Í dag er Böðvar Guðmundsson rithöfundur frá Kirkjubóli í Hvítársíðu sjötugur.  Böðvar er yngstur þriggja barna Ingibjargar Sigurðardóttur húsmóður og Guðmundar Böðvarssonar hins landskunna skálds og bónda á Kirkjubóli í Hvítársíðu.  Böðvar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962, hann lauk Cand.mag-prófi í íslenskum fræðum frá H.Í. 1969 og nam auk þess norræn fræði við Christian Albrechts Universitat í Kiel 1964-1965.  Hann starfaði við kennslustörf  hér á landi og í Noregi til ársins 1987, en hefur síðan verið rithöfundur í fullu starfi og verið búsettur á Sjálandi í Danmörku.

 

Rithöfundarferill Böðvars hefur bæði verið langur og farsæll og að sama skapi afar fjölbreyttur. 

 

Fyrsta bók hans kom út árið 1964, ljóðabókin Austan Elivoga.  Aðrar ljóðabækur Böðvars eru: Í mannabyggð, 1966, Burtreið Alexanders, 1972, Vatnaskil, 1986, Heimsókn á heimaslóð, 1989, og Þrjár óðarslóðir 1994.  Síðasta frumsamda ljóðabók Böðvars til þessa nefnist Krakkakvæði og kom út árið 2002 en sú bók er myndskreytt af Áslaugu Jónsdóttur.  Eitt kvæða bókanna er á þessa veru:

 

Samkomulag

 

Á snúrunni dansa í blíðum blænum

buxurnar mínar og þrennir sokkar

gallar og skyrtur af Nínu og Nonna

og náttfötin okkar.

 

Þau eru vinir og vefja ermum

og veifa skálmum og finnst svo gaman.

Mikið er skrýtið

að sjá þau svona,

því okkur kemur svo illa saman.

 

 

Skáldsögur Böðvars eru orðnar fjórar; Bændabýti kom út 1990, bækurnar vinsælu um ferðir Íslendinga til Vesturheims; Híbýli vindanna og Lífsins tré komu árin 1995 og 1996 en fyrir þá seinni hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta.  Smellið hér til að lesa frétt Morgunblaðsins um afhendinguna. 

 

Híbýli Vindanna og Lífsins tré voru síðar færðar í sviðsbúning og settar upp á sviði Borgarleikhússins leikárið 2004 – 2005.  Þá hafa bækurnar einnig komið út í enskri og danskri þýðingu.

 

Fjórða og síðasta skáldsaga Böðvars til þessa, þó jafnvel með einhverjum sannsögulegum blæ sé, er bókin Sögur úr síðunni en sú bók ber undirtitillinn, þrettán myndir úr gleymsku. 

 

Í tilefni af útkomu bókarinnar var Böðvar sérstakur gestur á Hvítársíðukvöldi sem Safnahús Borgarfjarðar efndi til í húsakynnum sínum þann 4. nóv. 2007, en auk Böðvars komu fram ungar tónlistarkonur úr Hvítársíðu.  Um 150 manns troðfylltu sal listasafns af þessu tilefni.  Í blaði sínu þann 7. nóvember 2007 sagði Skessuhorn frá atburðinum á bls 19,  smellið hér til að lesa fréttina.

 

Til gamans má geta að í nýlegu blaðaviðtali var tilkynnt að von væri á nýrri skáldsögu Böðvars síðar á þessu ári, frá núverandi útgefendum hans Uppheimum á Akranesi, er þar um sögulega skáldsögu að ræða.

 

Smásagnasöfn Böðvars eru tvö; Sögur úr seinni stríðum komu út árið 1978 og Kynjasögur árið 1992. 

 

Böðvar hefur verið afar afkastamikill á sviði þýðinga og meðal verka hans má nefna bókina Kalli og Sælgætisgerðin en fyrir þá bók fékk Böðvar viðurkenningu fyrir best þýddu barnabókina árið 1983. Aðrar þýðingar Böðvars eru m.a. hinar vinsælu Spiderwick-sögur eftir Tony DiTerlizzi, Gáruð vötn eftir Kerstin Ekman, Kötturinn með hattinn eftir Dr. Seus, Og sagði ekki eitt einasta orð eftir Heinrich Böll og Frankenstein eða hinn nýi Prómóþeus eftir Mary Wollstonecraft Shelley.  Þá eru ótaldar fjölmargar ljóða- og textaþýðingar í ýmsum verkum.
 

Úr Skollaleik, mynd tekin af heimasíðu Leikminjasafns Íslands

Leikrit Böðvars eru fjölmörg, meðal annars má nefna leikritin Krummagull og Skollaleik sem Alþýðuleikhúsið sýndi á sínum tíma, en hið fyrrnefnda var fyrsta frumsýnda verk leikhússins sem stofnað var á Akureyri 4. júlí 1975, Skollaleikur fylgdi svo strax í kjölfarið. 

Önnur leikrit Böðvars eru m.s þessi: Heimilisdraugar 1979, Úr aldaannál 1982, Ættarmótið 1990 og Kvennaskólaævintýrið 1995.

 

Þá tók Böðvar einnig saman ritin Bréf Vestur-Íslendinga I og II sem út komu árin 2001 og 2002, en áðurnefndar skáldsögur um Vesturfaranna eru að nokkru leyti byggðar á bréfum frá Vestur-Íslendingum. 

Böðvar skrifaði einnig bókina Jónas Hallgrímsson: Ævimynd en hún var gefin út á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal árið 2007 en þá voru liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar. 

 

                                    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Útgefnar hljómplötur Böðvars eru tvær, en þar leikur hann og

syngur eigin ljóð og lög.  Sú fyrri nefnist Þjóðhátíðarljóð 1974 en á þeirri plötu leikur hinn heimsþekkti óperusöngvari Kristinn Sigmundsson  á gítar, en eftirlætur Böðvari sjálfum allan söng í þeim fimm lögum sem prýða plötuna. 

 Seinni platan er öllu stærri í sniðum og ber heitið Það er engin þörf að kvarta og kom út árið 1981.

 

Meðal fleiri verka Böðvars má nefna fjölmarga söngtexta, greinar í blöðum og tímaritum og umsjón með nokkrum útvarpsþáttum. 

 

Áður hefur verið vikið að væntanlegri skáldsögu Böðvars síðar á árinu en reyndar eru ekki nema tveir dagar í aðra bók sem gefin er út í tilefni af sjötugsafmæli hans, sú bók nefnist Alþýðusöngbókin og hefur að geyma safn söngtexta Böðvars í gegnum tíðina.  Ennfremur eru birtir í fyrsta sinn sálmar Böðvars og þýðingar hans á veraldarlegum og andlegum ljóðum.   Þá gefur að líta hnyttin tækifæriskvæði, ort við hin ýmsu tilefni, sem sérstaklega var smalað saman, bæði af handritum og úr munnlegri geymd, í tilefni af afmælinu og útkomu bókarinnar.

 

 

Starfsfólk Safnahúss sendir Böðvari bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins.

 

Samantekt: Sævar Ingi Jónsson

Categories:

Tags:

Comments are closed