Háteigsskóli fór með sigur af hólmi í hæfileikakeppninni Skrekk í gærkvöldi með merkingarþrungið atriði byggt á ljóðinu Síðasta blómið sem er byggt á verki eftir Bandaríska skáldið James Thurber (1894–1961). Það var Borgfirðingurinn Magnús Ásgeirsson, sem snaraði textanum á sínum tíma úr óbundnu máli. Magnúsar er einmitt minnst í Safnahúsi þessa dagana því í ár eru liðin 110 ár frá fæðingu hans. 

 

Verk Thorbers var e-k myndasaga um eyðileggingu og afleiðingar stríðs og breiskleika mannsins og á því sífellt þarft erindi við nútímann.

 

Hér á eftir má sjá kvæði Magnúsar í heild sinni:  

 

Undir XII. alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við).

 

eftir blóðug öfgaspor
endursteyptist menning vor.

 

Heimsbyggð öll var eydd að grunni.
Uppi stóð ei tér né runni.

 

Bældir heimsins blómsturgarðar.
Brotnir heimsins minnisvarðar.

 

Lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór.

 

Horfin von, með hlýðni þrotna,
hundar sviku lánadrottna.

 

Sótti á bágstatt mannkmyn margur
meinkvikinda stefnivargur.

 

Músik-, bóka- og myndalaus
manneskjan sat með kindarhaus,
gleði-, dáða- og girndalaus.

 

Glötunin virtist þindarlaus…

 

Pótentátar XII. stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins,
mundu orðið ekki par
út af hverju stríðið var.

 

Hvort til annars drós og drengur
dreymdum augum renndu ei lengur,
heldur gláptust öndverð á:
Ástin sjálf var lögst í dá…

 

Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:

 

Síðasta blóm í heimi.

 

Heim hún stökk, þá sögu að segja,
að síðasta blómið væri að deyja.

 

Ungum pilti út í haga
einum fannst það markverð saga.

 

Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.

Í heimsókn komu, að heilsa því,
hunangsfluga og kólibrí.

 

Bráðum urðu blómin tvö
og blómin tvö að fjórum,

fimm, sex, sjö… …
og síðast breiðum stórum.

 

Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).

 

Piltinum fanns hún alheims undur.
Ástin var í birtingu.

 

Börnin tóku að hoppa og hlæja
hnellin, keik og létt á brá.

 

Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).

 

Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,

 

og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,

 

og söngvar lífsins upphófust enn,

 

og fram komu fiðlarar
og fjölbragðamágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar, hugvitsmenn
og hermenn!

 

Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kapteinar
og majorar og marskálkar
og mannkynslausnarar!

 

Niðri í dölum, fram til fjalla
fólk sér dreifði um veröld alla.

 

En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja,

 

og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.

 

Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnararnir, með guð að baki,

 

unsz eftir skamm hríð
hófst alheimsstríð.

Í stríði því var öllu eytt

 

ekki neitt


lifði af þann lokadóm,

 

nema einn piltur

 

nema ein telpa

 

nema eitt blóm.

 

Heimild: Magnús Ásgeirsson. 2001. 100 þýdd kvæði. Mál og menning, Reykjavík, bls. 181. 

 

Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed