Man ég jólin morgna, daga og kvöld,

minninganna bak við helgitjöld,

fögnuðinn, sem fyllti mína sál

er farið var með heilagt trúarmál.

 

í Jesú nafni jólin voru sett,

í Jesú nafni börnin voru mett,

í Jesú nafni jólagleðin var,

í Jesú nafni beðið alstaðar.

 

Dýrð sé Guði og drottins undramátt,

dýrð sé hverri helgri jólanátt,

hún ber í skauti boðskap frelsarans

og breiðir frið og ljós í huga manns.

 

Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti.

 

Guðrún kenndi sig við Brautarholt á Kjalarnesi, en var fædd í Sveinatungu í Norðurárdal árið 1892. Hún lést í Reykjavík 1970. 

 

Helsta heimild: Heimilsblaðið, 1. desember 1966, bls. 222.

 

Myndin er af Staðarhraunskirkju sem var byggð 1954 utan um gömlu timburkirkjuna á staðnum. Í kirkjunni er altaristafla sem Barbara Árnason málaði árið 1957. Staðarhrauns- og Hítardalsprestaköll voru sameinuð 1875 og kirkjan í Hítardal var aflögð 1884.
 
Myndataka: Guðrún Jónsdóttir

Categories:

Tags:

Comments are closed