Á þessu ári eru liðin fjörutíu ár síðan Hallsteinn Sveinsson (1903-1995) gaf mikið og merkilegt málverkasafn til Borgarness og Listasafn Borgarness var stofnað, en það er nú eitt þeirra fimm safna sem mynda Safnahús Borgarfjarðar. Það var einnig að frumkvæði Hallsteins að stytta Ásmundar bróður hans um kvæðið Sonatorrek var sett upp á Borg á Mýrum fyrir þrjátíu árum (1981). Hallsteinn fjármagnaði að mestu gerð afsteypunnar; safnaði ellilaunum sínum og reiddi fram stórfé til verkefnisins. Einnig gaf Ásmundur eftir höfundarlaun og systkini þeirra bræðra lögðu öll fram einhverjar fjárhæðir í þessa framkvæmd. Þá veittu Mýrasýsla, Kaupfélag Borgfirðinga og ríkið nokkurn styrk til verksins, en Hallsteinn Sigurðsson bróðursonur Hallsteins annaðist gerð afsteypunnar og uppsetningu.

 

Hallsteinn Sveinsson var fæddur á Kolsstöðum í Dölum en flutti í Eskiholt í Borgarhreppi rúmlega tvítugur. Þar bjó hann allt þangað til hann var um fertugt að hann fór til Reykjavíkur þar sem hann bjó til ársins 1971. Þá flutti hann í Borgarnes, gaf listaverkasafnið sitt til samfélagsins og gerðist vistmaður á Dvalarheimilinu. Þar fékkst hann meðal annars við smíðar og útskurð. Það hafði hann einnig áður gert og á árunum sem hann bjó í Reykjavík rammaði hann inn myndir fyrir ýmsa merkustu listamenn landsins og þáði gjarnan málverk að launum. Þess má geta að nýverið gaf fjölskylda Hallsteins tíu smíðisgripi eftir hann til Byggðasafns Borgarfjarðar og bera þeir hagleik hans fagurt vitni.

 

Hallsteinn Sveinsson barst ekki á um dagana, en hann skildi eftir sig mikil verðmæti. Gjöf hans er uppistaða og grunnur að Listasafni Borgarness. Sýningarsalur Safnahúss ber nafn þessa velgjörðarmanns héraðsins og verk úr safni hans eru sýnd með reglulegu millibili. Listaverkin eru einnig til sýnis í opinberum stofnunum úti í samfélaginu, enda var það einlægur vilji gefandans að sem flestir gætu notið þeirra.

 

Í Safnahúsi er hugsað til Hallsteins Sveinssonar með virðingu og þökk á þessum tímamótum.

Categories:

Tags:

Comments are closed