Páll Guðmundsson á Húsafelli verður fimmtugur þann 27.mars og heldur af því tilefni málverkasýningu í Reykjavík þann sama dag í Reykjavík Art Gallery. Sýningin heitir Vinir mínir og eru þar samankomnar ýmsar persónur úr lífi Páls. Að öðrum ólöstuðum er Páll mesti listamaður héraðsins sem hefur löngum verið Listasafninu vinveittur og við óskum honum hjartanlega til hamingju með áfangann!

Töluverður gestagangur hefur verið í Safnahúsinu, auk þeirra vanalegu gesta sem sækja bókasafnið. Nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar komu ásamt kennara til að vinna verkefni um barnabækur. Þau fengu einnig leiðsögn Helenu Guttormsdóttur um sýningu Gullpenslanna. Og hróður þeirrar sýningar berst víða um land, því hingað kom líka hópur nema úr Listaháskólanum á Akureyri til að berja hana augum, á ferð sinni til höfuðborgarinnar. Von er á enn fleiri gestum í hádeginu á morgun, föstudag 27. mars, þegar boðið verður upp á leiðsögn fyrir áhugasama um Gullpenslasýninguna.

Safnahús Borgarfjarðar hefur sett í gang átak til að fá íbúa í sveitarfélaginu til að skrifa niður ýmis minnisatriði og frásagnir og fela skjalasafninu til varðveislu. Sérstaklega er í þessu tilliti höfðað til eldra fólks sem þekkir söguna betur en þeir sem yngri eru. Þetta er ekki síst gert með Gullastokkinn að fyrirmynd, en það er verkefni sem hefur lengi verið í gangi hjá félagi eldri borgara í Borgarfjarðardölum, þar sem fólk hefur tekið saman ýmsan fróðleik um menn og málefni og miðlað til annarra í félaginu auk þess sem söfnin hafa fengið að njóta góðs af.