Pourquoi pas? (ísl)

Í apríl 2016 var opnuð veggspjaldasýning í Safnahúsi þar sem rifjaður var upp sá hörmulegi atburður þegar franska rannsóknaskipið Pourquoi pas sökk við Straumfjörð á Mýrum haustið 1936. Sýningarhönnun annaðist Heiður Hörn Hjartardóttir. Hér á eftir má sjá texta sýningarinnar og nokkrar ljósmyndir (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar). Nokkrar merkustu myndirnar voru teknar í Straumfirði rétt eftir strandið, af Finnboga Rúti Valdimarssyni, en fjölskylda hans gaf safninu þær 2016.

File3484 (1)Jean-Baptiste Charcot

Franski landkönnuðurinn og vísindamaðurinn Jean-Babtiste Charcot var fæddur í  Neuilly í Frakklandi árið 1867.  Hann lagði stund á læknisfræði en hafði alltaf verið heillaður af sjónum og langaði til að verða sjómaður.  Um aldamótin 1900 ákvað hann að hætta í námi og láta drauma sína um sjóferðir rætast.

Árið 1901 gerðu ýmsar þjóðir út leiðangra til Suðurheimskautsins. Charcot langaði til að Frakkland tæki þátt og ákvað að verja mestum hluta eigna sinna í að fjármagna slíkan leiðangur. Árið 1903 var hafin smíði skips til ferðarinnar og fékk það nafnið Français.

 

Farsæll ferill

Skemmst er frá að segja að Charcot varð afar farsæll vísindamaður og áttu leiðangrar hans m.a. mikinn þátt í framförum í kortagerð. Hann sigldi bæði til Suður- og Norðurpólsins. Ferðirnar voru þó síður en svo hættulausar og eftir að Français kom laskað úr leiðangri árið 1905 var það selt. Árið 1908 lét Charcot hefja smíði skips sem fékk nafnið Pourquoi pas (= af hverju ekki?) Það var þrímastra og sérstyrkt til siglinga á heimskautasvæðum.

 

Thora_CharcotStopp á Íslandi 1936

Charcot varð einn af frægustu landkönnuðum heims. Alls hafði hann gert út 27 leiðangra til heimskautasvæðanna þegar hann kom sem oftar við í Reykjavík vegna bilunar í Pourquoi pas? í byrjun september 1936. Viðgerðir tóku um tvær vikur. Þann tíma má gera ráð fyrir að Charcot hafi nýtt til að hitta fólk sem hann hafði kynnst á fyrri ferðum sínum til bæjarins. Má þar nefna Þóru Friðriksson (1866-1958), mikilhæfa konu sem var vel heima bæði í franskri tungu og menningu. Þóra var fjölskylduvinur Charcots og til eru bréf sem hann og Meg kona hans skrifuðu henni á árabilinu 1925–1952. Síðasta bréf Charcots til Þóru er skrifað á jóladag 1934.

 

Óveður

Þriðjudaginn 15. september var viðgerð lokið og kl. 13.00 lagði Pourquoi pas? úr höfn. Engan grunaði þá þau örlög sem biðu skipverjanna. Þeir voru 41 talsins; einvala lið reyndra fræðimanna og sjómanna. Áhöfnin var farin að hlakka til að komast heim en förinni var þó fyrst heitið til Danmerkur þar sem danska Landfræðingafélagið ætlaði að heiðra Charcot fyrir vísindastörf hans.

 

Örlög ráðast

Talið er að Pourqoui pas? hafi verið statt fyrir utan Reykjanes þegar ofviðri skall á. Skipinu var snúið við og haldið inn á flóann til skjóls en veðrið herti og kl. 22.00 var komið ofsarok. Margir sem voru á hafi úti þessa nótt telja veðrið vera það harðasta sem þeir hafi fengið á sjó. Í viðtali við Þjóðviljann tæpum fimmtíu árum síðar rifjar Ingibjörg Friðgeirsdóttir húsfreyja á Hofsstöðum á Mýrum upp minningar sínar frá nóttinni sem í hönd fór:

„… daginn áður hafði ég verið að taka upp fáeinar kartöflur og látið þær í járnpott – hann var nokkuð stór  … Ég sá hann hvergi, þegar ég kom út, en bjóst við að hann væri einhvers staðar nærri. En rokið hafði verið það mikið að hann hafði tekist á loft í heilu lagi og það fleygt honum nokkra metra yfir í brekkuna hinum megin. Þar hafði hann skollið svo hastarlega niður að hann klofnaði upp úr … “

Í þessum ósköpum bar Pourquoi pas af leið en ætlunin var að leita aftur til Reykjavíkur. Hraktist skipið inn í skerjagarðinn við Mýrar. Daginn eftir barst sú fregn að það hefði strandað við skerið Hnokka nálægt bænum Straumfirði. Veður var enn slæmt. Slysavarnarfélagið sneri sér til Akraness og mb Ægir var sendur á staðinn, nýr bátur í eigu Sturlaugs Haraldssonar. Unnu skipverjar þrekvirki við að ná áfangastað. Tíu manns voru um borð og lagt var upp kl. 10.00. Þegar Ægir kom á slysstað sást ekkert af skipinu nema einn masturstoppur. Skipverjar fengu þá þau skilaboð að aðstoðar þeirra væri ekki þörf, en komust ekki út vegna slæms sjólags og fóru flestir í land til aðstoðar. Alls hafði þá 21 lík rekið á land. Var gengið eins vel frá þeim og unnt var í brekkunni við fjöruna. Fræg er ljósmynd Finnboga Rúts Valdimarssonar (1907-1989) af þessu.

 

1Einn eftirlifandi

Þegar Guðjón Sigurðsson bóndi í Straumfirði og Kristján Þórólfsson fóstursonur hans komu út á hlað um morguninn 16. september brá þeim í brún þegar þeir sáu stórt skip svo nálægt landi og áttuðu sig á að stórslys hafði orðið. Einungis einn skipverji komst af, það var Eugène Gonidec stýrimaður. Hann hafði náð að halda sér föstum á landgangi og rak þannig að landi. Þar kom Kristján auga á hann og gat náð honum úr öldurótinu og var það vel af sér vikið hjá 18 ára dreng. Gonidec var hjúkrað í Straumfirði þar sem Guðjón bjó með Þórdísi Jónsdóttur konu sinni og Sigríði Þorsteinsdóttur vinnukonu. Auk þeirra var Ingibjörg Friðgeirsdóttir fljótlega komin til aðstoðar. Þrátt fyrir örþreytu og saltstorkin augu hresstist Gonidec tiltölulega fljótt en reynt var að halda honum frá þeim gluggum hússins sem vissu að sjónum. Hann þurfti þó að bera kennsl á líkin. Sem einn eftirlifenda átti hann mjög um sárt að binda. Líkin sem fundist höfðu voru flutt til Reykjavíkur og fleiri fundust rekin síðar. Alls fórust 40 manns með skipinu þessa örlagaríku nótt.

Morgunblaðið 17. sept. 1936: „…Vér getum ekkert gert til að Iétta harm hinna syrgjandi ástvina í fjarlægu landi. Vér getum aðeins fullvissað þá um, að engin þjóð í heiminum er líklegri til að skilja sorg þeirra en vér Íslendingar.“

 

Útför frá Landakotskirkju

Útfararathöfn var haldin í Landakotskirkju 30. september og er það einhver sú viðhafnarmesta hér á landi. Var mannfjöldi á götum bæjarins og fánar blöktu í hálfa stöng. Að athöfninni lokinni voru líkin sem fundist höfðu flutt til Saint Malo í Frakklandi. Vigdís Finnbogadóttir, síðar forseti Íslands var þá lítil stúlka og minnist þessa svo:

„Það var fagur og sólríkur septemberdagur. …Mér fannst eins og allir íbúar Reykjavíkur væru þarna saman komnir. Skyndilega tóku allir karlmennirnir ofan og þá sá ég margar líkkistur bornar út úr kirkjunni…. þetta hafði svo sterk áhrif á barnssálina í mér…“

 

Eftirmáli

Í byrjun október voru lík skipverjanna komin til Frakklands. Á ströndinni stóð þögull mannfjöldi og laut höfði. Minningarathöfn var haldin í Saint-Malo og útför á vegum franska ríkisins frá Notre Dame kirkjunni í París.

 

Skammt undan landi, laust við ystu boða

í löðurróti, siglir skipið grátt,

djarft eins og fugl, sem heldur hæstu brautir,

með hjartað fullt af þrá, í sólarátt.

Þannig er haldið, líkt og fuglinn frjáls, –

sem flýgur glaður inn til dauðans sjálfs.

Vilhjálmur frá Skáholti

Kvæðið Pourquoi pas?  4. erindi.

 

 

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir – Ljósmyndir: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar (Finnbogi Rútur Valdimarsson o.fl.)

Safnahús Borgarfjarðar 2016

 

Frekari heimildir: 

http://corsairedango.fr/