Í gær fengu tvær stofnanir sveitarfélagsins, Safnahúsið og Tónlistarskólinn, viðurkenningu Samfélagssjóðs verkfræðistofunnar EFLU fyrir samstarfsverkefni stofnananna um listræna sköpun ungs fólks. Um er að ræða þróunarverkefni þar sem nemendur semja lög við ljóð borgfirskra skálda og eru verkin síðan flutt á tónleikum í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta.

Styrkur EFLU er veittur vegna ársins 2016, en þá munu nemendur vinna með ljóð Snorra Hjartarssonar sem fæddur var á Hvanneyri og bjó einnig á Ytri-Skeljabrekku og í Arnarholti.

 

Samfélagssjóður EFLU var stofnaður árið 2013 í tilefni af 40 ára afmæli fyrirtækisins og er markmið hans er að styrkja uppbyggjandi og jákvæð verkefni í samfélaginu. Hefur úthlutunarnefnd gildi EFLU, hugrekki, samvinna og traust sem leiðarvísi við störf sín. Alls fengu níu aðilar viðurkenningu frá sjóðnum í gær.

 

Viðurkenningin er mikilvæg hvatning fyrir samstarf Safnahúss og Tónlistarskólans. Það hefur fengið afar jákvæðar undirtektir og þess má geta að á síðustu tónleikum voru hátt á annan tug verka eftir nemendur skólans frumflutt. Höfðu þeir unnið að því á vorönn að semja undir handleiðslu kennara sinna. Var flutningur með ýmsum hætti og m.a. kom kór eldri borgara fram í einu laginu sem var eftir sjö ára tónskáld. 

Bjarna Guðmundssyni var vel tekið við opnun sýningar sinnar s.l. laugardag. Þar sýnir hann texta og teikningar, en hann er þekktur fyrir textasmíð sína og hefur alltaf haft áhuga á teikningu sem dægradvöl eins og hann segir sjálfur frá.  Safnahús þakkar öllum þeim sem mættu á opnunardaginn og hvetur sem flesta til að sjá þessa sýningu Bjarna við fyrsta tækifæri. Hún verður opin 13.00 - 18.00 alla virka daga og stendur til 20. janúar.

Kynnt verður bókin Utangarðs? Ferðalag til fortíðar, eftir Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði H. Jörundsdóttur. Myndskreytingar eru eftir Halldór Baldursson. Höfundar kynna. Bókin fjallar um utangarðsfólk á Vesturlandi og Vestfjörðum og verður að þessu sinni sérstaklega sagt frá borgfirsku fólki, Svani Jónssyni frá Grjóteyrartungu og Kristínu Pálsdóttur frá Eystri-Leirárgörðum, sem var víða í Borgarfirði.   

 

Héraðsskjalasöfnin og Þjóðskjalasafn eru með sameiginlegan vef í tilefni skjaladagsins og er þemað þetta árið samnorrænt „Gränslöst“. Íslensk yfirskrift skjaladagsins er „Án takmarka“. Þemað vísar til þess sem er óvenjulegt, utan þess sem gengur og gerist, lýtur engum eða litlum takmörkunum, eða er jafnvel utan þessa tilverustigs. Sem dæmi má nefna íslensku sauðkindina sem fer alla jafnan sínu fram og virðir engin takmörk. Finna má dæmi um heimildir af því líku á vefnum skjaladagur.is

Sagnakvöld Safnahúss verður kl. 20.00 fimmtudaginn 12. nóv. Það er árlegur viðburður á vegum Héraðsbókasafns þar sem það helsta í borgfirskri útgáfu er kynnt og lesið upp úr nokkrum nýjum bókum. Dagskráin  tekur um klukkutíma og heitt verður á könnunni á eftir.  Að venju verða bækur seldar á staðnum og áritaðar sé þess óskað. Lesið verður upp úr eftirtöldum bókum:

Þá hló Skúli- ævisaga Skúla Alexanderssonar (alþingis- og athafnamanns á Hellissandi) eftir Óskar Guðmundsson

Undir Fíkjutré - saga af trú, von og kærleika eftir Önnu Láru Steindal (saga innflytjandans Ibrahem Al Danony Mousa Faraj, ekki síst  eftir að hann kemur til Íslands)

Sindur- ljósbrot frá eyðibýli eftir Ólöfu Þorvaldsdóttur (um Narfastaði í Melasveit).

Fjórða atriðið á dagskránni er tónlist eftir unga tónlistarkonu úr Borgarfirði Soffíu Björgu Óðinsdóttur. Soffía er meðlimur í Vitbrigðum Vesturlands. Hún er með BA gráðu í tónsmíðum og hefur vakið athygli fyrir fallega rödd og ríka tónlistargáfu. Hún kom fram á Airwaves nýverið og vinnur nú að upptökum á plötu með eigin tónsmíðum og flytur efni af henni á sagnakvöldinu. 

Ragnar Ásgeirsson var fæddur í Kóranesi í Álftaneshreppi þann 6.nóv. 1895, sonur hjónanna Ásgeirs Eyþórssonar bónda og kaupmanns þar og konu hans Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.  Hann lauk lokaprófi frá dönskum Garðyrkjuskóla  árið 1916 og lauk ennfremur prófi í skrúðgarðaarkitektúr.  Lengst af starfsævi sinni var Ragnar Garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Ísl. frá 1920-57.  Frá sama ári var hann ráðunautur B.Í. um byggðasöfn og vann að uppsetningu þeirra víða um land, m.a. kom hann að stofnun Byggðasafns Borgarfjarðar sem stofnað var formlega árið 1960 en Ragnar safnaði munum í héraðinu á árunum 1954-1960 og heimsótti 80 bæi í því augnamiði.  

Þann 12. nóvember n.k. verður hið árlega Sagnakvöld Safnahúss. Að venju verða þar kynntar nýjar bækur tengdar Borgarfirðinum og verður lesið upp úr þremur þeirra að þessu sinni:

Þá hló Skúli, ævisaga Skúla Alexanderssonar eftir Óskar Guðmundsson

Undir Fíkjutré: saga af trú, von og kærleika eftir Önnu Láru Steindal

Sindur: ljósbrot frá eyðibýli eftir Ólöfu Þorvaldsdóttur

Einnig mun Soffía Björg Óðinsdóttir koma fram á Sagnakvöldinu, en hún vinnur nú að upptökum á eigin tónlist.

 

Sagnakvöldið hefst kl. 20.00 fimmtudaginn 12. nóvember og stendur dagskráin í um það bil klukkutíma.  Að henni lokinni verða kaffiveitingar. Að venju er ókeypis inn en tekið við frjálsum framlögum í þakklátan Söfnunarbauk.

 

Þann 21. nóvember kl. 13.00 verður svo opnuð ný sýning í Hallsteinssal og ber hún heitið „Leikur með strik og stafi“  Þetta er sýning á myndverkum og textum eftir Bjarna Guðmundsson safnamann og rithöfund á Hvanneyri. Sú sýning stendur fram til 20. janúar.

Sýningin Gleym þeim ei hefur verið framlengd til 13. nóvember, en upprunalega var gert ráð fyrir sýningartíma út október. Metaðsókn hefur verið að sýningunni og hefur hún hlotið einróma lof gesta.

Þar er sögð saga fimmtán kvenna af starfssvæði safnanna og fór öll efnisöflun fram í nánu samstarfi við fjölskyldur þeirra sem rituðu texta og útveguðu myndir og gripi. Þess má geta að þegar sýningin verður tekin niður verður hún skrásett og heimildirnar settar á Héraðsskjalasafn til framtíðarvarðveislu, með góðfúslegu leyfi höfunda.

Aðsókn að Safnahúsi hefur aukist til muna á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við 2014. Aðsókn að sýningum hefur aukist um 32 % og að bókasafni rúm 10 %.  Er þetta einkar ánægjuleg þróun fyrir markmið sveitarfélagsins um húsið sem menningarmiðstöð í héraði.

Grunnsýningar hússins, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna hafa báðar fengið lof í erlendum ferðahandbókum og á alþjóðlegum ferðamálasíðum. Ekki síst hefur listræn og falleg hönnun Snorra Freys Hilmarssonar vakið athygli, en sýningarnar eru báðar hannaðar af honum.

 

Sýningin Gleym þeim ei er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss. Hún er hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur og er með aðsóknarmestu tímabundnu sýningum Safnahúss. Fyrirhugað var að sú sýning stæði út október en ákveðið hefur verið að framlengja líftíma hennar fram í miðjan nóv. 

Þess má svo geta að laugardaginn 21. nóvember verður opnuð sýning á myndverkum Bjarna Guðmundssonar prófessors á Hvanneyri en hann er forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands og miðlar ómetanlegum fróðleik um vinnulag og búskaparhætti í máli og myndum.

Safnahús verður með erindi um sýninguna Gleym þeim ei á hátíðinni Hvalfjarðardögum sem hefjast í dag.  Það er Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður sem segjr frá hugmyndafræði sýningarinnar og Þóra Elfa Björnsson segir frá móður sinni Halldóru B. Björnsson og hennar fólki.  Þetta er samtals um 40 mín. dagskrá með ljósmyndaívafi og hefst kl. 17.00 á Hlöðum í Hvalfirði. Það er Safnahúsi mikill heiður að taka þátt í dagskrá hátíðarinnar með þessum hætti en nánar má sjá um aðra dagskrárliði á www.hvalfjardarsveit.is

Þann 10.ágúst lauk sumarlestri Safnahúss þetta árið.  Alls tóku 30 börn á aldrinum 6-12 þátt og samtals lásu þau 130 bækur.  Prýðisgóður árangur það, þó héraðsmetið sem sett var á síðasta ári væri ekki slegið að þessu sinni.  Þann 14.ágúst var svo árleg uppskeruhátíð haldin í Safnahúsi þar sem farið var í leiki, m.a. var reynt við hinn öldnu íþróttagrein að stökkva yfir sauðalegg, þrátt fyrir fína tilburði gesta tókst engum hið ómögulega.  Að venju var boðið upp á veitingar og viðurkenningar afhentir og tilkynnt um vinningshafa.