Ný sending af þýskum bókum er komin í millisafnaláni til Héraðsbóka-safnsins. Um er að ræða bókakassa frá Bókasafni Hafnarfjarðar sem er móðursafn þýskra bóka á Íslandi. Með fylgdu nokkrar hljóðbækur. Á myndinni má sjá tvær bókanna sem komu. Alltaf er eitthvað um að spurt sé eftir erlendum bókum á safninu og er kappkostað að koma til móts við þær óskir. Sem dæmi má nefna að fyrir tilstilli pólska ræðismannsins er til nokkuð af pólskum bókum og einnig er til nokkuð mikið úrval af enskum bókum og eitthvað af efni á Norðurlandamálunum.
Í dag bárust nokkrar myndir af gamla Borgarnesi til Héraðsskjalasafnsins. Sendandinn er Arngrímur Sigurðsson, en Gísli Magnússon skósmiður og hárskeri í Borgarnesi var ömmubróðir hans. Myndirnar eru líklega teknar öðru hvoru megin við síðari heimsstyrjöldina.
Fróðlegt væri að vita ef einhver kannast við konuna sem er á annarri myndinni.
Starfsfólk Safnahúss.
Í morgun var farið með níu muni af byggðasafninu til Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar. Beðið hafði verið um munina vegna fræðslu um Þorrann og martvælaframleiðslu fyrri tíma. Munirnir voru m.a. tvær gerðir af strokkum, trog, ausa og askur auk mjólkurbrúsa. Annar tilgangur ferðarinnar að Kleppjárnsreykjum var að fara yfir eldra skjalasafn skólans með tilliti til þess hvað af þeim gögnum ættu að vistast á skjalasafninu. Það var Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður sem fór yfir þau mál með Valdísi Óskarsdóttur kennara.
Í anddyri bókasafns hefur nú verið sett upp sýning á ljósmyndum sem teknar voru í Borgarnesi á hernámsárunum 1940-1943.
Sýningin er á vegum Ljósmyndasafns Akraness og Safnahúss (Héraðs-skjalasafns) og er Ljósmyndasafni Akraness þakkað gott samstarf um verkefnið sem og ýmislegt fleira gott á liðnum árum.
Í dag, 14. janúar 2011 eru hundrað ár liðin frá fæðingu Björns Hjartar Guðmundssonar (Bjössa) sem smíðaði Bjössaróló. Af því tilefni hefur verið stillt upp í Safnahúsi verkfærum úr eigu Björns auk fróðleiks um hann og gestabókum frá Bjössaróló.
Á myndinni hér til hliðar sést Bjössi í fylgd frú Vigdísar Finnbogadóttur þegar hún kom í opinbera heimsókn í Borgarnes árið 1992. Myndina tók Theodór Þórðarson.
Undirbúningur vegna sýningar um sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka (1845-1922) stendur nú yfir í Safnahúsi. Sr. Magnús gegndi mörgum merkum hlutverkum í héraði á sínum tíma og fyrir utan prestsstörfin má nefna að hann var alþingismaður Mýramanna, virtur kennari og homopati sem leitað var til víða að af landinu. Meðal hollvina sýningarinnar er Ásgeir Pétursson fyrrv. sýslumaður sem hefur afhent Héraðsskjalasafninu mikið af gögnum af þessu tilefni, en sr. Magnús var afi hans. Fyrir stuttu kom sending frá Ásgeiri þar sem m.a. var að finna bréf skrifað árið 1915. Bréfritari er Eggert Eiríksson, faðir tæplega fjögurra ára telpu sem er lystarlítil eftir veikindi.
Vegagerð ríkisins minntist eitt hundrað ára starfsafmælis í Borgarnesi í Safnahúsi s.l. þriðjudag, en það var árið 1910 sem Guðjón Bachmann brúasmiður og verkstjóri fluttist í Borgarnes og hóf þar störf við vegagerð. Af þessu tilefni afhenti stofnunin Byggðasafni Borgarfjarðar nú líkan af gömlu Hvítárbrúnni, sem þótti á sínum síma mikið verkfræðiafrek og er enn mikil héraðsprýði. Líkanið er í hlutföllunum 1:42 og er smíðað af Erling M. Andersen. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ávarpaði samkomuna og sagði m.a. að þótt menn vissu hvenær starfsemin hefði hafist í Borgarnesi lægi ekki alveg fyrir hvenær formleg vegagerð (nú starfsemi Vegagerðar ríkisins) hefði hafist í landinu, en líklega væri það ekki löngu fyrr.
Í dag verður þess minnst að í ár eru 100 ár síðan Vegagerð ríkisins hóf formlega starfsemi í Borgarnesi. Af því tilefni mun Vegagerðin verða með opið hús á neðri hæð Safnahúss kl. 16.00. Við það tækifæri munu forsvarsmenn hennar færa Byggðasafni Borgarfjarðar líkan af gömlu Hvítárbrúnni til varðveislu.
Líkanið er smíðað af Erling M. Andersen í Hafnarfirði og má sjá hluta þess á myndinni hér að ofan. Á neðri myndinni má svo sjá upprunalegu smíðina, Hvítárbrúna sem byggð var 1928. - Allir velkomnir.