Í vetur og sumar hefur verið unnið að flokkun og skráningu gagna og ljósmynda úr safni Júlíusar Axelssonar sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni.  Unnið var úr seinni afhendingu Júlíusar, þar voru dagbækur hans, teikningar, skrif og þúsundir ljósmynda. Er þetta mikilvægur áfangi í því stóra verkefni að flokka og skrá allt það mikla safn sem var í eigu Júlíusar.

Farið var yfir yfir 20 myndaalbúm. nokkur frá barnæsku hans og foreldrum en langflest frá honum (árin 1961-1994). Um 10 þeirra sýna uppbyggingu, viðburði og fólk í Borgarnesi á árunum 1995-1997. Myndirnar sýna ferðir Júlíusar, húsabyggingar í Borgarnesi og gatnaviðgerðir, margs konar aðra uppbyggingu og viðburði og ekki síst fólkið í bænum. Margt af skrifum Júlíusar var einnig skráð þar sem hann hafði búið til heilan heim með dagblöðum, ökutækjaskrá og sögum úr samfélaginu. Nú þegar er búið að skanna inn hunduð mynda af þeim 4147 sem voru skráðar. Þótt gríðarleg vinna sé ennþá eftir við að yfirfara og skrá gögn frá Júlíusar hefur markverður áfangi náðst og er það mikið ánægjuefni. Það var Lilja H. Jakobsdóttir félagsfræðingur sem vann verkið fyrir skjalasafnið og gerði það af mikilli alúð.  Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti verkefninu styrk sem skipti miklu máli í að það komst til framkvæmda. Þess má geta að mikið magn af ljósmyndum Héraðsskjalasafnsins hefur verið skráð í miðlæga gagnagrunninn Sarp á undanförnum árum.

Ljósmynd með frétt (GJ): Júlíus Axelsson með eitt verka sinna.

Categories:

Tags:

Comments are closed