Starfsfólk Safnahúss óskar öllum vinum og velunnurum safnanna gleðilegs árs og þakkar góðar og gefandi stundir á árinu sem leið.

Á þessu ári eru liðin fjörutíu ár síðan Hallsteinn Sveinsson (1903-1995) gaf mikið og merkilegt málverkasafn til Borgarness og Listasafn Borgarness var stofnað, en það er nú eitt þeirra fimm safna sem mynda Safnahús Borgarfjarðar. Það var einnig að frumkvæði Hallsteins að stytta Ásmundar bróður hans um kvæðið Sonatorrek var sett upp á Borg á Mýrum fyrir þrjátíu árum (1981). Hallsteinn fjármagnaði að mestu gerð afsteypunnar; safnaði ellilaunum sínum og reiddi fram stórfé til verkefnisins. Einnig gaf Ásmundur eftir höfundarlaun og systkini þeirra bræðra lögðu öll fram einhverjar fjárhæðir í þessa framkvæmd. Þá veittu Mýrasýsla, Kaupfélag Borgfirðinga og ríkið nokkurn styrk til verksins, en Hallsteinn Sigurðsson bróðursonur Hallsteins annaðist gerð afsteypunnar og uppsetningu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Man ég jólin morgna, daga og kvöld,

minninganna bak við helgitjöld,

fögnuðinn, sem fyllti mína sál

er farið var með heilagt trúarmál.

 

í Jesú nafni jólin voru sett,

í Jesú nafni börnin voru mett,

í Jesú nafni jólagleðin var,

í Jesú nafni beðið alstaðar.

 

Dýrð sé Guði og drottins undramátt,

dýrð sé hverri helgri jólanátt,

hún ber í skauti boðskap frelsarans

og breiðir frið og ljós í huga manns.

 

Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti.

 

Í morgun kom Árni Múli Jónassson bæjarstjóri Akraness í heimsókn í Safnahús. Með honum í för voru nokkrir embættismann Akranesbæjar, þau Inga Ósk Jónsdóttir starfsmanna- og gæðastjóri, Ragnheiður Þórðardóttir þjónustu- og upplýsingastjóri og Tómas Guðmundsson verkefnastjóri Akranesstofu.  Erindi þeirra var að kynna sér safnastarfsemina og skoðuðu þau allar sýningar hússins sem eru af ýmsum stærðum og gerðum.

 

Vorið 2007 gerðu sveitarfélögin Akranes og Borgarbyggð með sér samning um samstarf í menningarmálum og var hann hugsaður sem farvegur fyrir samstarf menningarstofnana í sveitarfélögunum báðum. 

 

 

Árið 2008 hafði Sigvaldi Arason í Borgarnesi frumkvæði að kaupa líkan af Eldborginni, með stuðningi ýmissa aðila í héraði og í samvinnu við Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóra á skipinu. Líkanið var afhent til Byggðasafns Borgfirðinga með hátíðlegri athöfn þann 15. ágúst það ár. Eldborgin var á sínum tíma gerð út frá Borgarnesi í meira en tvo áratugi og á sér því mikilvægan sess í atvinnusögu héraðsins.  Líkt má segja um fjögur önnur skip sem sami hópur hefur nú einnig látið smíða líkön af og afhent Byggðasafninu, þ.a. Hvítána  sem var afhent  til safnsins í maí 2009, Hafborgina sem kom í febrúar 2010, og nú síðast Akraborgina og Laxfoss, en þau skipslíkön voru afhent við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti s.l. föstudag, 25. nóvember. 

 

Við það sama tækifæri var haldið upp á formlega útgáfu Útgerðarsögu Borgfirðinga, bók sem Ari Sigvaldason hefur skrifað fyrir hópinn með Sigvalda Arason og Svein Hálfdánarson sem öfluga bakhjarla. Er mikill fengur að þessu framtaki þar sem mikilvægum þætti í atvinnusögu Borgarness er minnst.

 

Á samkomuni mátti sjá mörg andlit sem tengdust sögu skipanna sem hér um ræðir. Meðal annarra sem þarna voru var Ragnar Olgeirsson sem sigldi á Eldborginni sem ungur maður, Jón Daníelsson og Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljósmyndir: líkönin af Laxfossi og Akraborg, Ragnar Olgeirsson við líkanið af Eldborginni og fólk að festa kaup á Útgerðarsögu Borgfirðinga.

 

 

Guðrún Jónsdóttir

 

Háteigsskóli fór með sigur af hólmi í hæfileikakeppninni Skrekk í gærkvöldi með merkingarþrungið atriði byggt á ljóðinu Síðasta blómið sem er byggt á verki eftir Bandaríska skáldið James Thurber (1894–1961). Það var Borgfirðingurinn Magnús Ásgeirsson, sem snaraði textanum á sínum tíma úr óbundnu máli. Magnúsar er einmitt minnst í Safnahúsi þessa dagana því í ár eru liðin 110 ár frá fæðingu hans. 

 

Verk Thorbers var e-k myndasaga um eyðileggingu og afleiðingar stríðs og breiskleika mannsins og á því sífellt þarft erindi við nútímann.

 

Hér á eftir má sjá kvæði Magnúsar í heild sinni:  

 

Ljóðasýning 5. bekkja á starfssvæði Safnahúss var opnuð með viðhöfn í gær. Að loknum upphafsorðum Sævars Inga Jónssonar héraðsbókavarðar kom Ævar Þór Benediktsson leikari fram og heillaði krakkana með alls kyns tilraunum og glensi. 

 

Þess má geta að Ævar Þór er héðan úr héraði og var í barnæsku tíður gestur í Safnahúsi. Það var því einkar gaman að fá að njóta hæfileika hans í gær.

 

Að dagskrá lokinni var farið upp í anddyri bókasafnsins, þar sem búið var að stilla ljóðum krakkanna upp, en þar verða þau til sýnis næstu þrjár vikurnar eða fram að 12. desember. Að þessu sinni tóku fjórir skólar  þátt: Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og á Varmalandi auk Heiðarskóla. Laugargerðisskóli tók ekki þátt að þessu sinni en kemur vonandi sterkur til leiks á næsta ári.

Nú í nóvember eru liðin 110 ár frá fæðingu Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda og rithöfundar. Safnahús minnist hans af þessu tilefni með því að stilla upp nokkrum ljóðum hans og þýðingum auk fróðleiks um skáldið á veggspjaldi. Magnús var fæddur á Reykjum í Lundarreykjadal 9. nóv. 1901. 

 

Í tilefni norræna skjaladagsins þann 12. nóvember 2011 er opnaður vefurinn Skjaladagur.is. Það eru Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin í landinu sem standa að vefnum og er hann að þessu sinni helgaður verslun og viðskiptum. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar er þar með efni um verslun Jóns Björnssonar og co í Borgarnesi sem starfaði á árunum 1907-1924. Ýmislegt  fróðlegt má finna á vefnum eins og lista yfir skjöl verslana hjá Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnunum. Einnig er hægt að taka þátt í getraun og hljóta góðan vinning.

Nú fer hver að verða síðastur að sjá uppstillinguna um Gunnu á Húsafelli og Kristleif Þorsteinsson á Stórakroppi  - aðeins nokkrir dagar eftir. Af þessu tilefni verður boðið upp á hádegisleiðsögn um sýningar okkar á efri hæðinni föstudaginn 11. nóvember kl. 12.30. Leiðsögnin tekur um 25 mín., Guðrún Jónsdóttir segir frá. Verið innilega velkomin.
 
Næsta sýning í anddyri bókasafns verður ljóðasýning barna í 5. bekkjum grunnskóla á starfssvæði Safnahúss. Þar er um að ræða árlegt verkefni héraðsbókasafnsins í samvinnu við kennara viðkomandi skóla, unnið í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Þátttaka hefur alltaf verið góð og mikið af góðum texta hefur sprottið upp úr verkefninu. Ljóðasýningin verður opin í þrjár vikur frá föstudeginum 18. nóvember.