Baðstofan frá Úlfsstöðum er mikil gersemi og er miðpunktur sýningarinnar Börn í 100 ár.  Þangað komu góðir prúðbúnir gestir í gær, þær Anna Dröfn Sigurjónsdóttir og Sigrún Elíasdóttir. Erindið var að taka upp myndband í baðstofunni. Þær stöllur vinna að ýmsum verkefnum saman, gjarnan á sviði ullarvinnslu, handverks og/eða þjóðlegra fræða (#sigrunoganna). Meðal þess sem þær hafa gert er að koma saman fram í hlaðvarpi Sigrúnar, Myrka Ísland. Í gær tóku þær upp kynningarefni fyrir dönsku prjónahátíðina Pakhusstrik sem haldin verður í Kaupmannahöfn nú í september. Þær útbjuggu af þessu tilefni myndræna kveðju til Dana og sýndarveruleikamyndband þannig að gestir á hátíðinni setja á sig sýndarveruleikagleraugu og eru þá staddir heima í baðstofu í tóvinnu. Þess má geta að þegar sýningin Börn í 100 ár var sett upp var Sigrún starfandi í Safnahúsi og átti mikinn þátt í hugmyndafræði hennar.  Það var svo Unnsteinn Elíasson bróðir hennar sem setti baðstofuna saman, en hún hafði verið tekin niður að tilhlutan Þjóðminjasafnsins árið 1974.

Categories:

Tags:

Comments are closed