstan þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi  reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði. Ljósmynd (GJ) f.v.: Fanney Hannesdóttir, Júlíana Hálfdánardóttir,  Sveinn Hallgrímsson, Ása Sigurlaug Halldórsdóttir, Guðbjörg Svavarsdóttir, Sigrún D. Elíasdóttir, Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir og Gerður Karitas Guðnadóttir.

Starfsemin sumarið 2020

Alls eru fimm sýningar í gangi í Safnahúsi í sumar og sumarlesturinn er hafinn á bókasafninu. Margir voru orðnir bókþyrstir eftir lokun safnanna í vor og fólk hefur verið duglegt að sækja sér bækur. Ný sýning var opnuð um miðjan júní og hefur hún fengið heitið 353 andlit (sjá mynd). Heitið vísar til þess að á sýningunni eru ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir, myndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga Bjarnasonar sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Sú sýning verður opin fram í september. Sýningin Saga úr samfélagi (sjá mynd) var opnuð 27. júní, en það er segir frá framtaki Eyglóar Lind Egilsdóttur  í Borgarnesi, sjö barna móður og ömmu í Borgarnesi sem gladdi marga á erfiðum Covid-tímum í vor með því að búa sig upp í mismunandi búninga og guða á gluggann hjá barnabörnum sínum í sóttkví.  Sonja dóttir hennar náði myndum af þessu og skrifaði skýringartexta. Þær myndir hefur hún góðfúslega samþykkt að gefa á Héraðsskjalasafnið. Með fleiri myndum er á sýningunni varpað frekara ljósi á konuna að baki þessu vinsæla framtaki. Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævinýri fuglanna, báðar hannaðar af Snorra Frey…

Alþjóðlegi safnadagurinn

Í dag er alþjóðlegi safnadagurinn 2020. Söfn um allan heim minnast hans með rafrænum hætti og leggja jafnframt áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika í heiminum. Í Safnahúsi er sú leið farin að minnast mætrar konu sem var fædd í upphafi 20. aldar og bjó yfir ríkri réttlætiskennd, ekki síst varðandi réttindi kvenna. Þetta er skáldkonan Halldóra B. Björnsson frá Grafardal. Hennar er nú minnst hér á síðunni og við hvetjum fólk til að kynna sér ævi hennar og verk. Í tilefni dagsins er veittur ókeypis aðgangur á grunnsýningar safnanna.

Sýningar sumarið 2020

Sýningu Ingu Stefánsdóttur sem opna átti 16. maí var frestað um eitt ár, fram til 2021. Fram til 2. júní í sumar verða í Hallsteinssal sýndar landslagsmyndir frá nágrenni Húsafells, úr safneign Listasafns ASÍ. Þar má sjá verk eftir Ásgrím Jónsson, Jón Þorleifsson og Jón Stefánsson. Einnig eru þar sýnd verk í eigu Nýlistasafnsins eftir hollenska listamanninn og Íslandsvininn Douwe Jan Bakker. Sýningarstjóri er Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ. Fimmtudaginn 11. júní er svo upphafsdagur sýningarinnar 353 andlit undir sýningarstjórn Helga Bjarnasonar. Þetta er í annað sinn sem Helgi annast sýningarverkefni fyrir Safnahús, en hann var sýningarstjóri að sýningu um Hvítárbrúna sem sett var upp á 90 ára afmæli hennar árið 2018. Heitið 353 andlit vísar til þess að á sýningunni má sjá ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir. Um er að ræða ljósmyndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Margt af myndunum sýnir verkafólk að störfum og er verkefnið stutt af Stéttarfélagi Vesturlands. Sýningin stendur fram í september. Á neðri hæðinni eru grunnsýningarnar Safnahúss, Ævintýri fuglanna og Börn í 100 ár. Þær eru opnar 13-17 alla daga sumarsins, aðgangseyrir er 1500 og ókeypis fyrir börn…

Sumaropnun sýninga

Sumaropnun sýninga hefur tekið gildi í Safnahúsi og er nú opið alla daga kl. 13.00 til 17.00 en einnig á öðrum tímum fyrir hópa (10+) eftir samkomulagi. Grunnsýningar hússins eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Báðar hafa þær hlotið mikið lof gesta. Á efri hæð hússins eru einnig áhugaverðar tímabundnar sýningar.  Gjaldskrá er stillt í hóf og er 1.500 kr. fyrir fullorðna, börn 18 ára og yngri frá frían aðgang. Aldraðir (67 +), hópar, öryrkjar og nemar: 1.000 kr. Opnunartími annarra safna í húsinu er óbreyttur og má sjá frekari upplýsingar með því að smella hér.                                                              Verið velkomin!

Sumarstarfsmaður óskast

Safnahús auglýsir eftir starfsmanni í sumarafleysingar. Um er að ræða ýmis störf á söfnunum, s.s. sýningarvörslu, leiðsögn, afgreiðslu, flokkun gagna, skráningar, þrif og fleira. Viðkomandi þarf að vera orðinn 18 ára og hafa góða tölvu- og tungumálakunnáttu, vera samviskusamur og hafa vandaða framkomu ásamt ríkri þjónustulund. Mikilvægt er einnig að eiga auðvelt með samskipti og geta veitt sýningaleiðsögn bæði á ensku og íslensku.  Önnur tungumál og almennur áhugi á bókmenntum og sögu er kostur. Launakjör eru skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir óskast sendar á gudrunj@borgarbyggd.is fyrir 14. maí 2020. Með umsókn þarf að fylgja skrá yfir menntun og starfsferil og kynningarbréf þar sem gert er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið. Við hvetjum áhugasama til að sækja um óháð kyni og uppruna.

Opnað aftur 4. maí

Safnahúsið mun opna á ný mánudaginn 4. maí eftir að hafa verið lokað frá þriðjudeginum 24. mars vegna Covid-19 skv. fyrirmælum yfirvalda.  Opnunartími verður sá sami og venjan er á þessum árstíma. Það þarf ekki að taka fram að fyllsta hreinlætis verður gætt og farið að tilmælum um sóttvarnarmál.  Vegna ástands mála varðandi COVID-19 hefur gildistími allra gildra lánþegaskirteina á bókasöfnum verið framlengdur um tvo mánuði til að bæta lánþegum upp þann tíma sem lokunin hefur varað og  gott betur en það.  Skirteini sem hafði gildistíma t.d. 1.maí rennur nú út 1.júlí. Full þörf er á að söfnin opni á ný og starfsfólk hlakkar til að hitta gesti og gangandi sem þangað eiga erindi í sumar. 

Skoðað eftir 39 ár

Mánudaginn 4. maí verður Safnahús opnað aftur eftir lokun frá þriðjudeginum 24. mars vegna sóttvarna. Á þeim tíma hefur stofnunin daglega miðlað fróðleik gegnum Facebook síðu sína og hefur því verið vel tekið. Hafa þar verið rifjaðar upp góðar stundir og verkefni frá liðnum tíma.  Ein slík stund varð í lok febrúar s.l. og varðar starfsemi Héraðsskjalasafnsins, en þar eru m.a. varðveitt einkaskjalasöfn fólks.  Aðgangur að einkaskjalasöfnum er almennt opinn en hægt er að setja skilyrði um aðgengi ef gögnin innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá gilda ákvæði upplýsingalaga um að persónuleg gögn séu lokuð í 80 ár frá dagsetningu bréfs. Einnig geta einkaðilar leyft aðgang að skjölum eftir ákveðinn tíma eins og gert var á sínum tíma með gögn frá Oddsstöðum í Lundarreykjadal.  Í lok febrúar s.l. mætti á héraðsskjalasafnið hópur afkomenda Sigurðar Bjarnasonar (1883-1960) og Vigdísar Hannesdóttur (1882-1977) á Oddsstöðum til að opna lítinn skjalaböggul sem hafði verið afhentur á safnið árið 1981 með því fororði að hann yrði lokaður til ársins 2020. Varð úr þessi hinn skemmtilegasti atburður þar sem afkomendurnir mæltu sér mót við Jóhönnu Skúladóttur héraðsskjalavörð, opnuðu böggulinn, skoðuðu innihald hans og ræddu um gamla tíma.  Barnabörn Sigurðar Bjarnasonar og Vigdísar Hannesdóttur Oddsstöðum: Sigurður Guðjónsson, Bjarni Guðjónsson,…

Saga úr stríðinu kvikmynduð

Á undanförnum mánuðum hefur Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar sótt Safnahús heim nokkrum sinnum til að fræðast um gripi og sýningar. Er þar um vandaða dagskrárgerð að ræða og verðmætt framlag við miðlun menningararfsins. Umfjallanir sínar kallar félagið „mola”. Alls hafa fjórir slíkir verið gerðir í Safnahúsi og eru forsvarsmönnum félagsins færðar bestu þakkir fyrir þá virðingu sem þeir sýna safnastarfinu með þessu framtaki. Sjá má hér nýjasta molann þar sem sögð er örlagasaga úr seinni heimstyrjöldinni. Hér má sjá hina þrjá molana:Undirskálasafn Ólínu: Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir og Eiríkur JónssonKistill blinda smiðsins: Guðrún Jónsdóttir og Eiríkur JónssonSýning í Hallsteinssal: Helena Guttormsdóttir og Eiríkur Jónsson Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar er hópur áhugamanna um gerð myndefnis sem stofnaður var árið 2019.  Hefur félagið þegar auðgað menningarlíf Borgarfjarðar og nágrennis mjög með starfsemi sinni sem miðar að eins konar myndrænni skjalfestingu mannlífsins.  Í félaginu eru þeir Eiríkur Jónsson, Daði Georgsson, Eðvar Ólafur Traustason, Orri Sveinn Jónsson, Einar Árni Pálsson, Kristinn Óskar Sigmundsson og Arnar Víðir Jónsson.  Ljósmynd:  Nokkrir af aðstandendum félagsins í Safnahúsi að lokinni upptöku í október 2019. Frá vinstri: Daði Georgsson, Eðvar Ólafur Traustason, Einar Árni Pálsson og Eiríkur Jónsson. Myndataka: Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir.

Lokað að sinni

Samkvæmt tilmælum heilbrigðisyfirvalda um Covid-19 faraldurinn verður Safnahús lokað frá og með þriðjudeginum 24. mars. Mánudaginn 23. mars verður bókasafnið opið frá kl. 13 til 17.  Starfsemi skjalasafns verður í lágmarki á meðan á lokun stendur.  Vonast er til að aðstæður verði með þeim hætti sem fyrst að opna megi aftur.  Starfsfólk vinnur að einhverju leyti heima og við munum reglubundið setja fréttir inn á Facebooksíðu Safnahúss: Safnahús Borgarfjarðar. Bestu kveðjur og góðar óskir frá starfsfólki.