Ljóðasýning 5. bekkja á starfssvæði Safnahúss var opnuð með viðhöfn í gær. Að loknum upphafsorðum Sævars Inga Jónssonar héraðsbókavarðar kom Ævar Þór Benediktsson leikari fram og heillaði krakkana með alls kyns tilraunum og glensi. 

 

Þess má geta að Ævar Þór er héðan úr héraði og var í barnæsku tíður gestur í Safnahúsi. Það var því einkar gaman að fá að njóta hæfileika hans í gær.

 

Að dagskrá lokinni var farið upp í anddyri bókasafnsins, þar sem búið var að stilla ljóðum krakkanna upp, en þar verða þau til sýnis næstu þrjár vikurnar eða fram að 12. desember. Að þessu sinni tóku fjórir skólar  þátt: Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og á Varmalandi auk Heiðarskóla. Laugargerðisskóli tók ekki þátt að þessu sinni en kemur vonandi sterkur til leiks á næsta ári.

Vonast er til að héraðbúar verði duglegir við að leggja leið sína í Safnahús á næstunni til að skoða sköpunarverk allra þessara fínu ungskálda.

 

Safnahús þjónar alls þremur sveitarfélögum. Auk Borgarbyggðar eru það Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur. Starfssvæði hússins nær því allt frá Hvalfirði og að Haffjarðará.

 

Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed