Safnahús tekur að venju þátt í Föstudeginum Dimma í Borgarnesi, sem að þessu sinni er 17. janúar.  Ýmislegt verður á dagskrá í bæjarlífinu tengt myrkrinu þennan dag og í Safnahúsi verður unnið í anda baðstofunnar, með sögustund og vísnagátum í hádeginu. Gestum verður boðið upp á rúgbrauð með kæfu og flatbrauð með hangikjöti að ógleymdum ísköldum slurk af mysu. Fyrir þá sem ekki treysta sér í þann þjóðlega drykk verður boðið upp á kaffisopa. Það er kjörið við þetta tækifæri að ganga um núverandi sýningu í Hallsteinssal þar sem átta myndlistarkonur sýna falleg vatnslitaverk.

Föstudagurinn dimmi er viðburður í Borgarnesi á vegum þeirra Evu Hlínar Alfreðsdóttur og Heiðar H. Hjartardóttur. Með framtakinu benda þær á nánd og kosti skammdegisins og hvetja til samveru fjölskyldunnar.

Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): sviðsmynd Föstudagsins Dimma í Safnahúsi árið 2019. Í bakgrunni er fallegt málverk eftir Pál á Húsafelli, af Eiríksjökli og nágrenni hans.

Categories:

Tags:

Comments are closed