Nemendur í myndlistavali í Varmalandsskóla komu í heimsókn í Safnahúsið í morgun. Þau fengu bæði leiðsögn um Börn í 100 ár af starfsfólki, og um Gullpenslasýninguna af Helenu Guttormsdóttur. Hún ræddi við nemendur um ýmsar tegundir lista og mismunandi skoðanir á þeim, auk þess sem þau gerðu stutt verkefni.
Sagnaritunarátak Safnahúss er nú formlega hafið með heimsókn fulltrúa þess á félagsfundi eldri borgara í Borgarnesi og í Borgarfjarðardölum. Þar hefur verkefnið verið kynnt og upplýsingum um það dreift til félagsmanna. Fólk hefur verið beðið um að setja minnisatriði og minningabrot frá liðnum tímum niður á blað og afhenda Safnahúsi jafnframt afrit af þessum gögnum til varðveislu. Með átakinu er höfðað sérstaklega til eldra fólks, en jafnframt til fólks á öllum aldri því breytingar í samfélaginu hafa verið afar miklar á undanförnum áratugum.
Páll Guðmundsson á Húsafelli verður fimmtugur þann 27.mars og heldur af því tilefni málverkasýningu í Reykjavík þann sama dag í Reykjavík Art Gallery. Sýningin heitir Vinir mínir og eru þar samankomnar ýmsar persónur úr lífi Páls. Að öðrum ólöstuðum er Páll mesti listamaður héraðsins sem hefur löngum verið Listasafninu vinveittur og við óskum honum hjartanlega til hamingju með áfangann!
Töluverður gestagangur hefur verið í Safnahúsinu, auk þeirra vanalegu gesta sem sækja bókasafnið. Nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar komu ásamt kennara til að vinna verkefni um barnabækur. Þau fengu einnig leiðsögn Helenu Guttormsdóttur um sýningu Gullpenslanna. Og hróður þeirrar sýningar berst víða um land, því hingað kom líka hópur nema úr Listaháskólanum á Akureyri til að berja hana augum, á ferð sinni til höfuðborgarinnar. Von er á enn fleiri gestum í hádeginu á morgun, föstudag 27. mars, þegar boðið verður upp á leiðsögn fyrir áhugasama um Gullpenslasýninguna.
Safnahús Borgarfjarðar hefur sett í gang átak til að fá íbúa í sveitarfélaginu til að skrifa niður ýmis minnisatriði og frásagnir og fela skjalasafninu til varðveislu. Sérstaklega er í þessu tilliti höfðað til eldra fólks sem þekkir söguna betur en þeir sem yngri eru. Þetta er ekki síst gert með Gullastokkinn að fyrirmynd, en það er verkefni sem hefur lengi verið í gangi hjá félagi eldri borgara í Borgarfjarðardölum, þar sem fólk hefur tekið saman ýmsan fróðleik um menn og málefni og miðlað til annarra í félaginu auk þess sem söfnin hafa fengið að njóta góðs af.
Glæsileg sýning Gullpensilsins var opnuð í Safnahúsinu síðastlina helgi. Umsjónarkona sýningarinnar, Helena Guttormsdóttir mun veita leiðsögn um hana í hádeginu næstu tvo föstudaga: þann 27. mars og 3. apríl. Allir áhugasamir eru hvattir til að líta við á þessa sýningu nokkurra af fremstu listamönnum Íslands, en hún stendur til 17. apríl.
Þessa dagana er verið að leggja nýjan gólfdúk á listasal, skrifstofur og hol í Safnahúsi. Það eru menn frá Sigurði Hanssyni dúklagningarmeistara sem vinna verkið og áætluð verklok eru á morgun. Á meðan á þessu hefur staðið hafa gestir Safnahúss sýnt mikla þolinmæði og skilning á ástandinu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Í dag er Böðvar Guðmundsson rithöfundur frá Kirkjubóli í Hvítársíðu sjötugur. Böðvar er yngstur þriggja barna Ingibjargar Sigurðardóttur húsmóður og Guðmundar Böðvarssonar hins landskunna skálds og bónda á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Böðvar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962, hann lauk Cand.mag-prófi í íslenskum fræðum frá H.Í. 1969 og nam auk þess norræn fræði við Christian Albrechts Universitat í Kiel 1964-1965. Hann starfaði við kennslustörf hér á landi og í Noregi til ársins 1987, en hefur síðan verið rithöfundur í fullu starfi og verið búsettur á Sjálandi í Danmörku.