Sagnakvöld Safnahúss verður kl. 20.00 fimmtudaginn 12. nóv. Það er árlegur viðburður á vegum Héraðsbókasafns þar sem það helsta í borgfirskri útgáfu er kynnt og lesið upp úr nokkrum nýjum bókum. Dagskráin  tekur um klukkutíma og heitt verður á könnunni á eftir.  Að venju verða bækur seldar á staðnum og áritaðar sé þess óskað. Lesið verður upp úr eftirtöldum bókum:

Þá hló Skúli– ævisaga Skúla Alexanderssonar (alþingis- og athafnamanns á Hellissandi) eftir Óskar Guðmundsson

Undir Fíkjutré – saga af trú, von og kærleika eftir Önnu Láru Steindal (saga innflytjandans Ibrahem Al Danony Mousa Faraj, ekki síst  eftir að hann kemur til Íslands)

Sindur- ljósbrot frá eyðibýli eftir Ólöfu Þorvaldsdóttur (um Narfastaði í Melasveit).

Fjórða atriðið á dagskránni er tónlist eftir unga tónlistarkonu úr Borgarfirði Soffíu Björgu Óðinsdóttur. Soffía er meðlimur í Vitbrigðum Vesturlands. Hún er með BA gráðu í tónsmíðum og hefur vakið athygli fyrir fallega rödd og ríka tónlistargáfu. Hún kom fram á Airwaves nýverið og vinnur nú að upptökum á plötu með eigin tónsmíðum og flytur efni af henni á sagnakvöldinu. 

Aðgangur er ókeypis en söfnunarbaukur á staðnum. Ljósmynd: frá sagnakvöldinu 2014.

 

Einnig skal minnt á fyrirlestur og bókarkynningu í Safnahúsi

laugardaginn 14. nóv. kl. 11.00: Þar verður kynnt bókin Utangarðs? Ferðalag til fortíðar, eftir Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði H. Jörundsdóttur.  Myndskreytingar eru eftir Halldór Baldursson. Höfundar kynna. Bókin fjallar um utangarðsfólk á Vesturlandi og Vestfjörðum og á laugardaginn verður sérstaklega sagt frá borgfirsku fólki; Svani Jónssyni frá Grjóteyrartungu og Kristínu Pálsdóttur frá Eystri-Leirárgörðum (var víða í Borgarfirði, m.a. á Gilsbakka).

 

Laugardaginn 21. nóv. kl. 13.00 verður svo opnuð sýning á myndyrðingum Bjarna Guðmundssonar: „Leikið með strik og stafi“, sjá nánar auglýst síðar. 

Categories:

Tags:

Comments are closed