Fimmtudaginn 5. desember 2019 verður opin aðventudagskrá í Safnahúsi, þar sem fólki er boðið að koma við og hlýða á bóklestur.  Dagskráin hefst kl. 17.00 með því að eftirtaldir höfundar lesa upp úr nýjum bókum sínum:

Una Margrét Jónsdóttir  –  Gullöld revíunnar
Þorbergur Þórsson  –  Kvöldverðarboðið

Kl. 18.00 hefst svo árlegur upplestur Aðventu Gunnars Gunnarssonar sem fer fram með aðstoð sjálfboðaliða. Lesin verður þýðing Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal.  Ingibjörg Jónasdóttir spinnur á rokk meðan á lestrinum stendur og er það gert í minningu Benoníu Jónsdóttur (1872-1946) sem var fædd á Gilsbakka í Hvítársíðu og bjó síðar á Vestri- Leirárgörðum. Hún var dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sigurbjargar Steingrímsdóttur sem síðar bjuggu í Suddu í Reykholtsdal og fluttu til Ameríku vorið 1898.  Þau hjón eru fyrirmyndir af aðal sögupersónum Böðvars Guðmundssonar í bókunum Híbýlum vindanna og Lífsins tré, sem notið hafa mikilla vinsælda. Rokkur Benóníu var nýverið gefinn til Byggðasafns Borgarfjarðar og verður til sýnis við þetta tækifæri. Þess má einnig geta hér að árlega á aðventu stillum við upp litlu jólatré sem Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli smíðaði, en hann var bróðursonur Benóníu Jónsdóttur.

Aðventa Gunnars Gunnarssonar var skrifuð á dönsku og kom fyrst út á þýsku. Hún var síðan snilldarlega þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni árið 1939.

Eru gestir og gangandi boðnir velkomnir til að hlýða á upplesturinn og einnig að taka þátt í lestri Aðventu eftir því sem hentar, boðið verður upp á kaffi/te og smákökur. Þeir sem vilja taka þátt í lestrinum geta tilkynnt það á staðnum eða beðnir um að láta vita fyrirfram í Safnahúsi: safnahus@safnahus.is og/eða 433 7200.      

 

Categories:

Tags:

Comments are closed