Ragnar Ásgeirsson var fæddur í Kóranesi í Álftaneshreppi þann 6.nóv. 1895, sonur hjónanna Ásgeirs Eyþórssonar bónda og kaupmanns þar og konu hans Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.  Hann lauk lokaprófi frá dönskum Garðyrkjuskóla  árið 1916 og lauk ennfremur prófi í skrúðgarðaarkitektúr.  Lengst af starfsævi sinni var Ragnar Garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Ísl. frá 1920-57.  Frá sama ári var hann ráðunautur B.Í. um byggðasöfn og vann að uppsetningu þeirra víða um land, m.a. kom hann að stofnun Byggðasafns Borgarfjarðar sem stofnað var formlega árið 1960 en Ragnar safnaði munum í héraðinu á árunum 1954-1960 og heimsótti 80 bæi í því augnamiði.  

Þá kenndi hann jafnframt á fjölmögum námskeiðum og var stundakennari um hríð.  Ragnar giftist Margrethe Harne Ásgeirsson árið 1921 og saman eignuðust þau bjögur börn, Evu Harne, Úlf, Sigrúnu Harne, og Hauk.  Þau hjón bjuggu í Reykjavík, á Laugarvatni og Hveragerði til fjölda ára en jafnframt í þrjú ár í Borgarnesi frá 1940-1943. Ragnar skrifaði fjölmargar greinar í blöð og tímarit um margvísleg málefni, ekki hvað síst um garðyrkju, ræktun og menningarmál. Hann hélt jafnframt fjölda erinda um land allt sem og í útvarp.  Þá orti hann kvæði og við sum þeirra hafa verið gerð vinsæl sönglög.  

 

Nokkrar bækur sendi Ragnar frá sér: Bændaförin 1938, Strákur heima og erlendis kom út 1942 og er einskonar ævisaga Ragnars til þess tíma.  Skrudda I-III kom út á árunum 1957-59 en þar safnaði Ragnar saman sögnum, munnmælasögum og kveðskap fyrri tíma af landinu öllu.  Skömmu fyrir andlátið kom endurbætt útgáfa af safninu, í þriðja bindi þeirrar útgáfu mátti finna æskuminningar Ragnars frá Mýrum ásamt ljóðabréfum hans og lausavísum.  Jafnframt er þar að skrifa fróðlega grein Guðmundar Jósafatssonar frá Brandsstöðum um Ragnar. 

 

Eitt af kvæðum Ragnars nefnist Bærist varla blað á grein, við það og raunar fleiri kvæði hans samdi Sigvaldi Kaldalóns lög sem oft hafa verið sungin og gefin út. 

 

Bærist varla blað á grein

blikar döggin tær og hrein,

flýgur æður furðu sein,

faldi´hún eggin bak við stein.

Sefur á bænum silkirein,

svefninn læknar hugans mein.

Hverfur sorgin ein og ein

út í geiminn víða.

Loftið er blátt og ljósgrænt upp til hlíða.

 

Ragnar Ásgeirsson lést árið 1973, tæpum tveimur árum eftir lát konu sinnar Grethe.

 

Mynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

 

Categories:

Tags:

Comments are closed