Alls eru fimm sýningar í gangi í Safnahúsi í sumar og sumarlesturinn er hafinn á bókasafninu. Margir voru orðnir bókþyrstir eftir lokun safnanna í vor og fólk hefur verið duglegt að sækja sér bækur. Ný sýning var opnuð um miðjan júní og hefur hún fengið heitið 353 andlit (sjá mynd). Heitið vísar til þess að á sýningunni eru ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir, myndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga Bjarnasonar sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Sú sýning verður opin fram í september.
Sýningin Saga úr samfélagi (sjá mynd) var opnuð 27. júní, en það er segir frá framtaki Eyglóar Lind Egilsdóttur í Borgarnesi, sjö barna móður og ömmu í Borgarnesi sem gladdi marga á erfiðum Covid-tímum í vor með því að búa sig upp í mismunandi búninga og guða á gluggann hjá barnabörnum sínum í sóttkví. Sonja dóttir hennar náði myndum af þessu og skrifaði skýringartexta. Þær myndir hefur hún góðfúslega samþykkt að gefa á Héraðsskjalasafnið. Með fleiri myndum er á sýningunni varpað frekara ljósi á konuna að baki þessu vinsæla framtaki.
Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævinýri fuglanna, báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni. Auk þessa eru minni sýningar í húsinu og má þar nefna sýningu um harmleikinn sem varð haustið 1936 þegar franska rannsóknaskipið Pourquoi pas strandaði við Straumfjörð.
Héraðsskjalasafnið starfar að einhverju leyti takmarkað yfir sumartímann vegna sumarleyfa, en brugðist verður við erindum og fyrirspurnum eins og kostur er.
Í septembermánuði hefjast að óbreyttu aftur viðburðir á vegum hússins.
Upplýsingar um opnunartíma og aðgangseyri má finna á forsíðu.
Ljósmyndir Guðrún Jónsdóttir.
Comments are closed