Safnahús var með innlegg í félagsstarf aldraða að Borgarbraut 65a í Borgarnesi í hádeginu, sem hluta af sumardagskrá á vegum félagsstarfsins. Það er Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir sem skipuleggur dagskrána og er hér á mynd með þátttakendum, sem hlýddu á Guðrúnu Jónsdóttur safnstjóra rifja upp skrif Kristleifs Þorsteinssonar um háskaferð frostaveturinn 1881 frá Húsafelli til Reykjavíkur. Þess má geta að það verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá hjá félagsstarfinu næstu þrjár vikurnar sem hægt er að nálgast á heimasíðu Borgarbyggðar.

Kristleifur Þorsteinsson
Kristleifur var fæddur árið 1861 og lést 1952. Hann var þekktur fyrir vandaða sagnaritun um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stærstan þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi  reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði.

Ljósmynd (GJ) f.v.: Fanney Hannesdóttir, Júlíana Hálfdánardóttir,  Sveinn Hallgrímsson, Ása Sigurlaug Halldórsdóttir, Guðbjörg Svavarsdóttir, Sigrún D. Elíasdóttir, Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir og Gerður Karitas Guðnadóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed